Haustmánuður

Haustmánuður er sjötti og síðasti mánuður sumarmisseris Íslenska misseristalsins. Í Snorra Eddu er hann nefndur Garðlagsmánuður og í rímtali Arngríms Jónssonar lærða og Guðbrands Þorlákssonar biskups Aðdráttamánuður.

Haustmánuður hefst alltaf á fimmtudegi í 23. viku sumars á bilinu 21. til 27. september en getur lent í 24. viku ef Sumarauki er. Undantekningin frá þessu er á rímspillisárum en þá getur hann hafist 28. september.

Hefst hann á Haustjafndægrum sem geta lent á tímabilinu 21. til 24. september. Hvort muni degi eða dögum að fyrsti dagur Haustmánaðar sé nákvæmlega á Haustjafndægri eða ekki markast af því að upphaf hans er bundið ákveðnum vikudegi en Haustjafndægur ekki.

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780 um Haustmánuð.

Haustmánuður byrjast næst [Haust] jafndægrum en sólin gengur um þann tíma í vigtarmerki. Líka var þessi mánuður kallaður garðlagsmánuður því þessi þótti hentugur tími að bæta túngarða, engigarða, haga- eða skjólgarða og grannagarða … Nú er tími að velta landi því, sem sáð skal í einhverju fræi að vori. Vatnsveitingaskurði á nú að stinga svo ekkert vatn geti staðið yfir landi á vetrum heldur að það súra vatn fái gott afrennsli. Jarðarávexti, sem menn vilja geyma niðurgrafna úti eða inni, skal nú upp taka og láta nokkuð þorrna, grafa þá síðan niður hvar frost má ei að þeim koma. Um þessa tíma fellir melur fræ, má nú safna því áður og sá strax í sendið land og breiða mold yfir, kemur upp næsta vor. Hvannafræi og kúmeni má nú líka sá þar sem menn vilja þær jurtir vaxi síðan.

Séra Björn var frumkvöðull á sviði garðrækt og jarðyrkju á Íslandi og bókin því bæði gagnleg og góð heimild um búskaparhætti á ritunartíma hennar en einnig ritaði hann bók sérstaklega um ýmsar grasnytjar.

Í tilvitnunin hér að ofan úr Atla nefnir hann meðal annars að í Haustmánuði henti söfnun melgresi fræja en í dag þekkja flestir melgresi ekki af öðru en til uppgræðslu foksanda og nefnir Björn sanda einmitt til sáningar enda þeir kjörlendi melgresisins.

En önnur og meiri not voru af melgresi áðurfyrr og voru það einkum hinir löngu og miklu rótarangar þess sem nefndir voru buskuleggir eða sumtag sem nýttir voru. Voru þeir bæði langir og sterkir og þóttu góðir til sauma en einnig voru unnir þvottaburstar úr rótarstönglunum sem og dýnur sem kallaðar voru meldýnur úr rótartrefjunum og einnig voru þær notaðar sem þvottaklútar.

Skiljanlegt er því að Björn nefni frætínslu og ræktun melgresis í Haustmánuði sérstaklega og þar er hann ekki að hugsa um landgræðslu eins og núorðið heldur ræktun mjög svo nytsamlegrar plöntu sem nýttist fólki vel til alskonar brúks sem þó flest er gleymt og aflagt.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Haustmánuður
▶︎ Wíkipedía, Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal
▶︎ Bækur.is, Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
▶︎ Bækur.is, Grasnytjar
▶︎ Almanaksvefurinn, Jafndægur
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)