Frídagur verslunarmanna

Frídagur verslunarmanna er haldinn fyrsta mánudag í ágúst ár hvert og ber því ekki alltaf upp á sama vikudag. Upphaflega var Frídegi verslunarmanna komið á af Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur og hann ætlaður starfsfólki verslana að danskri fyrirmynd en þá var ekki gert ráð fyrir neinu sérstöku orlofi starfsfólk.

Upphafið

Fyrst var haldið upp á Frídag verslunarmanna í Reykjavík fimmtudaginn 13. september árið 1894. Var það eftir að kaupmenn allra stærri verslana í Reykjavík buðust til að gefa starfsmönnum sínum sérstakan frídag til að skemmta sér. Sá Verzlunarmannafélag Reykjavíkur um skemmtidagskrá þann dag sem það og gerði lengst framan af.

Ári seinna var haldið upp á daginn um miðjan ágúst og þriðja árið undir lok ágúst. Eftir það var haldið upp á daginn í byrjun Ágúst uns árið 1931 að hann var festur sem fyrsti mánudagurinn í ágúst og hefur verið svo síðan.

Verslunarmannahelgin

Þar sem Frídagur verslunarmanna fellur á mánudag eftir helgi verður til löng þriggja daga helgi á þeim tíma sumars sem búast má við sem bestu veðri og sú helgi kölluð Verslunarmannahelgin eftir Frídegi verslunarmanna. Mikinn hluta 20. aldar varð þessi helgi því að einni mestu ferðahelgi ársins og ýmsar hátíðardagskrár víða um land voru felldar saman við hana. Einna þekktust þeirra og elst er Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum.

Lögbundin sem almennur frídagur

Þessi þróun gerði það smám saman að verkum að Frídagur verslunarmanna breyttist úr því að vera frídagur einnar starfsstéttar yfir í að vera almennur frídagur en það var gert um miðja 20. öld að hann var lögfestur sem Lögbundinn almennur frídagur.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Frídagur verslunarmanna
▶︎ VR, Frídagur verslunarmanna
▶︎ Almanaksvefurinn, Verslunarmannahelgin
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi