Fyrsti apríl

Fyrsti apríl er haldin víða um heim sem hrekkjadagur. Talið er líklegast að megi rekja uppruna þessa siðar til miðalda í Evrópu en þá var þar haldið upp á Vorjafndægur og Áramót þann 25. mars.

Sú gamla hefð að stórhátíðir ættu sér Áttund, það er hátíðisdag átta dögum síðar og oft með tilheyrandi átta daga hátíðarhöldum má rekja allt aftur til Rómverja og ennþá má finna slíka Áttundardaga í kristni. Sem dæmi eru núverandi Áramót okkar, það er Nýársdagur, átta dögum eftir Jóladag að báðum dögunum meðtöldum og Geisladagur átta dögum eftir Þrettándann.

Það var Karlamagnús sem innleiddi þennan sið á 8. öld en þegar Gregoríus páfi 13. færði Áramótin frá 25. mars til 1. janúar á 16. öld, þá stóð 1. apríl eftir sem hrekkjadagur þótt ekki væri hann Áttund lengur því almenningur vildi halda í þau ærsl sem þessum degi hafði fylgt. Það passaði líka vel þar sem við tilflutning Nýárshátíðar kirkjunnar sem áttund af 25. desember var fyrsti apríl sviptur allri trúarlegri helgi og því hægt að gera sér ærlega glaðan dag að veraldlegum sið án þess að styggja kirkjunnar herra.

Fyrsti apríl á Íslandi

Staðfestar heimildir um hrekki og gabb siði á Íslandi eru til frá síðari hluta 19. aldar en þó er vitað að tíðkaðist að rita svokölluð aprílbréf á 17. öld. Árni Magnússon handritasafnari getur þeirrar venju og til er gamankvæði eftir Jón Þorláksson á Bægisá, „Fyrsti aprílis, þar sem hann nefnir einmitt að hlaupa apríl en svo hefur aprílgabb verið kallað hérlendis.

Elsta aprílgabbið sem vitað er um í Íslenskum fjölmiðli er frá 1957. Þá lugu fréttamenn Ríkisútvarpsins að fljótaskip sigldi á Ölfusá á leið til Selfoss og var henni lýst í beinni útsendingu í útvarpi. Erfiðara er í dag fyrir fjölmiðla að plata fólk til að hlaupa fyrsta apríl þar sem flestallir muna vel hvaða dagur er. Þó láta alltaf einhverjir glepjast og því fleiri sem hægt er að festa á filmu einhvers staðar út í móa reynandi að upplifa eða helst græða eitthvað eða bíða í biðröð stórmarkaðar eftir ókeypis stórsteik, því betra og almennt hlær fólk hæst að sjálfu sér fyrir að hafa látið glepjast og ekki margir sem reiðast yfir þessum hrekkjum. Eins er það sport á fyrsta apríl að fletta blöðum og fylgjast með öðrum fréttum til að reyna að reikna sér til hvaða frétt er helber uppspuni þennan dag.

Hí, hí, fyrsti apríl!

Meðal almennings og þá oftast á heimilum er reglan sú að reyna að plata einhvern á þann veg að viðkomandi stigi yfir þröskuld svo þeir hrekkir eru mun viðaminni en í fjölmiðlum en ekkert síður skemmtilegir. Margir hálfsofandi foreldrar hafa arkað yfir þröskuld milli herbergja eftir undarlegustu skipunum og spurningum barna sinni að morgni fyrsta apríl þegar líklegast er að þau muni ekki hvaða dagur er. „Hí, hí, fyrsti apríl!“ er þá það sem almennt viðkomandi fær að heyra að baki sér hafi hrekkurinn tekist.

Morgunblaðið birtist smá klausa um aprílgabb 23. apríl 1953 sem sagði frá nokkrum aprílgöbbum og siðum þeim tengdum í ýmsum löndum:

A fyrri öldum var aprílgabb jafnvel notað í kirkjunum. Sagt er um biskup einn í Tours í Frakklandi, er messaði sunnudaginn 1. apríl í kirkju sinni að er hann gekk fyrir altari, stóð hann þar lengi hreyfingarlaus án þess að mæla orð frá vörum svo söfnuðurinn fór að undrast hvað ylli að guðsþjónustan byrjaði ekki. En er biskupinn hafði látið söfnuð sinn undrast hæfilega lengi, snéri hann sér snögglega við og hrópaði til safnaðarins: „Fyrsti apríl í dag“.

Þjóðverjar iðkuðu á sínum tíma mikið aprílgabb. Algengast var það að narra einfeldninga í lyfjabúðir til þess að spyrja um ýmislegt, sem ekki var til, svo sem mýsmyrsli, „fótoh’ur“ handa hestunum og ýmislegt þess kyns.

Það kom líka fyrir, að menn festu pappírsmiða í föt manna, þar sem á stóð „1. apríl'“, svipað eins og menn festa öskupoka á menn hér.

En suður í Lissabon var lengi sá siður að skvetta vatni yfir vegfarendur á þessum degi.

En hvað er smá grín á milli vina svo fremi sem saklaust er og ekki spillir fyrir ef sem allra flestir taka þátt? Svo ósennilegt verður að teljast að þessi siður muni leggjast af í bráð þótt hann sé löngu hættur að vera Áttund gömlu Áramóta Rómverja þann 25. mars og þar með uppruni hans löngu gleymdur.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
Wíkipedía, Aprílgabb
▶︎ Vísindavefurinn, Hvers vegna er það siður að „gabba“ fólk fyrsta apríl?
▶︎ marit.is – Morgunblaðið, Úr daglega lífinu – Apríl
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)