Allraheilagramessa er kristinn helgidagur og haldinn þann 1. nóvember. Þá er meðal kristinna sameiginlegur minningardagur píslarvotta og messudagur þeirra fjölmörgu helgu manna í kristnum sið sem ekki eiga sér eigin messudag.
Allraheilagramessa varð snemma einn af helgustu messudögum Íslensku kaþólsku kirkjunnar og var ekki afnumin í þeirri mynd fyrr en árið 1770 eða rúmum 200 árum eftir Siðaskiptin. Voru þá textar og bænir sem messudeginum höfðu fylgt færðir til næsta sunnudags þar á eftir.
Í lögbókum miðalda er kveðið á um ölmusugjafir á Allraheilagramessu. Kann sá siður að vera í tengslum við Allrasálnamessu daginn eftir 2. nóvember. Þá gætu þessi ákvæði tengst því að eldri vetrarfagnaður hafi færst yfir á Allraheilagramessu eftir að kristni festist í sessi.
Upphafið
Hátíðin á sér mjög fornar rætur því vitað er til að messur þar sem beðið var fyrir látnum voru haldnar þegar á 4. öld eftir Krist. En oftast er upphaf Allraheilagramessu samt rakið til þess er Pantheonhofinu í Rómaborg var breytt í kirkju og vígsludagurinn – 13. maí árið 609 eða 610 – jafnframt helgaður öllum píslarvottum.
Gregoríus III sem gegndi embætti páfa á árunum 731–741 vígði daginn öllum sannhelgum kristnum einstaklingum svo að nú átti hann ekki lengur bara við píslarvottana eina. Um öld síðar flutti Gregoríus páfi IV hátíðina til 1. nóvember þar sem hún er enn. Til Norður-Evrópu barst hátíðin árið 835.
Allrasálnamessa
Kringum árið 1000 varð til önnur hátíð fyrir áhrif trúarlegrar siðvæðingar sem kennd er við Clunyklaustrið í Frakklandi. Þetta var Allrasálnamessa og var hún sett niður daginn eftir eða 2. nóvember og var einkum ætluð til hjálpar sálum fátækra.
Þetta var á sama tíma og kirkjan á Íslandi var að festast í sessi og þessi áhersla hefur því frá upphafi verið partur af kristnum hugmyndaheimi Íslendinga. Á 17. öld þekkist hátíðin í Íslensku máli undir nöfnunum Sálnadagur og Heilagar sálir en í rímtali 1707 er núverandi heiti komið inn og hefur verið það síðan.
Líkt og áður fyrr horfir Allraheilagramessa til þeirra sem á liðnum öldum og einnig nær í tíma hafa styrkt kristnina, nafnfrægra trúarhetja og dýrlinga einkum meðal kaþólskra. En á Allrasálnamessu er hugurinn meira bundinn öllum þeim sem við þekktum persónulega og elskum en eru nú fallnir frá. Í Íslensku Þjóðkirkjunni fara þessir dagar orðið saman sem einn væri og beðið er fyrir sálum allra látinna.
Hrekkjavaka
Kvöldið fyrir Allraheilagramessu nefnist á enskri tungu Halloween sem við upp á Íslensku köllum Hrekkjavöku. Nafnið Halloween þýðir Aðfarakvöld Allraheilagramessu og er stytting á All Hallows’ Evening eða All Hallows’ Eve og tengist deginum með þeim hætti en á lítið annað skylt við hann eins og haldið er upp á Hrekkjavöku í dag.
Allraheilagramessa á Íslandi í dag
Víða um heim er þessi dagur sem og Allrasálnamessa mikill hátíðisdagur meðal kristinna. Er það að mestu bundið við Kaþólsk lönd en lítið í þeim löndum sem Mótmælendatrú er ríkjandi og á það við hér á landi.
Í dag halda Íslendingar ekki upp á Allraheilagramessu né Allrasálnamessa en aftur á móti hefur Hrekkjavakan kvöldið áður þann 31. október smámsaman verið að festa rætur hérlendis en þá sem veraldlegur skemmtidagur með glaum og gleði en á engan hátt neinni trúarlegri tengingu.
Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Allraheilagramessa og Allrasálnamessa
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Hrekkjavaka
▶︎ Vísindavefurinn, Hvenær eru allraheilagramessa og allrasálnamessa?