Bóndadagur

Bóndadagur nefnist fyrsti dagur Þorra. Takmarkaðar heimildir eru til um þennan dag og siði honum tengdum og því erfitt að ráða í aldur hans og hverju hann tengdist. Af þeim fáu heimildum sem til eru þá er þó ljóst af frásögnum af siðum honum tengdum að hér hafi verið um alþýðutyllidag en ekki hátíðisdag og því alls óvíst hvort hann hafi verið mjög útbreiddur eða hvaða tilstand hafi tíðkast þar sem hann var haldinn.

Hefðir á Bóndadag

Ein elsta heimild sem við höfum kemur fram í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728 að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði Þorrann velkomin og inn í bæ eins og um tignan gest væri að ræða.

Mér er þó kunnugt um að í Vatnsdal í Húnavallasýslu hafi um 1960 ennþá tíðkast á minnsta kosti einum bæ sem ég hef fengið staðfest, sú hefð að ganga kringum bæinn og bjóða Þorra velkomin, ekki ólíkt og fram kemur í fyrrnefndu bréfi Jóns Halldórssonar. Frúin á þeim bæ var fædd 1896, ólst upp og bjó í Vatnsdal alla sína tíð og er það því möguleiki að sá siður sem Jón nefnir en hann var fæddur 1665, hafi verið stundaður í einhverri mynd um aldir og allt fram á 20. öld.

Aftur á móti af þeim frásögum sem Jóni Árnasyni bárust greinir hann frá í þjóðsagnasafni sínu frá eftirfarandi tveim siðum en taka skal fram að ekki komst allt það efni sem Jóni barst í þjóðsagnasafnið gæti hann því hafa fengið frásagnir ef öðrum siðum og eins vitum við ekki hvort þessi frásögn sé aðeins frá einum aðila eða fleirum.

Fræðimenn efast almennt um sannleiksgildi þess fyrra eða að ef sá siður hafi verið yfir höfuð til þá hafi hann verið staðbundinn og meira til gamans gerður en að baki honum hafi legið nokkur alvara. Sá seinni er líklegri enda álíka siður viðhafður á Konudag, fyrsta dag Góu sem og Yngissveinadag og Yngismeyjardag, það er að með einhverjum hætti stjana meira en venjulega við viðkomandi.

Frásögnin í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er eftirfarandi:

… með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir aða fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.

Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“ á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót“

Bóndadagsblóm

Núna hefur sú hefð komist á að konur gefi bónda sínum blóm á þessum degi líkt og að menn gefa konu sinni blóm á Konudaginn fyrsta dag Góu.

Er þessi siður ekki ýkja gamall og má rekja upphaf hanns til þess að Þórður Þorsteinsson blómasali á Sæbóli í Kópavogi auglýsti í útvarpi skömmu fyrir 1980 og hvatti konur til þess að gefa bændum sínum blóm í tilefni dagsins. Nefna má einnig að Þórður þessi var sá sámi sem fyrstur blómasala auglýsti Konudagsblóm og því upphafsmaður að báðum þessum ekki svo ýkja gömlu siðum. Aðrir blómasalar og framleiðendur fylgdu fljótlega í kjölfarið og sem dæmi auglýstu Samtök blómaframleiðenda í útvarpi í janúar 1980, fimmtudaginn fyrir Bóndadaginn:

Bóndadagur er á morgun.
Örugglega metur bóndinn þá blóm.
Blómaframleiðendur.

Lítið fór þó fyrir auglýsingum í blöðum lengst af ef skoðað er á timarit.is og Bóndadagsblómin hafa verið nokkuð lengi að festa sig í sessi og eru ekki eins útbreiddur siður og Konudagsblómin.

Sá siður að gera vel við bónda sinn og annað heimilisfólk í mat og drykk á Bóndadaginn virðist samt hafa haldist og ekki óalgengt að það sé látið renna saman við að borðaður sé Þorramatur um þetta leiti heima við og verður þá Bóndadagurinn oft fyrir valinu.

Dæmi um hve sá siður að gefa Bóndadagsblóm hefur aukist hægt og er ekki útbreiddari enn hann er, þá spurði DV í sínum fasta dálki „Spurning dagsins“ þriðjudaginn 24. janúar 1984, en Bóndadagurinn það árið var föstudaginn þar á eftir, 6 konur spurningarinnar, „Gefur þú manni þínum blóm á bóndadaginn?“ Af þessum 6 konum svöruðu aðeins 2. já en 4. nei. En þótt ekki hafi verið um það spurt, nefna 4. konur að þær gæfu honum gott að borða en 2. minntust ekkert á mat. DV spurði aftur sömu spurningar árið 1996 og þá sögðu af þeim 6 konum sem spurðar voru 3. já, 1. stundum og 2. nei svo það hafði lítil breyting orðið á þessum 12 árum.

Daginn eftir snéri DV spurningunni við og spurðu 6 karlmenn á förnum vegi hvort þeir teldu að þeir myndu fá blóm á Bóndadaginn. Af þessum 6 sögðu 4. nei og þar af einn sem sagðist ekki einusinni vita hvað Bóndadagurinn væri, 1. sennilega og aðeins 1. sagði já. Svo þarna, árið 1996, voru Bóndadagsblóm ekki orðin mjög almennur útbreiddur siður.

Hvað varðar hlut blómasala í þróun siða á ákveðnum tyllidögum má nefna í því sambandi innreið Valentínusardagsins seinni árin, að hann er alfarið tilkominn vegna auglýsing fyrirtækja og þá sérstaklega blómasala til að auka sölu á blómum og öðrum varningi tengdum ástinni og ekkert annað sér Íslenskt tilefni liggur að baka þess að halda upp á þann dag hér á landi.

Þó gerir það daginn engu síðri sem tyllidag því hver vill ekki fá blóm og vera sýndur hlýhugur hvert sem tilefnið er.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
Wíkipedía, Bóndadagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Þorri
▶︎ Almanaksvefurinn, Yngismannadagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Yngismeyjardagur
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)