Skerpla

Skerpla hefst ætíð á laugardegi í 5. viku sumars sem getur fallið á 19. til 25. maí. Hann er annar mánuður sumarmisseris íslenska misseristalsins sem hefst með hörpu.

Ekki er vitað um uppruna né aldur nafnsins en það kemur fyrst fyrir í rímtölum á 17. öld og þá vitnað í séra Odd Oddsson á Reynivöllum og séra Þórð Sveinsson sem þá voru uppi. Eftirfarandi tilvitnanir í þá má finna í ritmálssafni Orðabókar Háskólans:

Annar mánuður sumars kemur laugardag; hann heitir í Eddu eggtíð og stekktíð; … þennan nefnir séra Oddur skerplu og nokkrir fleiri kalla svo.

… tveir hinir síðarnefndu [þ.e. sr. Oddur Oddsson á Reynivöllum og sr. Þórður Sveinsson] kalla næsta mánuð [þ.e. eftir Hörpu] Skerplu.

Í eldri rímtölum er mánuðurinn nefndur eggtíð og stekktíð og koma þau nöfn fyrir í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu þar segir um skiptingu ársins:

Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr, þá er frermánuðr, þá er hrútmánuðr, þá er þorri, þá gói, þá einmánuðr, þá gaukmánuðr ok sáðtíð, þá eggtíð ok stekktíð, þá er sólmánuðr ok selmánuðr, þá eru heyannir, þá er kornskurðarmánuðr.

Þar sem fardagar eru um miðjan mánuðinn taldist samkvæmt Snorra því sperpla vera mörk vors og sumars sem bæði veðurfarslega séð sem og náttúrufarslega stemmir.

Ólíklegt er talið að öll þau heiti sem nefnd eru í Snorra-Eddu hafi verið nöfn mánaða misseristalsins þar sem mörg þeirra eru almennar vísanir í hringrás ársins eins og þau verk sem unnin eru á viðkomandi tíma eða hverra veðra gæti verið von.

Má líka af þessum tvemur heitum í Snorra-Eddu auðveldlega sjá að þau vísa til þess að í skerplu var varptími nytja fugla og því tími eggjatínslu sem skýrir heitið eggtíð og hinsvegar heitið stekktíð sem vísar til þess að á þessum tíma vors gengu lömb óhindrað undir mæðrum sínum að degi til og gátu drukkið mjólk þeirra en voru aðskilin frá þeim inn í stekk á næturnar. Stekkur er sérstök fjárrétt með lambakró inn af með hurð til að aðskilja lömbin frá mæðrum sínum svo hægt væri að mjólka ærnar.

Hvað nafnið skerpla merkir og hvaðan komið er heldur ekki vitað. Ásgeir Blöndal Magnússon taldi að skerpla væri vísast skylt lýsingarorðinu skarpur ‘beittur, hvass, harður, skorpinn’ og nafnorðinu skerpa sem skylt er nýnorska orðinu skjerpe ‘hrjóstur, jarðþurrkur’, færeyska orðinu skerpa ‘vindþurrkað kjöt’ og orðinu skärpa ‘þurrt, ófrjótt land’ í sænskum mállýskum.

Samkvæmt Ásgeiri Blöndal vísaði þá nafnið skerpla líklega til lítils gróðurs að vori sem gat orðið ef veðri hagaði svo til og eðlilegur ótti bænda á þessum tíma árs þar sem þetta var tími lamba og fráfæra og bændur háðir útibeit enda alls óvíst að nokkuð væri eftir að heyi í húsi eftir veturinn.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Skerpla
▶︎ Vísindavefurinn, Hvenær er skerpla og af hverju ber mánuðurinn það nafn?
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Fardagar