Stúfur

Stúfur kemur þriðji Jólasveina til byggða þann 14. desember.

Stúfur er minnstur þeirra sveina eins og nafn hans ber með sér. Hann situr um illa þrifnar pönnur og etur allar þær örður og agnir sem brunnið hafa við þær fastar. Svo að öllum líkindum er hann tenntur vel með stálullar tungu og máske betri en nokkur bursti þegar kemur að pönnuþrifum.

Svo ef sú gamla lúna er einn morguninn sem ný má geta sér þess til hver hafi komið við í pottaskápnum þá nóttina.

Um hann kvað Jóhannes úr Kötlum

Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.
Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

En hver er hinn óræði Stúfur

Í greininni Nöfn jólasveina á vef Árnastofnunar sem Árni Björnsson ritaði og ég tengi í hér að neðan, tekur Árni saman öll þau nöfn sem fundist hafa á Jólasveinum og meðal annars flokkar þá eftir hverskonar staular hver þeirra er.

Þar fer einna mest fyrir matartengdum sveinum og þjófum, hrekkjalómum og það sem hann kallar náttúruvætti, það er umhverfisfyrirbæri eða missýningar og af þeim þrettán sem vitja okkar í dag setur þá Stekkjarstaur og Giljagaur í þann flokk og einnig Stúf þó að vísu með spurningarmerki. Síðasti flokkurinn í töflu Árna er þeirra mynstur og inniheldur aðeins þá Stúf og Kattarvala og nefnir þann flokk „Utan flokka,“ væntanlega meinandi að ekki sé hægt með góðu móti að skilja þá og flokka almennilega eins og öll þau mörgu Jólasveinanöfn sem fundist hafa þá eru eingöngu þeir tveir sem lenda utan gátta.

Til þess að reyna að nálgast hvað eða hver Stúfur gæti verið er því best að byrja á því að nefna söguna um Kattarvala og hví Árni vill setja hann utan flokka með Stúfi.

Kattarvali kemur aðeins fyrir í einni sögu í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og gerist sú saga á Austfjörðum. Í þeirri sögu koma Jólasveinarnir af hafi utan en ekki ofan úr fjöllum og eru til nokkrar fleiri slíkar þjóðsögur en þær eru allar um elstu gerð og lýsingu á þeim sveinum það er þá að þeir sé forynjur hinar mestu, klofnir upp að herðarblöðum og búklausar, með klær í stað fingra og táa og fæturnir hringlaga. Ólíkt því að þeir kæmu einn af öðrum á hvern bæ þá skiptu þeir sér niður á bæi, einn á hvern bæ og ekki er nefnt um þá annað en að þeir væru sólgnir í flot. Enda af öllum þeim Jólasveinanöfnum sem til eru önnur en þau 13 sem við notum í dag þá eru nokkur þeirra einmitt tengd floti eins og Flotgleypir og tvær þeirra fáu Jólasveina sem eru kvenkyns þær Flotsokka og Flotnös. En af öllum þeim sögum sem af þessum púka Jólasveinum eru til er aðeins einn nafngreindur og það er þessi Kattarvali. Sagan er eftirfarandi:

Margt er undarlegt í háttsemi jólasveina sem hér segir.

– Einu sinni var maður á ferð og kom að læk. Sátu þar margir menn í röð og þurrkuðu sér allir í einu á sömu þurrkunni, sá maðurinn að þetta voru jólasveinar að búa sig undir vistarverur sínar, lenti einn þeirra á heimili hans.

Einu sinni mættust þeir fyrir fjósdyrum og ræðst jólasveinninn á fjósamanninn sem kaffærði hann í fjóshaugnum. Æpti þá jólasveinninn hátt: Kattarvali, kom þú hér, kæri bróðir, hjálpa mér.

Kom þá jólasveinninn af hinu búinu og varð fjósamaður að flýja.

Kattarvali er því eini nafngreindi Jólasveinninn af elstu gerð þeirra og ekki auðvelt ef ekki ómögulegt að ráða í nafn hans. En þó er vitað hvað hann gerir því allir Jólasveinarnir af elstu gerðinni sóttust fyrst og fremst eftir floti. En hvernig það tengist köttum er ómögulegt að segja því það er ekkert sem tengir ketti við flot, þeir eru ekkert sólgnir í það sjálfir.

Þá komum við aftur að Stúfi. Það sem einkennir nær öll nöfn Jólasveinanna er að þau eru samsett orð, Kerta-sníkir, Potta-sleikir, Hurða-skellir og svo framvegis. Örfáir bera mannanöfn og eru það þá líka þekkt mannanöfn og ekki samsett en nafnið Stúfur er ekki til sem mannanafn. Nafn hans er ekki samsett og hann er einn þeirra sem kemur hvað oftast fyrir í heimildum en það á við um alla 12 bræður hans einnig en aðeins hann heitir einu nafni og þá spyr maður sig afhverju?

Samkvæmt ljóði Jóhannesar úr Kötlum þá krækti Stúfur sér í pönnu og sleikti eða skóf það sem við hana brann svo afhverju heitir hann þá ekki Pönnusleikir eða Pönnuskefill þar sem hann á bræðurna Pottasleiki/Pottaskefil og Þvörusleiki. Nei, hann heitir Stúfur, sem er ekki í neinu samræmi við öll hin Jólasveinanöfnin og þessvegna setur Árni hann utan flokka en einnig þó með spurningarmerki í flokk umhverfisfyrirbæra eða missýninga þótt ekki séu nein bein rök fyrir því önnur en að þetta sérstaka nafn hans hafi verið nafn á einhverju fyrirbrigði sem fólk sá stundum bregða fyrir, að fólki sýndist það sjá bregða fyrir stúf en þá meinandi hvað? Um það hefur hvergi verið ritað.

Ef við flettum upp á orðinu stúfur í orðabókum og leitum uppi elstu myndir þess þá sjáum við að það virðist ekki hafa verið notað á neinn annan hátt áðurfyrr en í dag, það er að það þýðir bútur eða stubbur af einhverju, helmingur af heilum hlut væri hægt að segja. Dæmi eins og ef fólk missti hálfan handlegg eða fótlegg. Að vísu þá vísar orðatiltækið „að fara á stúfana“  til heilla fótleggja í rauninni ef vel er skoðað en þó er orðið stúfur sjaldnast notað um fótleggi nema þeir séu hálfir utan í þessu orðatiltæki.

Sambærilegt er að kalla dreng stúf eða stubb ef hann væri hálfur fullvaxta maður á hæð og þannig er það alveg sama merkingin. Svo ef Jólasveinninn Stúfur fékk nafn sitt af einhverju náttúrufyrirbrigði eða missýn þá höfum við það eitt ef við miðum við nafnið að það hafi verið helmingur af einhverju og því ekki heilt. En hvað það var eða er sem þarna var aðeins hálft er ómögulegt að geta sér til um og engar sögur af honum né pönnuþvottur hans vísar til neins sem er hálft.

Hugleiðing og tilgáta um mögulega skýringu á nafni Stúfs

Ein skýring gæti verið mögulegt þótt kannski langsótt og engar heimildir í raun til sem styðja hana svo hún getur aldrei verið annað en tilgáta eða hugleiðing. Sem er það eins og Árni nefnir um þrjú þau nöfn sem hann setur í flokkinn Matargoggar að þau gætu hafa verið nöfn á verkfærum en það eru nöfnin Flautaþyrill, Pottaskefill og Skefill. Skefill kemur fyrir í nokkrum Jólasveinanöfnum en þá alltaf í samsettum nöfnum nema í einni heimild er einn þeirra einfaldlega kallaður Skefill. Skefill er nafn á tæki til að skafa eða skrapa með og samsetningarnar því tengdar því sem skafa átti, Pottaskefill sem dæmi er því eðlilegt nafn á tæki til að skafa innan úr pottum.

Ef við síðan skoðum röðina á þeim kumpánum eins og þeir koma fyrir í þeirri röð sem elst og best er þekkt og Jóhannes úr Kötlum miðaði við þótt tvö nafna hanns hafi ekki fest sig í málinu, þá eins og Árni nefnir eru þeir tveir fyrstu mjög erfiðir og erfitt að staðsetja og ráða í sem og þann þriðja Stúf. En ef við skoðum þá þrjá sem næstir koma þá eru þeir allir sleikjur, en sleikja er ekki bara nafn yfir athöfnina að sleikja eitthvað, heldur einnig eldhúsáhaldið sleikja og það notum við enn þann dag í dag. Þessir þrír sleikjandi eða hugsanlega eldhústæki eru Þvörusleikir, Pottasleikir og Askasleikir.

Nú, kannski nokkuð langsótt en hugsanlegt. Stúfur fæst við pönnur, svo kemur þvaran, pottar og loks askar, allt eru þetta matar og eldhúsílát auk þvörunnar. Að til hafi verið verkfæri til þess að sleikja af, það er fjarlægja það sem er laust og lint rétt eins og við eigum, notum og köllum sleikjur, og þær verið mismunandi að gerð og lögun allt eftir því úr hverju eða af hverju átti að sleikja er alveg hugsanlegt. Þar sem þessar þrjár sleikjur koma allar í röð á eftir Stúf en hann einnig kenndur við eldhúsílát þótt hann hafi ekki heitið Pönnusleikir þá er það fræðilegur möguleiki að í Dölunum þaðan sem þessi elsta heimild um nöfn og röð þeirra kumpána kemur og við notum í dag hafi einfaldlega verkfærið pönnusleikir verið kallað stúfur.

Kannski nokkuð langsótt en þó fræðilega hugsanlegt. Svo ég læt þessa hugleiðingu fljóta hér með þótt ég sé ekki með því að segja að ég telji að svo hafi verið, aðeins að ef skoðað er eins og ég fer yfir þá gæti þetta hafa verið svo, forsendurnar eru þarna en heimildirnar engar og engin heimild til þess efnis að til hafi verið nokkurntímann neitt eldhúsverkfæri til að þrífa pönnur með sem hafi verið kallað stúfur.

Eina sem gæti bent til þess að slíkt verkfæri hefði getað hlotið slíkt nafn er að þar sem barmur pönnunnar er mjög lár samanborið við pott sem dæmi að þá hafi sleikja sem hafi verið notuð í pönnur verið mikið styttri en aðrar og því hafi hún kannski og þá kannski meira í gamni en alvöru oft verið kölluð stúfur. Vissulega langsótt, en samt verð hugleiðing enda tel ég persónulega að flest ef ekki öll nöfn Jólasveinanna séu tilkominn með slíkum eða álíka hætti og að verið sé að persónugera hluti, verknað og fyrirbrigði sem voru mörg hver almennir hversdagslegir hlutir en fyrir Jólin hafi þeir verið ef svo má segja „lífgaðir við“ og notaðir sem skemmtanir í skammdeginu.

En á meðan engin önnur tilgáta kemur fram um hví hann einn af sínum 13 bræðrum heitir ósamsettu nafni og jafnvel Árni sem við getum sjálfsagt sannmælts um að sé einna fróðastur um þjóðhætti gefst upp og flokkar hann ásamt Kattarvali sem óflokkanlegan, nema ef vera skyldi að hann hafi verið einhverskonar náttúrufyrirbrigði eða missýn, þá getum við sjálfsagt lítið gert annað en það sem við höfum almennt gert að draga upp þá mynd af honum að hann sé helmingi lægri í loftinu en bræður sínir þótt engin skýring finnist á því hví svo ætti að vera.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Stúfur
▶︎ Almanaksvefurinn, Íslensku Jólasveinarnir
▶︎ Árnastofnun, Nöfn jólasveina