Feðradagurinn

Feðradagurinn er haldinn hátíðlegur á Íslandi annan sunnudag í nóvember ár hvert og var haldinn fyrst 14. nóvember 2006.

Í tilefni af fyrsta Feðradeginum var haldin ráðstefna á vegum Félagsmálaráðuneytisins, Félags ábyrgra feðra og Jafnréttisstofu á Nordica-hótelinu. Þar var fjallað um feður í samfélagi nútímans og mikla þátttöku feðra á Íslandi í fæðingarorlofi.

Gísli Gíslason formaður Félags Ábyrgra Feðra fjallaði um stöðu feðra og barna þegar foreldrar búa ekki saman. Magnús Stefánsson Félagsmálaráðherra flutti ávarp á ráðstefnunni ásamt Tom Beardshaw frá Félagi ábyrgra feðra í Bretlandi. Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi Forseti Íslands var heiðursgestur ráðstefnunnar.

Saga Feðradagsins

Að heiðra feður á einum ákveðnum degi á sér langa sögu meðal Kaþólskra landa í Evrópu sem halda upp á hann þann 19. mars á Degi heilags Jósefs og hafa gert það allt frá Miðöldum. Spánverjar og Portúgalar fluttu með sér þann sið til Rómönsku Ameríku og er hann víða en haldin þar þann 19. mars.

Haldið er upp á Feðradaginn víða um heim en þó ekki alls staðar á sama degi en oftast þó í mars, apríl eða júní. Í Bandaríkjunum er hann haldinn þriðja sunnudag í júní og mörg lönd í Evrópu hafa tekið upp þann sið.

Sögu Feðradagins í sinni núverandi mynd má rekja til þess að hinn 19. júní 1910 var haldin föstudagshátíð á vegum KFUM í borginni Spokane í Washington fylki í Bandaríkjunum af Sonora Smart Dodd feðrum til heiðurs. En hugmyndina að heiðra feður með sérstökum degi kom til af því að faðir hennar William Jackson Smart var einstætt foreldri sem ól upp sex börn sín í þeirri borg og vildi hún heiðra minningu hans fyrir það.

Sonora lagði hugmyndina fyrst fram ári áður eða 1909 eftir að hafa hlustað á ræðu um Mæðradaginn í Central Methodist Episcopal Church. Nefndi hún eftir messuna við prest sinn að feður ættu að eiga samskonar dag þeim til heiðurs.

Þrátt fyrir að hún hafi upphaflega stungið upp á 5. júní sem var afmælisdagur föður hennar hafði presturinn ekki nægan tíma til að undirbúa prédikun sína fyrir þann dag og frestaði henni til þriðja sunnudags í júní. Nokkrir aðrir prestar á staðnum tóku vel í hugmyndina og þann 19. júní 1910, fyrsta Feðradaginn í núverandi mynd, voru predikanir til heiðurs feðrum kynntar um alla borgina.

Sú hefð að halda upp á sérstakan Feðradag óháðan þeim Kaþólska sið breiddist þó hægt út og þótt víða í Bandaríkjunum sem dæmi væri haldið upp á hann í ýmsum myndum fram eftir 20. öld var það ekki fyrr en 1972 sem hann var formlega gerður að þjóðlegum hátíðisdegi þar. Eins var það hér á Íslandi að hann var ekki tekinn formlega upp fyrr en árið 2006, rúmri öld eftir að Sonora Smart Dodd lagði fyrst fram hugmynd sína.

Mörg ríki heims hafa tekið upp og lögfest þann sið að halda upp á sérstakan Feðradag líkt og haldið er upp á sérstakan Mæðradag. Einnig eiga í mörgum löndum afar og ömmur sína sérstöku daga þeim til heiðurs.

Mæðradagurinn

Dagar helgaðir mæðrum og dýrkun mæðragyðja eru þekktir frá fornöld og mæðradýrkun tíðkaðist í Litlu-Asíu fyrir þúsundum ára. Þaðan barst hún til Grikklands og áfram til Rómaveldis. Með kristni þróaðist mæðradýrkunin yfir í dag til dýrðar Maríu guðsmóður og öðrum mæðrum og var sá dagur fjórði sunnudagur í Lönguföstu.

Víða komst á sá siður að börn gæfu mæðrum sínum blóm eða gjöf þennan dag. Smátt og smátt dró þó úr því að þessi dagur væri haldinn hátíðlegur en hann viðhélst þó að einhverju leyti á Bretlandi og Írlandi. Hann var svo endurvakinn á 20. öld og rann þá saman við Mæðradaginn sem þá hafði komist á í Bandaríkjunum og breiðst út þaðan en Bretar og Írar halda gömlu tímasetningunni á deginum.

Dagurinn á sér þó ekki einn alþjóðlegan mánaðardag eða mánuð en oftast er haldið upp á hann í mars, apríl eða maí. Algengast er að þjóðir láti hann bera upp á annan sunnudag í maí (8. til 14.) ár hvert og þannig er það hérlendis.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Feðradagurinn
▶︎ Almanaksvefurinn, Mæðradagurinn
▶︎ Stjórnarráð Íslands, Feðradagur á Íslandi í fyrsta sinn