Mörsugur

Mörsugur er 3. mánuður vetrarmisseris og hefst ætíð á miðvikudegi í 9. viku vetrar á bilinu 20. til 27. desember um Vetrarsólstöður sem ætíð eru innan þessara dagamarka sem og Kristsmessa, hinum Kristnu Jólum þann 25. desember.

Er hann því öndverður við Sólmánuð 3. mánuð sumarmisseris sem hefst ætíð á mánudegi í 9. viku sumars í kringum Sumarsólstöður og Jónsmessu milli 18. til 24. júní en Jónsmessan þann 24. júní er forn sólstöðuhátíð líkt og hin Kristnu Jól.

Hrútmánuður

Mörsugur var einnig nefndur Hrútmánuður eða Hrútmál þar sem á þessu tímabili er fengitíð áa og kindur leiddar undir hrúta. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal skrifaði einmitt í riti sínu Atli um Mörsug:

„Mörsugur heitir sá mánuður, sem byrjar nær vetrarsólstöðum, þá sólin kemur í Steingeitarmerki. Í 10. viku vetrar hleypa menn hrútum til ásauðar, nema menn hafi nóg hey og vænti eftir góðu vori, þá viku fyrr“

Því er heitið Hrútmánuður lýsing á tíð í árhring búskaparhátta en eiginlegt mánaðarheiti en líku er farið um heiti fleiri mánaða misseristalsins. Til dæmis eru þau heiti sem nefnd eru í Snorra-Eddu og eru flest allt önnur en í öðrum ritum, sambærileg að þau lýsa hvaða verk eru unnin á viðkomandi tímabili í árhring búskapar eða veðra von.

Jólamánuður

Mörsugur hefur líka verið nefndur Jólamánuður sem líklegt verður að teljast að sé líkt til komið og með Hrútmánuð að vera nefndur svo vegna tengingar við upphaf hinnar Kristnu Jólahátíðina heldur en að hafa verið notað sem eiginlegt nafn hans.

Það er eðlilegt þar sem hann hefst ætíð á miðvikudegi á tímabilinu 20.–27. desember og því kringum þeim tíma sem Kristnir settu niður sem dagsetningu hinna Kristnu Jóla. En misseristalið byggir ekki á mánaðardögum heldur vikum og vikudögum svo Mörsugur getur ekki hafist nákvæmlega upp á dag Kirkju dagatalsins á hverju ári.

Jól fyrir kristni

Ekki er vitað hvenær Jól voru almennt haldin fyrir Kristni og í fornsögum virðast Jól ekki hafa haft annan tilgang en að halda þriggja daga veislu matar og drykkjar í skammdeginu. Þau tengjast hvorki trú né neinum veraldlegum gerningum og ekki víst heldur að þau hafi alltaf verið haldinn á nákvæmlega sama tíma.

Hvergi er minnst einu orði á tímasetningu þeirra utan á einum stað er minnst á að Kristnir hafi fært þau fram um einhverja daga. Hvort það voru nákvæmlega ákveðinn fjöldi daga eður ei vitum við ekki en þar sem ekki er nefnd nein tala um þessa tilfærslu verður að teljast nokk öruggt að þau fylgdu ekki neinni ákveðinni dagsetningu því þessar dagsetningar sem notast er við í dag voru ákvarðanir Kristinna sem miðuðu Kirkjuárið við hið Rómverska Júlíanska tímatal sem byggist á niðurnjörvuðum mánuðum og númeringu daganna innan hvers mánaðar ólíkt Misseristalinu sem byggi á vikum og vikudögum þótt þeir hafi jafnframt notast við 30 daga talningu mánaða og til þess að rétta af þá skekkju sem við það skapast var skotið inn aukadögum í hvort misseri svo það stefndi við sem réttastan gang sólar.

Hafi þau verið haldin ætíð á sama tíma samkvæmt misseristalinu þá hefur það verið í fyrstalagi í einhverri ákveðinni viku vetrarmisseris og ef það hefur verið nákvæmar þá hafist á ákveðnum vikudegi í viðkomandi viku. Líklegt verður að teljast að miðað hafi verið við ákveðinn vikudag svo þau pössuðu við almenn búverk sem og frídaga vinnuhjúa. En hvergi er þó í heimildum getið um hvaða tími þetta var né að það hafi skipt nokkru sérstöku máli hvenær þau voru haldin.

Líku er farið með flest annað í misseristalinu að þar miðast upphaf hvers mánaðar við ákveðinn vikudag í ákveðinni viku hvors misseris fyrir sig. Mörsugur hefst til dæmis ævinlega á miðvikudegi í 9. viku vetrarmisseris og því bæði samkvæmt hinu Kristna Júlíanska tímatals sem Kaþólska Kirkjan reyndi að innleiða með upptöku Kristni hér á landi sem og Gregoríska tímatalsins sem tekið var upp aldamótin 1700 þá getur upphaf Mörsugs aldrei lent nákvæmlega á sömu dagsetningunni heldur einhversstaðar á bilinu frá 20. til 27. desember sem er vikan fyrir og um Jól Kristinna sem aftur á móti eru sett niður á ákveðnar dagsetningar.

Merking nafnsins Mörsugur

Hvergi er til skráð skýring á nafninu Mörsugur og ekki kemur öllum saman um hvernig beri að skilja það. Nokk víst er að það er samsett úr orðunum mör-, fita og sugur, það að sjúga. Þannig skilið er nafnið þá að sjúga mör eða fitu.

En þá í hvaða merkingu, það er það sem við ekki vitum. Var hugsunin sú að þessi tími árs sygi mörinn, fituna úr fólki og fénaði líkt og sum vilja meina. Gísli Jónsson Íslenskufræðingur orðaði það sem svo að Mörsugur væri sá mánuður sem sýgur mörinn, „ekki einasta úr skepnunum, heldur nánast öllu sem lífsanda dregur.“

Það er þó vart passandi að í aðeins 3. mánuði vetrar eftir sláturtíð væri orðið svo þröngt í búi hjá mannfólki að það væri að horast, úr þeim sogast fitan, mörinn, né heldur að vetrarbeit hafi verið svo rýr og langt gengið á hey að ær væru að horast enda þurfti hey að endast ekki bara út Mörsug heldur líka Þorra, Góu og Einmánuð uns grænkaði á ný með sumarkomu Hörpu.

Einasta skýringin sem mér finnst geta gengið upp er að horfa til árstímans og að meint hafi verið að í svartasta skammdeginu þurfti mest að lýsa upp hýbýli og vistarverur svo fólk sægi til verka og því var skammdegis myrkrið að „sjúga,“ það er ganga á forða fólks af mör til lýsingar en síðan smámsaman með hækkandi sól hætti myrkrið að soga til sín eins mikið af þeim mörbyrgðum sem fólk átti til vestursins. Aðra betri skýringu hef ég ekki fundið.

Í rauninni hallast ég að því að ekki sé ósvipað farið með Jólasveinanafnið Kertasníkir að hann sé í rauninni myrkrið. Myrkrið er jú það sem sníkir ljósið ef svo má að orði komast, sníkir ljósið sem logar á tólgarkertinu en tógin er jú unnin úr mör, þeirri mör sem myrkrið sýgur til sín þegar það gleypir ljósið og Kertasníkir kemur til byggða síðastur þeirra sveina í byrjun Mörsugs.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Mörsugur
▶︎ Bækur.is, Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
▶︎ Almanaksvefurinn, Vetrarsólstöður
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)