Aukanætur og Sumarauki

Aukanætur hefjast með miðvikudegi í 13. viku sumars á bilinu 18. til 24. júlí.

Aukanætur eru fjórir dagar sem skotið er inn í sumarmisserið á eftir Sólmánuði til að fá samræmi milli mánaðatalsins og viknatalsins í árinu og réttari fjölda daga samanlagðra misseranna náttúrlegu árstíðaári. Því mánuðir voru allir taldir í 30 dögum svo uppá vantaði nokkra daga til að fylla dagafjölda ársins og val þess að staðsetja þessar fjórar Aukanætur á þessum tíma sumars gæti hafa verið til þess að Miðsumar lenti sem næst sínum rétta stað en það gerði það ekki ef aðeins voru taldir þrisvar 30 dagar frá Sumardeginum fyrsta upphafi sumarmisseris.

Þar sem hvort misseri er talið í sex 30 daga mánuðum samtals 12 mánuðir eru það einungis 360 dagar. Til þess að þessi aðferð við tímatalsreikning misseristalsins gangi upp og réttari dagafjöldi sé í árinu vantar 5 daga upp á en Aukanætur eru aðeins 4 svo árið var því einungis 364 dagar og þar sem ekki var notast við hlaupársreikning var skotið inn einni viku á eftir Aukanóttum svokölluðum Sumarauka á 5 til 6 ára fresti.

Þessar fjórar Aukanætur eru því einskonar viðbót, það er „auka,“ við bæði mánaðar og vikutalið og draga þær nafn sitt af því. Í praxís varð því þessi vika, 13. vika sumars því 11 dagar en Aukanæturnar báru þó engin vikudagaheiti svo vitað sé og hafa líklega verð nefndar eitthvað eins og fyrsti Aukadagur, annar Aukadagur osf. Svo eftir síðasta dag Sólmánaðar á undan þeim sem var þriðjudagur, hófust Heyannir sem kom á eftir þeim ætíð á miðvikudegi, þótt við setjum upphaf hans á sunnudag samkvæmt okkar tímatali eins og við notum í dag.

Tímatalsreikningur Íslenska misseristalsins

Samtals eru vikur misseristalsins 52. Allar sumarvikur byrja á fimmtudegi en vetrarvikur á laugardegi. Því er síðasta vika vetrar aðeins 5 dagar þar sem hún byrjar á laugardegi en endar á miðvikudegi þar sem sumarmisserið hefst ætíð á fimmtudegi og nefnd Sumarmál.  Á móti hefur síðasta sumarvikan sem inniheldur Veturnæturnar tvær í kaupbæti og er því 9 dagar.

Þetta gerir það að verkum að misserin eru ekki nákvæmlega jafn löng talin í dögum og vikum þótt þau séu jafn löng talið í mánuðum. Þannig er sumarið talið 27 vikur þau ár sem hafa Sumarauka en 26 vikur annars. Í lok sumars bætast svo Veturnætur við og verður sumarið því alls 26 vikur (27 þegar Sumarauki er) og tveir dagar. Þar sem allar vikur sumars hefjast á fimmtudegi en vetrarvikurnar á laugardegi verður veturinn styttri en sumarið eða 25 vikur og 5 dagar þar sem síðasta vika vetrar Sumarmál er aðeins 5 dagar.

Þótt Aukanætur ásamt tólf 30 daga mánuðum Íslenska misseristalsins nái því að hafa ætíð sama dagafjölda í árinu þá var ekki búið að finna upp hlaupársregluna þegar misseristalið var í þróun og því varð smámsaman til skekkja með hverju árinu sem leið.

Sumarauki

Reyndar voru nokkrar aðferðir við að leiðrétta þessa skekkju og tókst það smámsaman með þeirri aðferð að skjóta með nokkra ára millibili á eftir Aukanóttum einni auka viku svo að Miðsumar og þar með næsta sumarkoma níu mánuðum síðar verður viku seinna en annars hefði orðið. Kallast sú vika Sumarauki en einnig verið nefnd Lagningarvika, Viðlagning eða Viðurlag.

Þau ár sem Sumarauka eru bætt inn í misseristalið eru ýmist á 5 eða 6 ára fresti en örsjaldan 7 eða aðeins á 400 ára fresti. Með svo nákvæmum útreikningi er talið að Íslenska misseristalið hafi að öllum líkindum verið það tímatal á 12. öld sem var hvað næst náttúrlega árstíðaári af þeim tímatölum sem við líði voru á þeim tíma. Má það teljast vel af sér vikið þar sem rétt sólár er 365,242190419…  dagar og því þurfti heilmikið til til þess að setja saman útreikning sem næði því að vera sem allra næst réttu sólári. Þar kemur inn það sem kallað er rím og var almennt reiknað með því að telja eftir kúnstarinnar reglum á fingrum sér og því almennt kallað fingrarím.

Orðið rím þýðir almanak eða hverskonar tímareikningur enda eru til margar útgáfur þess. Það er sérútgáfa til þess að reikna út hvenær Páskar eru, hvaða vika er og fleiri útreikninga sem fólk þarf til að vita hvað hvaða dagur er eða hvenær ákveðnir dagar bera upp og langt eða skammt er til þeirra.

Rímspillir

Sumarauka getur þó fylgt smá púki ef svo má kalla sem er stundum og stundum ekki og reiknaður er út með ákveðinni lítilli formúlu. Ég kalla hann púka því hann spillir fyrir enda formlegt nafn hans Rímspillir þar sem hann spilir almanakinu af og til.

Í nákvæmri og mjög fræðandi grein á vef Almanaks Háskólans fær Rímspillir smá klausu í annars langri grein og fer því oft sú klausa oft fram hjá fólki. Tvennt þarf að leggjast saman svo eitthvert ár verði Rímspillisár. Af hverju má faðir púkans vita.

Það sem fara þarf saman er að aðfarardagur ársins er laugardagur og næsta ár á eftir er hlaupár (hefur aðfarardagana sunnudag og mánudag). Frá þessari reglu er engin undantekning, en reglan sem Jón Árnason gefur bregst hins vegar einu sinni á hverjum 400 árum.

Skiljanlegt?

Til þess að tíunda nákvæmlega hvaða áhrif Rímspillisár hafa á nokkra mánuði misseristalsins, það er upphafsdaga misserismánuðina frá Sumarauka sem færir þá alla fram um viku þar sem Sumarauki er jú heil vika sem skotið er inn á miðju sumri þá til viðbótar „spillir“ Rímspillisins og hnikar þessu öllu saman til.

Best er að vitna orðrétt í þessa litlu klausu í annars stórri og stórmerkri greininninni um fingrarím en tengill er á greinina í heild sinn neðst á þessari síðu en hú heitir Að finna tímamót í íslenska misseristalinu. Þar er Rímspillirinn skírður út í eins stuttu máli og unnt er en ég sleppi því hvernig hann er talinn á fingrum sér þar sem það er ekki inntak þessarar greinar hér:

Rímspillisár þekkist á því að aðfarardagur ársins er laugardagur og næsta ár á eftir er hlaupár (hefur aðfarardagana sunnudag og mánudag). Frá þessari reglu er engin undantekning, en reglan sem Jón Árnason gefur bregst hins vegar einu sinni á hverjum 400 árum. Fyrsta dæmið um það var 1899, en næst gerist það árið 2299. Rímspillirinn raskar dagsetningum gömlu mánaðanna frá miðsumri það ár sem kallað er rímspillisár, fram á hlaupársdag næsta ár. Hann færir fram um viku heyannamánuð, tvímánuð, haustmánuð, gormánuð, ýli, mörsug, þorra og góu. Þessir mánuðir koma þá degi síðar en mögulegt er samkvæmt venjulegum rímreglum.

Þar höfum við það. En til þess að létta fólki lífið þá eru hér plokkuð út úr annar mjög svo nytsamri og góðri töflu í lok Fíngraríms greinarinnar, þar sem allir dagar sumar- og vetrarkomu eru tíundaðir yfir margra aldar skeið, þau ár framundan sem eru Rímspillisár og hafa því áhrifa á hvenær nokkrir misserismánuðir hefjast eftir Sumarauka Rímspillisáranna fram að Haupársdegi næsta árs eins og nefnt er hér að ofan. En þessi ár eru ekki mörg á þessari öld svo við þurfum ekki að hafa af því miklar áhyggjur í bráð.

Þetta eru árin 2023 og ná áhrif Rímspillisins inn á árið 2024, sem er Hlaupár fram að Hlaupársdegi. Það er að segja hefur áhrif á hvenær Þorri og Góa hefjast og því meðfylgjandi hvenær Bónda- og Konudagur eru.

Næst spillir Rímspillirinn árinu 2051, sem er nú nokkuð í og að síðustu árinu 2079. Ekki eru þau fleiri til næstu aldamóta.

Sjálfsagt er það aðalástæða þess að það gleymist að gera ráð fyrir Rímspillinum einmitt sú hversu langt er á milli þeirra ára sem hann spillir.

Tímatalsbreytingin á 1700

Með kristnitökunni kom kirkjan með til landsins Júlíanska tímatalið einnig kallað gamli stíll enda var það hið almenna tímatal þess tíma í Evrópu. Var það þó til að byrja með og framan af öldum nær eingöngu notað sem kirkjudagatal því Íslendingar héldu áfram að nota misseristalið enda endurspeglaði það búskaparhætti og tíðarfar landsins og voru þessi tvö tímatöl notuð samhliða en til sitthvors brúks.

Smámsaman runnu þau þó að miklu leyti saman þó með þeim hætti sem við þekkjum í dag að með föstu vikutali hnikuðust mánuðir og fastir dagar misseristalsins til og því bera þeir ekki alltaf upp á sama mánaðardag frá ári til árs en ævinlega þó upp á sama vikudag þar sem þeir eru reiknaðir miðað við að telja 30 daga mánuði frá föstum vikudegi, það er fimtudegi í sumarmisseri og laugardegi í vetrarmisseri.

Til dæmis Sumardagurinn fyrsti sem við höldum ennþá upp á sem upphaf sumars rétt eins og ævinlega hefur verið gert samkvæmt misseristalinu, er ætíð á fimmtudegi og allar vikur sumars hefjast því á fimtudegi en dagsetningin samkvæmt okkar dagatali í dag flöktir til og getur Sumardagurinn fyrsti því lent á 19. til 25. apríl en hann er þó alltaf fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl.

Með Júlíanska tímatalinu var árið ákvarðað sem 365 dagar og fjórða hvert ár skyldi vera hlaupár þar sem einum degi væri bætt við. Tímatalið var í notkun fram á 20. öld í mörgum löndum og er enn notað af ýmsum kirkjudeildum Rétttrúnaðarkirkjunnar. Það var þó gallað að því leyti að of mörgum dögum var bætt við með hlaupárunum þannig að tímatalið skekktist með tímanum frá raunverulegum árstíðum um 11 mínútur á hverju ári. Sagt er að Júlíus Caesar sem kom tímatalinu á og er við hann kennt hafi vitað af þessu misræmi en ekki fundist það vera nógu merkilegt til að spá mikið í það.

Gregoríska tímatalið eða nýi stíll var kynnt til sögunnar á 16. öld til þess að lagfæra misræmið og var þá miðað við Vorjafndægur. Hlaupárum var fækkað þannig að aldamótaár sem deilanleg eru með 400 teljast hlaupár, en önnur aldamótaár ekki. Þannig var 1900 ekki hlaupár en 2000 var það. Bæði hefðu verið hlaupár í gamla stíl.

Gregoríska tímatalið var þó ekki tekið upp á Íslandi fyrr en árið 1700. Var þá skekkjan orðin 11 dagar og voru þeir klipptir úr árinu þannig að 28. nóvember kom í stað 17. nóvember. Við þá breytingu var misseristalinu ekki breitt með því að fella úr því þessa 11 daga heldur var því breitt þannig að öllum dagsetningum úr Júlíanska tímatalinu var breitt svo Sumardagurinn fyrsti var áfram á sínum stað hvað sem tautaði og raulaði og svo gilti einnig um Aukanætur enda endir þeirra og upphaf Heyanna mitt sumar og það skipti meira máli hvenær heyjað var heldur en hvenær kirkjan vildi hafa Páska eða aðrar kirkjunnar hátíðir.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Almanaksvefurinn, Heyannir
▶︎ Almanak Háskóla Íslands, Að finna tímamót í íslenska misseristalinu
▶︎ Almanak Háskóla Íslands, Um Sumarauka í orðskýringum Almanaks Háskólans
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)