Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur allra sjómanna og haldinn fyrsta sunnudag í júní ár hvert nema ef Hvítasunnu ber upp á þann dag þá færist hann yfir á næsta sunnudag þar á eftir.

Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði en frá upphafi 20. aldar tíðkaðist að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi sem var yfirleitt 3. eða 4. sunnudag eftir Þrettándann.

Frá því að sjómannadagurinn var haldinn í fyrsta sinn með mikilli viðhöfn og fjölmenni í Reykjavík eins og eftirfarandi lýsing Alþýðublaðsins ber með sér, var hann tekinn upp í öllum bæjarfélögum við sjávarsíðuna enda sjósókn þeirra grundvallar atvinnugrein og mikið um dýrðir og hátíðarhöld þennan dag svo að hann var á sumum stöðum einn mesti hátíðisdagur ársins.

En með breyttum atvinnuháttum og mismiklu vægi sjávarútvegs margra bæjarfélaga hefur tilstand þennan dag minnkað nokkuð þótt það sé misjafnt eftir stöðum. Sem dæmi þá var þátttaka almennings í Sjómannadeginum farinn að minka svo mikið í Reykjavík, enda verður fólk á Höfuðborgarsvæðinu æ minna vart við sjósóknina ólíkt minni bæjarfélögum þar sem allt líf hverfist um höfnina, að stofnað var til Hátíðar hafsins og stendur hún bæði laugar- og sunnudag þá helgi sem Sjómannadaginn ber upp á. Hefur það blásið lífi í Sjómannadaginn á Höfuðborgarsvæðinu með áherslu á fræðslu sérstaklega krakka og ungmenna en þó einnig alls almennings því nútíma þéttbýlis Íslendingurinn hefur fjarlægst mikið þann anda sem um sjómennskuna lék eins og eftirfarandi blaðagrein vitnar um.

Fyrsta Sjómannadeginum í Reykjavík lýsti Alþýðublaðið eftirfarandi og má glöggt sjá hve sjósókn og sjómennskan lék stórt hlutverk í lífi þjóðarinnar á þeim tíma:

Fyrsti sjómannadagurinn varð glæsilegur hátíðisdagur, sem hertók borgina og alla íbúa hennar. Forstöðunefnd sjómannadagsins tóks prýðilega að skipuleggja starfsemina og fór alt fram eins og ákveðið hafði verið. Er þetta því lofsverðara, þar sem þetta er fyrsta sinn, sem sjómannadagur er haldinn.

Kl. 8 í gærmorgun voru flest eða öll skip, sem lágu í höfn, fánum skreytt, og á allmörgum flaggstöngum í bænum voru fánar, en þó ótrúlega fáum. Var það t.d. óviðkunnanlegt að verzlanir í Austurstræti og Bankastræti, sem m.a. lifa á sjómannastéttinni, skyldu ekki fagna fylkingum þeirra með fánum, er þær gengu austur Austurstræti.

Við Stýrimannaskólann
Þegar kl.12,30 byrjuðu sjómenn að safnast saman við Stýrimannaskólann. Var þeim þar raðað í fylkingar undir fána samtaka sinna. Fremstir komu skipstjórar, síðan stýrimenn, vélstjórar, hásetar, loftskeytamenn, matsveinar og veitingaþjónar o.s.frv. Var þetta geysi stór fylking og myndarleg, djarflegir menn og hraustlegir flestir, og þó nokkrir hrumir sjómenn og bognir. Þetta varð einhver stærsta hópganga, sem fram hefir farið í Reykjavík, og einhver hin bezt skipulagða. Fyrir fylkingunni gekk Guðjón Jónsson sjómaður frá Eyrarbakka og bar íslenzkan fána, þá kom Lúðrasveitin og síðan fylkingar sjómanna. Auðvitað varð fylking Sjómannafélags Reykjavíkur lang stærst, en síðan kom fylking Sjómannafélags Hafnarfjarðar. Fánar voru mjög margir og flestir forkunnarfagrir.

Fylkingin lagði af stað frá Stýrimannaskólanum kl.1,20 og gekk Ægisgötu, Túngötu, Aðalstræti, Austurstræti, Bankastræti og Skólavörðustíg. Fylgdi henni mikill manngrúi á gangstéttunum, en félagar úr sjómannafélögunum tóku einir þátt í göngunni.

Við Leifsstyttuna
Leifsstyttan hafði verið skreytt með flöggum og umhverfis hana hafði verið afmarkað stórt svæði. Stóðu lögregluþjónar þarna vörð frá því snemma um morguninn. Þar hafði og verið komið fyrir hátölurum. Löngu áður en fylkingar sjómanna komu að Leifsstyttunni hafði safnast þar fyrir mikill mannfjöldi.
Fylkingarnar komu nú að styttunni og skipuðu sér umhverfis hana. Framundan henni skipaði heiðurs vörð fjöldi manna með fána. Þarna fóru fram aðalhátíðahöld dagsins.

Stundvíslega kl.2 talaði Skúli Guðmundsson atvinnumálaráðherran okkur orð og tilkynti að á þeirri stundu legði lítil stúlka blómsveig á leiði óþekts sjómanns í kirkjugarðinum í Fossvogi. „Við minnumst hinna föllnu stríðsmanna okkar, eins og útlendar þjóðir minnast sinna látnu, óþektu hermanna,“ sagði atvinnumálaráðherra. Síðan varð mínútu þögn, og var það áhrifaríkt augnablik, er hinn miki mannfjöldi draup höfði í minningu um hinar látnu hetjur, er fallið hafa í baráttunni við Ægi. Að þessu loknu söng flokkur sjómanna „Þrútið var loft.“ Nú afhenti Ólafur Thors sjómannadeginum að gjöf vandaðan bikar til að keppa um í björgunar sundi frá Félagi ísl. botnvörpuskipa eigenda, en því hafði verið falinn hann til ráðstöfunar af brezkum útgerðarmönnum 1930. Friðrik Ólafsson skólastjóri þakkaði gjöfina.

Nú talaði atvinnumálaráðherra og flutti snjalt erindi um sjómanninn og baráttu hans fyrir alla þjóðina. Hann sagði m.a., og átti það vel við: „Það er ekki nóg að minnast sjómanna stéttarinnar eina stund úr einum degi…. Þá er ranglæti framið ef málsverður hennar er gerður minni en annara stétta.“ Væri vel ef þeir tveir stjórnmálamenn, sem þarna töluðu, hefðu þetta lengur í huga. Að erindi atvinnumála ráðherra loknu lék Lúðrasveitin „Ó,guð vors lands.“ Þegar gangan hófst frá Stýrimanna skólanum var hvasst og kalt, en meðan hátíðahöldin fóru fram við Leifsstyttuna, gerðihlýindi. Munu þar hafa verið saman komin um 10 þúsundir manna, eftir því sem lögreglan álítur. Var holtið þakið af fólki og flestar nærliggjandi götur.

Við Reykjavíkurhöfn
Mannfjöldinn hélt þá niður að Reykjavikurhöfn og fór þar fram  keppni í kappróðri og stakkasundi Fór kappróður milli skipsáhafna á togurum. Öll skip við hafnarbakkana voru þakin af fólki, öll húsaþökin í nágrenninu og öll uppfyllingin. Var þarna gífurlegur mannfjöldi. …

… Þessi fyrsti sjómannadagur, sem farið hefir fram hér í Reykjavik og haldinn var sameiginlega bæði af sjómönnum í Reykjavík og Hafnarfirði, fór mjög vel fram.

—Nú eigum við enn einn veglegan hátíðisdag á hverju ári, tileinkaðan þeirri stétt manna, sem vinnur erfiðustu og hættulegustu störfin — og afkoma þjóðarinnar veltur að mestu á.

Árið 1987 var dagurinn lögskipaður Frídagur Sjómanna og er hann opinber Íslenskur Fánadagur.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Sjómannadagurinn
▶︎ Alþýðublaðið, Um 10 þús. manns voru viðstaddir hátíðarhöldin við Leifsstyttuna
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Opinberir Íslenskir Fánadagar