Þorláksmessa

Þorláksmessa að vetri sem almennt er þó aðeins kölluð Þorláksmessa er þann 23. desember og haldin til minningar um Þorlák hinn helga Þórhallsson biskup í Skálholti en hann lést þennan dag árið 1193 og var þessi messudagur tekinn upp honum til heiðurs og lögleiddur 1199.

Þorláksmessa á sumri

Einnig er til Þorláksmessa á sumri þann 20. júlí sem lögleidd var árið 1237 til að minnast þess að þann dag 1198 voru bein Þorláks tekin upp til að nýtast til áheita. Var sumarmessa þessi ein mesta hátíð ársins á Íslandi fyrir Siðaskipti.

Útnefning Þorláks sem dýrlingur

Þorláksstytta í Kristskirkju í Landakoti.

Þorlákur fékk snemma á sig orð sem helgur maður sem gott var að heita á og er hann sá eini sem tekinn hefur verið í dýrlinga tölu á Íslandi en það gerði Jóhannes Páll páfi II. er hann útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands þann 14. janúar 1984.

Heit á hann voru leyfð árið 1198 en bein hans voru tekin upp þann 20. júlí það sama ár og er Þorláksmessa á sumri því þann dag.

Þorlákur á því þessa tvo messudaga á ári. Það er dánardag sinn Þorláksmessu á vetri 23. desember og Þorláksmessu á sumri 20. júlí en auk þess voru sungnar Þorlákstíðir. Þorláksmessu á vetri þann 23. desember er þó almennt í dag kölluð Þorláksmessa því eftir Siðaskiptin minnkaði mikið allt tilstand á Þorláksmessu á sumri þann 20. júlí uns í dag er það nær ekkert og því sá dagur flestum alveg gleymdur.

Fjölmargar sögur eru til um kraftaverk sem eignuð eru árnaðarorði hans og var þeim safnað saman á sínum tíma í Jarteinabækur Þorláks helga. Páll biskup lét gera mikið og vandað Þorláksskrín sem þó fór forgörðum eftir Siðskipti. Sagt er að smábrot af helgum dómi biskupsins sé varðveitt í vegg Magnúsardómkirkju í Færeyjum. Búast má við að kirkjur sem helgaðar voru Þorláki eða hans var sérstaklega minnst í svo sem Niðarósdómkirkja hafi einnig fengið að gjöf einhvern helgan dóm tengdan biskupinum þótt vitneskju um það skorti.

Maður fólksins

Heilagur Þorlákur þótti vera dýrlingur alls almennings og bera fram árnaðarorð fyrir jafnt fyrir snauða sem ríka líkt og hann lifði í jarðlífinu.

„… lagði mikla stund á að elska fátæka menn. Klæddi hann kalna en fæddi hungraða… lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir, tólf eða níu eða sjö, og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerraði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu, áður á brott færi.“

Sagt er að sums staðar í Noregi hafi fátækt fólk átt jafnvel auðveldara með að snúa sér til hans en heilags Ólafs konungs.

Einnig varð í Færeyskri þjóðtrú heilagur Þorlákur að einskonar Jólasveini og þar var eins og hér venja að kalla 23. desember Þorláksmessu.

Verndardýrlingur Íslands

Þar sem dýrlingatrú tíðkast ekki í Lúterskum sið fer lítið fyrir Þorláki í Íslensku Þjóðkirkjunni utan þá messudaga sem honum eru tileinkaðir. Aftur á móti þar sem meðal Kaþólskra hverfist öll helgi staða og daga að stórum hluta um dýrlinga er Þorlákur helgi meðal annars verndari hinnar Kaþólsku Kristskirkju í Reykjavík. Einnig kennir hún við hann heilags Þorlákssókn í Reyðarfirði sem var stofnuð 28. júlí 2007 og nær yfir Austur-Skaftafellssýslu og báðar Múlasýslur en sóknarkirkja og klaustur eru á Kollaleiru.

Aftur á móti fyrir Siðskipti er á Íslandi ríkti Kaþólskur siður voru meira en fimmtíu Íslenskar kirkjur helgaðar heilögum Þorláki. Hin elsta þeirra mun hafa staðið á Stóra-Hofi á Rangárvöllum og vígsla hennar tengist jartein sem fólk áleit vera. Einnig dregur Þorlákshöfn í Árnessýslu nafn sitt af biskupinum. Sagt er að þar hafi áður verið bærinn Elliðahöfn en í sjóhrakningi hafi bóndinn heitið á Þorlák að breyta nafninu ef skip hans næði landi. Hitt kann þó að vera eldra að bærinn hafi fengið nafn af kirkjunni á þeim stað sem var helguð Þorláki og enn ber guðshús Þjóðkirkjunnar í Þorlákshöfn heiti hans.

Þorláksmessa á okkar tímum

Á seinni tímum hefur Þorláksmessa alveg misst sinn trúarlega heilagleik þótt segja megi samt að upp á fáa daga haldi Íslendingar jafn mikið en þó með æði öðrum hætti en til hans var stofnað og ósennilegt að mörgum sé Þorlákur helgi ofarlega í huga þann dag.

Þorláksmessa dagsins í dag er orðið stór hluti af Jólaundirbúningnum og fyllast oftast allir miðbæjarverslunarkjarnar þéttbýlisstaða af fólki hvort sem það er í verslunarleiðangri en Þorláksmessa er einn ef ekki mesti söludagur verslana á ári hverju eða bara spóka sig og hitta vini og vandamenn.

Eins ljúka mörg við að skreyta hús sín og híbýli þótt það hafi færst í vöxt að byrja að minnstakosti að setja upp jólaljós æ fyrr og það jafnvel strax í nóvember og aðrir hafa þann sið að skreyta jólatréð á þessum degi.

Sá siður sem upprunalega er ættaður frá Vestfjörðum að borða kæsta skötu á Þorláksmessu hefur breiðst út þaðan og orðin algengur siður um allt land þótt sýnist sitt hverjum um ilm þann sem fylgir þeirri verkunar aðferð sem kæsing er enda kæsing ein tegund þess að láta fisk úldna. Svo það er ekkert skrítið að Þorláksmessuskatan eins og mörg kalla hana falli í mis góðan jarðveg og svo sterk er lyktinni að oft þarf að elda hana utandyra þar sem nágrannar sem ekki eru eins hrifnir af kæstri skötu mótmæli ekki þessari sérstöku lykt og heyrst hefur jafnvel af deilum fólks til dæmis í fjölbýli þar sem einhverjir íbúanna hafa alfarið bannað slíka matreiðslu í húsinu. Því má með sanni segja að þessi siður sé með þeim umdeildari í kringum Jólahátíðina.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Þorláksmessa
▶︎ Wíkipedía, Þorlákur helgi Þórhallsson
▶︎ Helgisetur, Jarteinabók Þorláks biskups frá 1199
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)