Um verkefnið

Þetta litla almanaks verkefni mitt varð upphaflega til vegna þess að svo margir gleyma eða ruglast á því á hvaða degi hver Jólasveinn kemur til byggða. Því útbjó ég lítið almanak yfir alla þá sveina og hvaða dag hver þeirra kæmi til byggða. Auk þess skrifaði ég eða jók við upplýsingar um hvern Jólasvein á Íslensku Wíkipedía og setti inn tengla bak við nöfn þeirra á viðkomandi greinar. Þetta var árið 2010 og mikið vatn runnið til sjávar síðan og almanakið því að skríða yfir 10 ára afmælisárið.

Það var ekki hægt að láta staðar numið þarna fyrir grúskara eins og mig svo næst setti ég inn hátíðisdagana í kringum Jól og Nýjár og hef svo smám saman verið að bæta við öllum helstu Hátíðis- og Tyllidögum á Íslandi auk þess að setja upplýsingar um þá daga inn á Íslensku Wíkipedía. Því var bak við hvern dag í almanakinu tengill yfir á Wíkipedía grein um viðkomandi dag og nægði að smella á nafn dagsins og opnast þá lítill gluggi með vefslóð á viðkomandi dag.

En svo fór ég að færa þessar Wíkipedía greinar hingað inn á þennan vef ásamt því að bæta við auknum og ýtarlegri upplýsingum og loks í lok ársins 2020 kláraði ég að skrifa um alla Hátíðis – og Tyllidaga þessa litla almanaks hér á þennann vef.

Er það vegna þess að við sem skrifum hin Opna Alfræðivef Wíkipedía þurfum að fylgja mjög stífum reglum og fylgjum þeim fúslega í hvívetna, enda um alfræðivef að ræða og hvernig alfræðiefni er skrifað er alment samkomulag hvernig það sé gert en þessi vefur aftur á móti er almanaksvefur og því gilda ekki sömu reglur um hann og Wíkipedía. Því geta hinar ýmsu upplýsingar ekki átt við þar þótt bæði séu þær fróðlegar og oft mjög skemmtilegar. En auðvitað leyfist mér að breyta og bæta við þessar greinar á mínum eigin vef á meðan ég fylgi CC höfundarleyfi Wíkipedía sem ég geri.

Vona ég að fólk geti haft af þessu bæði gaman og gagn því á bakvið flesta þessarra tyllidaga okkar leynast sögur um stjórnarfar, atvinnuhætti, trú og almennt hugsunarhátt þjóðarinnar í gegnum aldirnar og hvað hefur breyst og hvað ekki, því það er meira en fólk almennt grunar sem hefur haldist nær óbreytt að öllum líkindum frá því fyrir Landnám og á rætur sínar í Samnorræn- og Germönskum menningarheimi Fornaldar.

Sú saga þegar grant er skoðað er að stærstum hluta til alþýðusaga okkar. Hvernig venjulegt fólk lifði lífinu ólíkt hetju og frægðar Íslandssögunni sem nóg er búið að skrifa um og okkur vantar ekki mikið meira að lesa um Ingólf ÁrnasonJón Sigurðsson, nóg er búið að skrifa þá Íslandssögu en minna hefur farið fyrir þeirri sögu sem er hin eina raunverulega Íslandssaga, það er alþýðusaga alls þorra fólks sem byggt og búið hafa á Íslandi.

Þetta er verk í endalausri þróun og hef ég uppfært almanakið almennt um hver Áramót fyrir komandi ár en núna verður á því sú breyting að jafnt og þétt mun ég fjölga þeim árum sem framundan eru án þess þó að hafa sett mér nein tímamörk hvað það varðar en miða við í upphafi að hafa þau að minstakosti tvö komandi ár. Eins að til hliðar og viðbótar megin almanakinu að bæta við fleiri sérdagatölum. Enda nóg er til af efni en það eru alsekki allir sem hafa á því áhuga svo það væri að æra óstöðugann að hrúga því öllu inn í aðal almanakið.

Þar á meðal eru sem dæmi einfalt Frídaga dagatali sem eingöngu inniheldur Lögbundna Íslenska Frídaga sem ekki eru nema 16 talsins og þar væri ekkert annað efni og því geti þau ykkar sem aðeins viljið hafa inn í ykkar tölvudagatali frídaga hvers árs hlaðið því dagatali inn án alls almanaksins. Eins ennþá sértækari dagatöl sem almennt eru í almanökum, eins og sólargang, sjávarföll, vikunúmer og eins sem ég er að vinna að og vona að verði ekki of langt í, sem er að setja saman okkar gamla Íslenska misseristal rétt reiknað á þann hátt sem það var gert á öldum áður en það var með mjög ólíkum hætti en Gregoríska tímatalið sem við notum núna.

Og til skemmtunar og fróðleiks þeim sem á því hefðu áhuga, til dæmis hið forna tímatal Maja ef við framreiknum það til dagsins í dag, Kirkjutal Austurkirkjunnar sem dæmi heldur sín Jól 6. janúar á okkar Þrettánda en ekki þann 25. desember eins og við í Vesturkirkjunni. Eins tímatöl eins og Kínverska tímatalið með sín flakkandi Áramót og sér hátíðis-og tyllidaga sem og Íslamska tímatalið þar sem er 14. öld en ekki sú 21. og þá getur fólk séð helstu hátíðis-og tyllidaga þeirra, eins og hvenær þeir flykkjast til Mekka og hvenær Ramadan hefst og líkur.

Þetta eru þó bara dæmi um hugmyndir sem ég hef og á alveg eftir að sjá hver þessara dagatala ég set inn sem og hvenær. Mörg þeirra sæki ég hingað og þangað til fólks sem heldur úti sértækum vefdagatölum og því mun ég einnig koma upp sér síðu með tenglum á fleiri dagatöl sem fólk getur þá sótt sér eða fylgst með á þeim síðum þótt þau verði ekki hér.

Þið sjáið því hví ég segi að þetta sé verk í endalausri mótun en þar sem þetta er bara sjálfboða hobbí hjá mér þá gerist þetta bara á þeim hraða sem ég hef tíma til.

Svo vona ég að fólk hafi jafn gaman af þessu litla almanaks brölti mínu og ég. Ekki væri það heldur verra ef það gæti verið fólki til einhvers fróðleiks að minstakosti hef ég lært heilmikið um Íslenska sem og aðra menningu með þessu grúski mínu og haft bæði gaman af en ekki síður hef ég öðlast meiri og dýpri skilning á því hví hlutunum var hagað hér á landi á sínum tíma og eins þar af leiðandi oft hví þeir eru eins og þeir eru í dag.

Bragi Halldórsson
grúskari af guðs náð 🙂


Um flest allt efni á þessum vef gildir Creative Commons-höfundarleyfið CC-BY-SA 3.0 sem er það sama og á Wíkipedía og fólki því leyfilegt að nota efni þessa vefs samkvæmt því höfundarleyfi.

Þó eru á því örfáar undantekningar, svo ef fólk vill nota efni af vefnum sem annars er öllum guðvelkomið, er best að hafa samband við mig fyrst og einfaldast að nota síðuna Hafa samband og mun ég svara um hæl.