Hundadagar eru tiltekið skeið sumars um heitasta tímann og nú talið frá 13. júlí (Margrétarmessu) til 23. ágúst eða 6 vikur hér á landi en þeir voru áður taldir vera frá 23. júlí til 23. ágúst.
Þetta tímabil ársins á sér langa sögu aftur aldirnar og gegnum tíðina hefur dagsetningum og tímalengd þess oft verið breytt.
Nafnið mun komið frá Rómverjum er sóttu það til Forn-Grikkja. Grikkir settu sumarhitana í samband við stjörnuna Síríus sem Íslendingar kölluðu Hundastjörnuna allt frá fyrrihluta 18. aldar sem er bjartasta stjarnan í Stjörnumerkinu Stóri-hundur (Canis Major) sem um þetta leyti árs fór að sjást á morgunhimninum.
Grikkir munu hafa tekið eftir því að Síríus birtist þegar Sólin gekk inn í Ljónsmerkið og með hliðsjón af því eru Hundadagar stundum reiknaðir frá 23. júlí til 23. ágúst.
Hjá Íslendingum er Hundadaga nafnið helst tengt minningunni um Jörund, ( Jørgen Jørgensen ) sem tók sér völd á Íslandi 25. júní 1809 en hrakinn frá völdum 22. ágúst sama ár. En hann hefur almennt verið kallaður Jörundur Hundadagakonungur.
Sú veðurtrú fylgir Margrétarmessu þann 13. Júlí að ef væri rigning eða dögg myndi það sem eftir lifði sumars og hausts verða það líka eins og fram kemur í þessari veðurvísu.
Ef á Margrétarmessu er dögg
mun það lítið bæta,
þá mun haustið hey og plögg
í húsum inni væta.
Eins skyldi týna lásagras sem einnig hefur verið kallað fjögra laufa Smári eða tungljurt á þessum tíma þegar Sólin gengur inn í Ljónsmerkið eins og fram kemur í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Það vex hjá uppsprettulækjum þar jörð er góð, gult að lit og hefur eina fagurbláa rós í kollinum með smálaufum sem liggja upp eftir. Það er lítið vexti, en gefur þó af sér sterka lykt. Það skal taka þá sól gengur í ljónsmerki og geyma það í dauðsmannshári undir hægri hendi. So á sér borið hefur það upp allar skrár og lása sem það er að borið þá menn það vilja.
Íslenskar heimildir um Hundadaga
Hundadaga er ekki getið í forn íslenskum Fingrarímum enda sumarhiti ekki sama vandamál svona norðarlega sem og suður við Miðjarðarhaf. Elsta heimildin er í Rímtali Arngríms Jónssonar lærða og Guðbrands Þorlákssonar biskups frá 1597 en þar stendur við 16. ágúst: „endast hunda dagar“ en ekki er tekið fram hvenær þeir byrja.
1671 setur Þórður Þorlásson Biskup í handbók sína Hundadagar við 14. júlí og „hund. endast“ við 14. ágúst. Á 17. öld er í Rímhandritum upphaf Hundadaga ýmist sett á 11., 12., eða 13. júlí en lok þeirra við 17. eða 18. ágúst.
Hvorki eru Hundadaga getið í rími Jóns Árnasonar biskups frá 1707 né Fingrarími frá 1739. Í Almanaki sínu frá 1837 setur Finnur Magnússon upphaf Hundadaga við 23. júlí og lok þeirra við 23. ágúst. Þær dagsetningar héldust síðan í Íslandsalmanaki hans, Jóns Sigurðssonar og Þjóðvinafélagsins til 1924 en þá var upphaf þeirra fært yfir á 13. júlí, Margrétarmessu. Líku var farið víðasthvar í Evrópu að upphaf og endir hundadaga voru lengi vel á reiki.
Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Hundadagar
▶︎ Vísindavefurinn, Hvaðan kemur orðið hundadagar?
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)