Einmánuður

Einmánuður er sjötti og síðasti vetrarmánuður Íslenska misseristalsins. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um Einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra-Eddu frá 13. öld.

Hann ásamt Gormánuði, Þorra og Góu eru einu mánaðarnöfnin í misseristalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið af því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið eindagi sem þýðir síðasti dagur.

Fyrsti dagur Einmánaðar er helgaður piltum líkt og Harpa stúlkum og Þorri og Góa húsbændum og húsfrúm og ýmist kallaður Yngismannadagur eða Yngisveinadagur. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti Einmánuði og veita piltum glaðning.

Vorverk í Einmánuði

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður.

Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann géri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna.

Veðurspá tengd Einmánuði

Ekki er mikið um veðurspár tengdar Einmánuði utan að trúað var að ef fyrsti dagur Einmánaðar vari blautur boðaði það gott vor. Gæti það tengst ofangreindri lýsingu Björns og til vísubrot um það:

Þurr skyldi þorri,
þeysöm góa,
votur einmánuður,
þá mun vel vora.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
Wíkipedía, Einmánuður
▶︎ Almanaksvefurinn, Yngismannadagur
▶︎ Bækur.is, Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)


Um efni á þessum vef gildir Creative Commons-höfundarleyfið CCBYSA 3.0 sem er það sama og á Wíkipedía og fólki því frjálst að nota það að vild með þeim skilyrðum sem felast í CCBYSA 3.0 höfundarleyfinu. Þó eru örfáar undantekningar á því svo ef fólk vill nota efni af vefnum er best að hafa samband við mig fyrst og einfaldast að nota síðuna Hafa samband og mun ég svara um hæl. Þetta eru svo fá atriði sem ég hef ekki rétt til þess að leyfa notkun á að það er tel ég nánast í öllum tilfellum auðsótt að fá mitt leyfi.