Þetta litla almanaksverkefni mitt varð upphaflega til vegna þess að svo margir gleyma eða ruglast á því á hvaða degi hver Jólasveinn kemur til byggða. Því útbjó ég lítið tölvualmanak yfir alla þá sveina og hvaða dag hver þeirra kæmi til byggða. Var það lítil tölvudagatals viðbót sem hægt var að hlaða inn í hvaða tölvudagatal sem er.
Auk þess skrifaði ég eða jók við upplýsingar um hvern Jólasvein á Íslensku Wikipedía og setti inn tengla bak við nöfn þeirra á viðkomandi greinar. Þetta var árið 2010 og mikið vatn runnið til sjávar síðan og almanakið því að skríða yfir 15 ára afmæli.
Það var ekki hægt að láta staðar numið þarna fyrir grúskara eins og mig svo næst setti ég inn hátíðisdagana í kringum Jól og Nýár og hef smám saman verið að bæta við öllum helstu Hátíðis- og Tyllidögum á Íslandi.
Svo fór ég að færa þessar Wikipedía greinar hingað inn á þennan vef ásamt því að bæta við auknum og ýtarlegri upplýsingum og loks í lok ársins 2020 kláraði ég að skrifa um nær alla Hátíðis- og Tyllidaga þessa litla almanaks hér á þennan vef, þótt einum og einum degi hafi verið bætt við síðan en meginvinnan farið í að auka við hverja grein um sögu þessara daga auk þess að uppfæra fyrir hvert ár með tölvudagatalsviðbótinni.
Fyrir mér vakti frekar en einungis skrifa um þá daga sem við öll þekkjum og annaðhvort höfum eitthvert tilstand í kringum eða við þá miðum með einum eða öðrum hætti, hef ég smám saman verið að bæta inn dögum og upplýsingum um þá, dögum sem fæst fólk þekkir hvorki haus né sporð á.
Er það til þess gert að fylla upp í eyðurnar og þétta þá alþýðusögu sem lesa má út úr þeim dögum sem á einhverjum tímapunkti í sögu þjóðarinnar hafa haft eitthvað gildi eða skýra út baksögu hvers annars. En eingöngu þannig fæst einhver heildarmynd, það er að segja sú mynd sem hægt er að sjá um líf fólks í gegnum aldirnar.
Við sem skrifum hinn Opna Alfræðivef Wikipedía, þurfum að fylgja mjög stífum reglum og fylgjum þeim fúslega í hvívetna, enda um alfræðivef að ræða og hvernig alfræðiefni er skrifað er almennt samkomulag hvernig það sé gert.
Þessi vefur aftur á móti er almanaksvefur, og því gilda ekki sömu reglur um hann og á Wikipedía. Því geta hinar ýmsu upplýsingar sem ekki eiga við á alfræðivef, þótt bæði séu þær fróðlegar og oft mjög skemmtilegar, samt átt erindi til fólks og á almanaksvef leyfist um slíkt að skrifa án þess að fylgja reglum Alfræðivefs.
Mér leyfist auðvitað að breyta og bæta við greinum á þessum vef án þess að fylgja stífum reglum Alfræðivefs, en hef valið að vinna hann með sama CC höfundarleyfi og Wikipedía, svo öllum er frjálst að nota það efni sem á vefnum er eins og fólki leyfist að nota efni sem á Wikipedía er.
Vona ég að fólk geti haft af þessu bæði gaman og gagn því á bak við flesta þessara tyllidaga okkar leynast sögur um stjórnarfar, atvinnuhætti, trú og almennt hugsunarhátt þjóðarinnar í gegnum aldirnar. Hvað hefur breyst og hvað ekki, því það er meira en fólk grunar sem hefur haldist nær óbreytt að öllum líkindum frá því fyrir Landnám og á rætur sínar í hinum Samnorræna- og germanska menningarheimi Fornaldar.
Sú saga þegar grant er skoðað er að stærstum hluta til alþýðusaga okkar. Hvernig venjulegt fólk lifði lífinu ólíkt hetju-og frægðar Íslandssögunni sem nóg er búið að skrifa um, og okkur vantar ekki mikið meira að lesa um Ingólf Árnason né Jón Sigurðsson, nóg er búið að skrifa þá Íslandssögu, en minna hefur farið fyrir þeirri sögu sem er hin eina raunverulega Íslandssaga, það er alþýðusaga alls þorra fólks sem byggt og búið hafa á Íslandi.
Þið sjáið því hví ég segi að þetta sé verk í endalausri mótun en þar sem þetta er bara sjálfboðaliða hobbí hjá mér þá gerist þetta bara á þeim hraða sem ég hef tíma til.
Svo vona ég að fólk hafi jafn gaman af þessu litla almanaksbrölti mínu og ég. Ekki væri það heldur verra ef það gæti verið fólki til einhvers fróðleiks, að minnsta kosti hef ég lært heilmikið um Íslenska sem og aðra menningu með þessu grúski mínu, og haft bæði gaman af en ekki síður hef ég öðlast meiri og dýpri skilning á því hví hlutunum var hagað hér á landi á sínum tíma, og eins þar af leiðandi oft hví þeir eru eins og þeir eru í dag.
—
Þetta hefur verið verk í endalausri þróun og mótun, og hef ég frá upphafi almennt uppfært tölvudagatals viðbótina um hver Áramót.
En svo gerðist það árið 2020, þegar ég var búinn að skrifa um alla helstu dagana sem á þessum vef eru, að ég veiktist alvarlega og missti mestallt vinnuþrek. Svo hægt hefur á því að ég hafi aukið við efni vefsins og bætt inn nýjum dögum sem fólk hefur bent mér á og viljað sjá hér inni.
Þetta hefur haft þær leiðu afleiðingar að ég hef verið æ seinna á ferðinni að uppfæra tölvudagatals viðbótina, og ef svo heldur sem horfir, þá hef ég meiri metnað en svo að frekar legg ég hana niður heldur en að hún verði einhver hálfdrættingur. Enda margt fólk fleira en ég sem slíkt geta unnið slíka dagatals viðbót.
En þá getur það fólk tengt inn á þennan vef ef það vill bjóða upp á einhverjar meiri upplýsingar heldur en bara á hvaða degi viðkomandi árs Páskadagur væri sem dæmi. Það skiptir öllu máli að uppfærsla dagatals viðbótarinnar tefjist ekki um og of, auk þess að hún sé eins rétt og frekast er unnt, því það eru margfalt fleiri sem nota hana en fletta upp á þessum vef, þótt vefurinn fái mjög margar heimsóknir.
Að þessi tölvudagatals viðbót sé svona mikið notuð og vinsæl, hefur bæði veitt mér til ánægju, en einnig núna eftir að ég veiktist miklum höfuðverk. Því svo margt fólk er farið að stóla á að viðbótin sú áræðalegasta heimild sem tiltæk sé í tölvutæku formi, og sambærilega áræðaleg og Almanak Háskólans er í pappírsformi.
Að halda því við að fólk geti stólað á að tölvudagatals viðbótin sé eins áræðaleg og kostur er, er til lítils ef vegna heilsubrests myndast í henni göt og gloppur. Það vil ég ekki. Annaðhvort næ ég að gera þetta sómasamlega, eða afhendi þá vinnu einhverjum öðrum sem gæti sinnt henni eins vel og ég hef gert hingað til.
Skrifað 23. desember 2025, fyrst núna að fara að uppfæra tölvudagatals viðbótina. Ef mér mun ekki ganga betur á næsta ári en þetta, eða sjá fram á að verða jafnvel ennþá seinna á ferðinni, mun ég láta af því vita og leggja hana niður. Frekar en sem ég sagði hér fyrr að hún yrði bara einhver hálfdrættingur.
Þetta kemur væntanlega þó ekki í ljós fyrr en seinnipart næsta árs, en ég mun uppfæra almanaks viðbótina fyrir árið 2026 og vonandi að ná því einnig að skrifa blogg um það helsta sem því ári tengist, eins og hversu margir af hinum lögbundnu frídögum okkar Íslendinga munu verða raunverulegir frídagar, en þar getur munað miklu frá ári til árs.
Bragi Halldórsson
grúskari af guðs náð 🙂
Um flest allt efni á þessum vef gildir Creative Commons-höfundarleyfið CC-BY-SA 3.0 sem er það sama og á Wíkipedía og fólki því leyfilegt að nota efni þessa vefs samkvæmt því höfundarleyfi.
Þó eru á því örfáar undantekningar, svo ef fólk vill nota efni af vefnum sem annars er öllum guðvelkomið, er best að hafa samband við mig fyrst og einfaldast að nota síðuna Hafa samband og mun ég svara um hæl.