Hvítasunnudagur

Hvítasunnudagur sem til forna var oftast kallaður Hvítadagur, stundum einnig Hvítdrottinsdagur, Píkisdagur eða Pikkisdagur, er ein af þremur megin hátíðum kristinnar kirkju auk Páska og Jóla.

Upphaflega táknaði Hvítasunnan lok Páskatímans sem varði í 50 daga talið frá Páskadegi og er Hvítasunnudagur 49. dagurinn eftir Páskadag og tíundi dagurinn eftir Uppstigningardag. Var uppstigningunni upphaflega fagnað á Hvítasunnudag uns hún var færð og öðlaðist sinn eigin dag.

Hvítasunnan líkt og fleiri hátíðir kirkjunnar eru upphaflega komnar frá Gyðingum og meðal þeirra var hún uppskeruhátíð sem haldin var á fimmtugasta degi eftir hina Gyðinglegu Páska en Forngrískt heiti Hvítasunnunnar pentekosté heméra merkir einmitt fimmtugasti dagurinn og kemur frá Grískumælandi Gyðingum.

Af hinu Gríska nafni er heiti hennar dregið í ýmsum erlendum málum. Á Dönsku kallast hún Pinse og á ensku Pentecost en á Ensku er einnig til sambærilegt nafn því Íslenska sem er Whitsunday.

Hvítadagur

Hvítadagur sem venjulega var notað áður fyrr dró nafn sitt af því að algengt var að fólk væri skírt Aðfaranótt Hvítasunnu en hún einnig haldin hátíðleg líkt og margar aðrar aðfaranætur stórhátíða. Eftir skírnina var fólk klætt í hvít klæði og er þaðan komin hefðin fyrir hvíta skírnarkjólnum sem við notum í dag.

Aðrar aðfaranætur sem við þekkjum og notum enn eru sem dæmi Aðfaranótt eða Aðfangadagur Jóla og Jónsmessunótt og í rauninni er Gamlárskvöld fyrst og fremst Aðfaranótt Nýársdags sem telst hinn raunverulegi hátíðisdagur þótt í dag sé meira við haft á Gamlárskvöld meðal almennings en á Nýársdag, þá telst hann ekki meðal kirkjuhátíða heldur Nýársdagur og líku er farið með Aðfangadag Jóla sem er ekki einu sinni að fullu frídagur og helgi hans hefst ekki fyrr en um kvöldið og líku er farið með Gamlársdag.

Frá því að vera uppskeruhátíð meðal Gyðinga minnast kristnir þessa dags þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana og aðra fylgjendur Jesú eins og lýst er í Postulasögunni en jafnframt loka 50 daga Páskatíðar eins og Gyðingar.

Nánast ekkert tilstand er í dag hérlendis á Hvítasunnudag nema hátíðarmessur í kirkjum og er hann einnig oft notaður sem fermingardagur. En almennt eru engir siðir tengdir þessum dag sem haldið er upp á, utan helst þess að meðal almennings er þetta fyrst og fremst fyrsta mögulega ferðahelgi sumarsins þar sem mánudagurinn eftir Hvítasunnudag, Annar í Hvítasunnu er Almennur frídagur og helgin því þriggja daga fríhelgi. Hvítasunnudagur er einnig Opinber Íslenskur fánadagur.

Fjór- þrí- og tvíheilagt

Það var með Annan í Hvítasunnu líkt og með Jól og Páska áður fyrr að Þriðji og upphaflega einnig Fjórði í Hvítasunnu voru einnig frídagar og voru þessar þrjár stórhátíðir kirkjunnar allar nefndar Fjórheilagar í Grágás og skyldu þeir dagar eftir sjálfan stórhátíðisdaginn vera líkt og Drottinsdagar eða eins og við köllum Drottinsdag í dag, sunnudagar og því frídagar í líkingu við hann.

Kaþólska kirkjan feldi síðar niður fjórða frídaginn og gerði þær allar Þríheilagar og eftir Siðaskiptin og aukna áherslu Lúterskra hreintrúarstefnumanna sem vildu fella niður sem flesta helgi- og frídaga sem eingöngu eða að mestu var hægt að rekja til Kaþólsku kirkjunnar, gerði Danakonungur þær allar Tvíheilagar með tilskipun þar um 1770 og hefur það verið þannig æ síðan.

Þaðan eru komnir þessir þrír dagar sem flestum er gleymt hvað standa fyrir, Annar í Jólum, Annar í Páskum og Annar í Hvítasunnu. Það er því langur vegur frá þeim tíma að stórhátíðir fornaldar skyldu standa í 8 daga sem var mjög algengt.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Hvítasunnudagur
▶︎ Vísindavefurinn, Af hverju er hvítasunnan haldin hátíðleg?
▶︎ Almanaksvefurinn, Hátíðardagatal íslensku þjóðkirkjunnar
▶︎ Almanaksvefurinn, Annar í hvítasunnu
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi
▶︎ Almanaksvefurinn, Opinberir íslenskir Fánadagar