8. mars – Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur þann 8. mars. Í Bandaríkjunum var fyrst haldinn hátíðlegur baráttudagur kvenna þann 28. febrúar 1909 og tengdist það Bandaríska Jafnaðarflokknum. Fram til ársins 1913 héldu Bandarískar konur daginn hátíðlegan síðasta sunnudag í febrúar.

Clara Zetkin og Rosa Luxemburg árið 1910
Clara Zetkin og Rosa Luxemburg árið 1910

1910 var haldin alþjóðleg ráðstefna Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna undir nafninu Vinnandi konur í Kaupmannahöfn. Þar lagði Clara Zetkin kvenréttindakona og leiðtogi kvennadeildar Þýska Jafnaðarmannaflokksins fram þá tillögu að stofnaður yrði Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Ráðstefnan sem sótt var af yfir 130 konum frá 16 löndum samþykkti tillöguna samhljóma.

Hvaða dag skildi halda upp á Alþjóða baráttudag kvenna var ekki ákveðið á ráðstefnunni en samt ákveðið að hann skyldi vera á sunnudegi þar sem það var eini frídagur verkakvenna í þá daga. Því voru dagsetningar nokkuð breytilegar fyrstu árin en þó alltaf í mars. Fyrstu árin voru baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna.

Fyrstu löndin til að halda upp á daginn meðal sósíalískra kvenna voru Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911. Árið 1912 bættust Svíþjóð, Frakkland og Holland við og 1913 Tékkóslóvakía og Rússland. 1914 safnaðist fjöldi kvenna saman í Þýskalandi 8. mars og var það upphafið að stórum mótmælafundum og kröfugöngum verkamanna og –kvenna sem stóðu í heila viku.

Árið 1917 fóru konur í Pétursborg í verkfall til að krefjast betri kjara. Þrátt fyrir almenn mótmæli ráðamanna héldu konurnar sínu striki. Þennan dag bar upp á 8. mars og fjórum dögum síðar sagði keisarinn af sér og bráðabirgðastjórn veitti konum kosningarétt.

Alþjóðasamband kommúnista samþykkti árið 1921 tillögu Clöru Zetkin um að 8. mars yrði framvegis baráttudagur kvenna. Var þar vísað til þeirra áhrifa sem verkföll verkakvenna hafði haft 1917 á upphaf Rússnesku byltingarinnar.

Það var þó ekki fyrr en með tilkomu nýju kvennahreyfingarinnar kringum 1970 að 8. mars öðlaðist þann sess sem hann hefur í dag. Sameinuðu þjóðirnar lýstu árið 1975 Alþjóðlegt kvennaár og 1977 að var ákveðið að 8. mars skyldi vera Alþjóðlegurkvennadagur Sameinuðu þjóðanna.

8. mars á Íslandi

Sennilega var dagsins fyrst minnst hér á landi árið 1932 á fundi Kvennanefndar Kommúnistaflokks Íslands og eftir það af þeim ásamt Alþjóðasamhjálp verkalýðsins. Kvenfélag sósíalista sem stofnað var 30. mars 1939 tók svo við. Dagsins hefur verið minnst með ýmsum hætti frá upphafi. Á vef Kvennasögusafns er sem dæmi eftirfarandi samantekt :

Á árshátíð Kvenfélags Sósíalistaflokksins 8. mars 1948 flutti til dæmis Dýrleif Árnadóttir ræðu um 8. mars og baráttu kvenna gegn stríði og fasisma og Petrína Jakobsdóttir flutti erindi um Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna og baráttu þess gegn stríði og fasisma. Ljóð voru flutt og Guðmunda Elíasdóttir söng við undirleik Fritz Weishappels. Kaffi var drukkið og dans stiginn. Árin 1951 og 1952 gekkst Kvenfélag Sósíalistaflokksins fyrir almennum kvennafundum þann 8. mars þar sem meðal annars voru samþykktar ályktanir um að Ísland gengi úr Atlantshafsbandalaginu.

Árið 1951 voru Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, MFÍK stofnuð sem deild í Alþjóðasambandi lýðræðissinnaðra kvenna og stóðu fyrir fundi í Stjörnubíó þann 8. mars 1953 og hafa síðan minnst dagsins með reglulegum fundum. Í gegnum tíðina hefur  fjöldi þjóðkunnra kvenna og karla flutt ræður og erindi auk fjölda listafólks. Tildæmis hélt Vigdís Finnbogadóttir árið 1961 ræðu um starf Hernámsandstæðinga og Þuríður Pálsdóttir söng við undirleik Jórunnar Viðar.

1978 stóðu MFÍK ásamt Rauðsokkahreyfingunni og Kvenfélagi sósíalista fyrir sameiginlegri dagskrá undir kjörorðinu „Kjör verkakvenna fyrr og nú“ og var sú dagskrá gefin út.

1984 tóku 8 kvennasamtök ásamt MFÍK þátt í sameiginlegri dagskrár þann 8. mars og einnig efndu Kvennalistakonur til táknrænnar aðgerðar frama við matvöruverslun í Austurstræti þar sem þær kröfðust þess að borga aðeins 2/3 af verði þeirra matvara sem þær keyptu þar sem það væri í samræmi við launamun kynjanna.

Fleiri samtök hófu að minnast 8. mars á 10. áratugnum með sérstökum hætti. Samtökin Stígamót voru stofnuð 8. mars 1990, Unifem á Íslandi hefur verið með fundi og á Akureyri hafa samtök minnst dagsins frá árinu 1992.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
Wíkipedía, Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
▶︎ Kvennasögusafn Íslands, 8. mars – Alþjóðlegur baráttudagur kvenna