Annar í hvítasunnu er mánudagurinn eftir hvítasunnudag og líkt og hann almennur frídagur. Nánast ekkert tilstand er í dag hérlendis á hvítasunnudag nema hátíðarmessur í kirkjum og einnig er hann oft notaður sem fermingardagur. Hinsvegar hefur annar í hvítasunnu ekki yfir sér nokkra helgi né kirkjulegt hlutverk annað en að vera frídagur eftir hvítasunnudag.
Almennt eru engir aðrir siðir tengdir þessum dögum sem haldið er upp á nema þar sem annar í hvítasunnu er almennur frídagur er það helst að meðal almennings er þetta fyrst og fremst fyrsta mögulega ferðahelgi sumarsins þar sem hún er þriggja daga frí.
Fjór- þrí- og tvíheilagt
Það var með annan í hvítasunnu líkt og með jól og páska áður fyrr að þriðji og upphaflega einnig fjórði í hvítasunnu voru einnig frídagar og voru þessar þrjár stórhátíðir kirkjunnar allar nefndar fjórheilagar í Grágás og skyldu þeir dagar eftir sjálfan stórhátíðisdaginn vera haldnir líkt og um drottinsdaga væri að ræða en drottinsdagur er það sem í dag kallast sunnudagur og því frídagar í líkingu við hann.
Kaþólska kirkjan feldi síðar niður fjórða frídaginn og gerði þessar þrjár stórhátíðir allar þríheilagar. Eftir siðaskiptin og aukna áherslu lúterskra hreintrúarstefnumanna sem vildu fella niður sem flesta helgi- og frídaga sem eingöngu eða að mestu var hægt að rekja til kaþólsku kirkjunnar gerði Danakonungur þær allar tvíheilagar með tilskipun þar um 1770 og hefur það verið þannig æ síðan.
Þaðan eru komnir þessir þrír dagar sem flestum er löngu gleymt fyrir hvað standa eða hvaða hlutverki þeir gegna, þeir annar í jólum, annar í páskum og annar í hvítasunnu. Það er því langur vegur frá þeim tíma að stórhátíðir fornaldar fyrir kristnitöku skyldu standa í 8 daga sem þá var algengt, niður í fjóra svo þrjá og loks tvo eins það er í dag.
Annar í hvítasunnu sem frídagur
Þar sem aðfangadagur er frídagur til hálfs eða frá klukkan 13:00 verða jólin í praxís tveir og hálfur frídagur, þótt margt fólk fái aðfangadag að fullu sem frídag og þar með þriggja daga frí. Páskarnir eru þó lengsta samfellda fríhátíðin þar sem fimmtu- og föstudagur það er skírdagur og föstudagurinn langi eru frídagar og samkvæmt vinnulöggjöfinni laugardagurinn líka, síðan páskadagur sjálfur á sunnudegi og annar í páskum á mánudeginum, verður páskahátíðin lengsta samfellda frí á Íslandi eða fimm dagar.
Þar sem páskadagur er bundinn við fastan vikudag það er sunnudag getur páskafríið aldrei verið styttra né lengra. Aftur á móti þar sem jóladagur er bundinn við dagatalsdaginn 25. desember geta jólin ef aðfanga- jóladagur og annar í jólum leggjast við helgi orðið lengra frí en tveir og hálfur dagur ef aðfangadagur er á sunnudegi. Þá er fyrst laugardagurinn frí og aðfangadagur frídagur að fullu verandi sunnudagur síðan jóladagur á mánudegi og annar í jólum á þriðjudegi eða samtals fjórir dagar. Að vísu er mjög mörgum gefið fullt frí á aðfangadag svo ef hann lendir á mánudegi verður það þá fimm daga frí líkt og páskarnir fyrir þau sem fá aðfangadag að fullu sem frídag.
Þótt ekki séu allir sammála um hverskonar jól skuli nefnd Brandajól í dag né hvernig það var áðurfyrr þá eru flestir þó sammála um að kalla þau jól sem gefa flesta frídaga Stóru Brandajól og þau sem gefa næstflesta frídaga, sem eru þá til dæmis ef aðfangadagur lendir á mánudegi og því verður það fyrst fríhelgi, síðan hálfur frídagur og loks tveir frídaga, Litlu Brandajól. Þó er það þannig að þau sem fá fullt frí á aðfangadag samkvæmt samningi við sinn vinnuveitanda, fá fimm daga frí þau jól þegar aðfangadagur fellur á mánudag á meðan þau sem þurfa samkvæmt lögum um að aðfangadagur sé aðeins frídagur til hálfs fá fjóra og hálfan þau jól sem kölluð eru Litlu Brandajól. Svo það er ekki sama hverskonar vinnusamning fólk hefur hvort þeirra Stóru Brandajól eru fimm dagar eða fjórir eða fjórir og hálfur, allt eftir því hvernig er talið. En um þetta er fjallað nánar í greininni Frídagar á Íslandi hér á Almanaksvefnum.
Þótt annar í hvítasunnu láti lítið yfir sér samanborið við hve páskar eru langt frí og jólin geta einnig orðið og lengi hvítasunnuhelgina aðeins um einn dag og skapi þar með aðeins þriggja daga helgi líkt og Frídagur verslunarmanna gerir, þá er honum samt almennt fagnað. Sérstaklega ef páskarnir eru seint á ferðinni það árið og hvítasunnuhelgin því kominn eitthvað rétt inn í júní. Því eftir veturinn er þetta fyrsta mögulega sumarfríið sem fólk fær óumbeðið og því talsverð ferðahelgi sérstaklega innanlands. Ef veður er gott þá eru það ekki margir sumarbústaðir sem standa tómir þessa helgi auk þess sem húsbílar og hjólhýsi fá oft sína fyrstu viðrun eftir að hafa hímt í geymslum yfir veturinn.
▶︎ Wíkipedía, Annar í hvítasunnu
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Hvítasunnudagur
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi