Heyannir

Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði mánuður sumarmisseris Íslenska misseristalsins. Upphaf hans markar Miðsumar því samkvæmt og þessvegna hefur hann oft sjálfur verið nefndur Miðsumar og eru dæmi þess að finna í fornum ritum.

Hann hefst samkvæmt Gregoríska tímatalinu sem við notum í dag á sunnudegi í 14. viku sumars á eftir Aukanóttum á tímabilinu 23. til 30. júlí eða þeirri 15. ef Sumarauki er. Áðurfyrr taldist hann þó ætíð hefjast á miðvikudegi því síðasti dagur Sólmánaðar á undan Aukanóttum endaði á þriðjudegi og Aukanætur tilheyrðu hvorugri vikunni né mánuðunum sitthvoru megin við þær. Aukanæturnar báru því engin daganöfn en geta má sér þess til að talað hafi verið um fyrsta í Aukanóttum, svo annan og áfram til þess fjórða.

Aðrar nytjar en bara heyskapur

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780 um Heyannir.

Heyannir er mánuður sá, sem sól hleypur um ljónsmerki. Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurrkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími.

Séra Björn var frumkvöðull á sviði garðrækt og jarðyrkju á Íslandi og bókin því bæði gagnleg og góð heimild um búskaparhætti á ritunartíma hennar. Athygli vekur að hann nefnir að á þessum tíma sé gott að safna kúmeni.

Í dag vex kúmen víða villt á Íslandi og margur fer til dæmis út Í Viðey til að safna kúmeni því sem Skúli Fógeti sáði þar 1760 og hefur það dafnað með ágætum æ síðan. Það var þó 100 árum áður eða um 1660 sem Gísli Magnússon sýslumaður á Hlíðarenda sem var einn af fyrstu Íslensku náttúrufræðingunum og jafnan nefndur Vísi Gísli hóf ræktun kúmens og fékk Skúli það einmitt frá Hlíðarenda.

Því væri forvitnilegt að vita hversu útbreitt það hafi verið orðið þegar Séra Björn ritar Atla einum 120 árum síðar að hann nefnir það eins og um sjálfsagðan hlut væri að ræða að tína kúmen.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Heyannir
▶︎ Almanaksvefurinn, Aukanætur og Sumarauki
▶︎ Wíkipedía, Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal
▶︎ Bækur.is, Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
▶︎ Bækur.is, Grasnytjar
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)