Góa

Góa er fimmti mánuður vetrarmisseris Íslenska misseristalsins og hefst ætíð sama vikudag á sunnudegi í átjándu viku vetrar milli 18. til 24. febrúar. Undantekningin frá þessu er á Rímspillisárum en þá getur Góa hafist 25. febrúar. Konudagurinn er fyrsti dagur Góu og er dagur húsfreyja líkt og Bóndadagurinn fyrsti dagur Þorra er dagur húsbænda.

Góublót

Orðið Góublót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti Góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var helgaður húsfreyjunni.

Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi nærri á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á Langaföstu. Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.

Á síðari tímum hefur komist á sú hefð sums staðar á landinu að halda Góugleði í tengslum við góu á sama hátt og Þorrablót í tengslum við Þorra. Uppruna Góu og Þorrans er að finna í Orkneyingasögu. Einnig er fjallað um persónurnar Þorra konung og Gói dóttur hans í Frá Fornjóti ok hans ættmönnum í Fornaldarsögum Norðurlanda.

Góa og veðurspár

Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef Góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga. Ýmsar veðráttuspár geymast í gömlum Íslenskum vísum og hefur þjóðin tekið mark á þeim allt fram að þessu. Þar á meðal er þessi vísa:

Ef hún Góa öll er góð,
öldin má það muna,
þá mun Harpa hennar jóð
herða veðráttuna.

Sighvatur Árnason fyrrverandi alþingismaður gerði athuganir á því hvernig ýmsir veðráttuspádómar hefðu reynst á árunum 1840-1900 og skrifaði um það í Skírni 1907. Þar segir hann um þennan veðráttuspádóm:

Þau árin, 6 að tölu, á þessu árabili, sem góan var einmuna góð, stundum greri jörð, þá rættist þetta þannig, að tíðarfarið breyttist alltaf til hins verra á næstu mánuðum (Einmánuði og Hörpu) en þó einkum 3 árin í alvarleg harðindi.

Þó hafði fólk mest illan bifur á Góuþræl í lok Góu svo mikið að hann þótti einn versti óhappadagur ársins og þá sérstaklega til sjós og eru til margar sögur af aftakaveðrum og miklum mannskaða þennan dag í gegnum aldirnar.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
Wíkipedía, Góa
▶︎ Almanaksvefurinn, Konudagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Góuþræll
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)