Mörsugur

Mörsugur er 3. mánuður vetrarmisseris og hefst ætíð á miðvikudegi í 9. viku vetrar á bilinu 20. til 27. desember um Vetrarsólstöður sem ætíð eru innan þessara dagamarka sem og Kristsmessa, hinum Kristnu Jólum þann 25. desember.

Er hann því öndverður við Sólmánuð 3. mánuð sumarmisseris sem hefst ætíð á mánudegi í 9. viku sumars í kringum Sumarsólstöður og Jónsmessu milli 18. til 24. júní en Jónsmessan þann 24. júní er forn sólstöðuhátíð líkt og hin Kristnu Jól.

Hrútmánuður

Mörsugur var einnig nefndur Hrútmánuður eða Hrútmál þar sem á þessu tímabili er fengitíð áa og kindur leiddar undir hrúta. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal skrifaði í riti sínu Atli um Mörsug:

„Mörsugur heitir sá mánuður, sem byrjar nær vetrarsólstöðum, þá sólin kemur í Steingeitarmerki. Í 10. viku vetrar hleypa menn hrútum til ásauðar, nema menn hafi nóg hey og vænti eftir góðu vori, þá viku fyrr“

Því er heitið Hrútmánuður lýsing á tíð í árhring búskaparhátta heldur en eiginlegt mánaðarheiti en líku er farið um fleiri heiti sem mánuðum misseristalsins var gefið í sumum eldri ritum og almanökum. Til dæmis eru þau heiti sem nefnd eru í Snorra-Eddu og eru flest allt önnur en í öðrum ritum sambærileg að því leiti að þau lýsa hvaða verk eru unnin á viðkomandi tímabili í árhring búskapar eða veðra von en ekki eiginlegum nöfnum mánaða.

Veðurspádómar Hrútmánaðar

Til eru lýsingar á ýmsum aðferðum á þessum tíma árs til þess að spá fyrir um hvenær vænta mætti að voraði og tún grænka og er það mjög skiljanlegt að í það væri mikið spáð því samkvæmt því sem Séra Björn skrifaði í Atla. Því það hvenær hrútum var hleypt til áa munar aðeins viku samkvæmt Birni en gæti hafa verið eitthvað lengra tímabil ef fólk óttaðist að seint myndi vora og fólk átti lítið hey því heylaus vill enginn vera í miðjum sauðburði ef ekki er hægt að hleypa ám út og tún orðin græn því annars var hætta á að lömb lifðu slíkt ekki af. Ef fólk taldi að svo myndi verða var mikilvægt að seinka því að hleypa hrútum til áa og seinka þannig sauðburði þótt ekki væri nema um viku og nokkra daga því einnig skipti jafnmiklu máli að sauðburður hæfist ekki of seint.

Því hafa þær veðurspár um snjóþyngsli á útmánuðum og hvenær myndi fara að grænka samanborið við hvað fólk átti mikið hey skipt mjög miklu máli og gat þar munað um aðeins viku eða nokkra daga til eða frá ef tekið er mið af lýsingu Björns.

Má því telja líklegt að sögur af hinum ýmsu veðurspádómum á þessum tíma árs sem meðal annars eru margar til tengdar Nýársnótt og öðrum aðferðum í upphafi Mörsugs séu einhverjar réttar eða eitthvað þeim nærri, enda átti fólk mikið undir að geta sér rétt til um hvenær tún myndu grænka og út frá því hvenær ær skildu leiddar undir hrúta. Svo mikið að það gat munað um aðeins viku jafnvel daga. Langt var þó í vorið og allir útmánuðirnir eftir og því mjög erfitt til um það að spá hvenær tún yrðu græn, svo miklu skipti að veðurspádómar væru byggðir á bestu reynslu sem sýnt hefði sig yfir langan tíma að vera sem nærst lægi en sneiða hjá hindurvitnum sem gátu verið óáreiðanlegri því það gat skilið á milli feigs eða ófeigs hvort spádómarnir rættust eður ei og líklega fáir veðurspádómar verið eins mikilvægir áður fyrr en þessir.

Jólamánuður

Mörsugur hefur líka verið nefndur Jólamánuður sem líklegt verður að teljast að sé líkt til komið og með Hrútmánuð að vera nefndur svo vegna tengingar hanns við upphaf hinnar Kristnu Jólahátíðina heldur en að hafa verið notað sem eiginlegt nafn hans.

Það er eðlilegt þar sem hann hefst ætíð á miðvikudegi á tímabilinu 20.–27. desember og því kringum þeim tíma sem Kristnir settu niður sem dagsetningu hinna Kristnu Jóla. En misseristalið byggir ekki á mánaðardögum heldur vikum og vikudögum svo Mörsugur getur ekki hafist nákvæmlega upp á dag Kirkju dagatalsins á hverju ári.

Jól fyrir Kristni

Ekki er vitað hvenær Jól voru almennt haldin fyrir Kristni og í fornsögum virðast Jól ekki hafa haft annan tilgang en að halda þriggja daga veislu matar og drykkjar í skammdeginu. Þau tengjast hvorki trú né neinum veraldlegum gerningum og ekki víst heldur að þau hafi alltaf verið haldinn á nákvæmlega sama tíma.

Hvergi er minnst einu orði á tímasetningu þeirra utan á einum stað er minnst á að Kristnir hafi fært þau fram um einhverja daga. Hvort það var nákvæmlega ákveðinn fjöldi daga eður ei vitum við ekki en þar sem ekki er nefnd nein tala um þessa tilfærslu verður að teljast nokk öruggt að þau fylgdu ekki neinni ákveðinni dagsetningu því þessar dagsetningar sem notast er við í dag voru ákvarðanir Kristinna sem miðuðu Kirkjuárið við hið Rómverska Júlíanska tímatal sem byggist á niðurnjörvuðum mánuðum og númeringu daganna innan hvers mánaðar ólíkt Misseristalinu sem byggir á vikum og vikudögum þótt jafnframt sé notast við 30 daga talningu mánaða og til þess að rétta af þá skekkju sem við það skapast er skotið inn aukadögum í hvort misseri svo það stemmi við sem réttastan gang sólar og lengd sólarársins.

Hafi þau verið haldin ætíð á sama tíma samkvæmt misseristalinu þá hefur það verið í fyrstalagi í einhverri ákveðinni viku vetrarmisseris og ef það hefur verið nákvæmar þá hafist á ákveðnum vikudegi í viðkomandi viku. Líklegt verður að teljast að upphaf þeirra hafi verið miðað við ákveðinn vikudag svo þau pössuðu við almenn búverk sem og frídaga vinnuhjúa enda um þriggja daga veisluhöld að ræða. Hvergi er þó í heimildum getið um hvaða tími þetta var né heldur að það hafi skipt nokkru sérstöku máli hvenær þau voru haldin þótt svo hafi kannski verið en okkur skortir heimildir til þess að vita það.

Líku er farið með flest annað í misseristalinu að þar miðast upphaf hvers mánaðar við ákveðinn vikudag í ákveðinni viku hvors misseris fyrir sig. Mörsugur hefst til dæmis ævinlega á miðvikudegi í 9. viku vetrarmisseris og því bæði samkvæmt hinu Kristna Júlíanska tímatals sem Kaþólska Kirkjan reyndi að innleiða með upptöku Kristni hér á landi sem og Gregoríska tímatalsins sem tekið var upp aldamótin 1700 þá getur upphaf Mörsugs aldrei lent nákvæmlega á sömu dagsetningunni heldur einhversstaðar á bilinu frá 20. til 27. desember sem er vikan fyrir og um Jól Kristinna sem aftur á móti eru sett niður á ákveðnar dagsetningar.

Ýlir og hin fornu Jól

Eitt af því fáa sem við getum litið til um það hvenær haldið var mögulega upp á hin heiðnu Jól eru tímasetningar milli annara hátíða misseristalsins sem og einnar hefðar sem algeng var til forna. Á undan Jólum til dægrastyttingar er síðasta hátíðin Veturnæturblótið og eftir þau Miðsvetrarblótið. Ólíklegt má teljast að hin fornu Jól hafi verið haldin mjög nærri öðru hvoru þessara stóru blóta þannig að vart væri búið að halda heila þriggja daga til viku langrar matar og drykkjuveislu þegar sú síðasta væri rétt liðin eða stutt í þá næstu. Við vitum hvenær Veturnætur voru haldnar en það var fyrir og um Fyrsta vetrardag, upphaf vetrarmisseris og því nokkuð langt í Mörsug. Hinsvegar er ekki vitað hvenær Miðsvetrarblótið var haldið en líklegast er að það hafi í fyrstalagi verið haldið um Miðjan vetur vetrarmisseris, fyrsta dag Þorra eða snemma í janúar.

Hvort gömlu Jólin hafi verið haldin þarna mitt á milli ef horft er til tímasetninga annarra fornra heiðinna hátíða þá er ekkert í misseristalinu sem sérstaklega bendir til þess því hátíðir voru sjaldnast tímasettar samkvæmt því heldur tóku mið af öðrum þáttum en að telja vikur og mánuði þótt það sé ekki útilokað að svo hafi verið. Annað atriði sem við getum horft til er að í sumum fornum menningarsamfélögum var hefð fyrir því að halda tvær hátíðir sitthvoru megin við Vetrarsólstöður en ekki á þeim sjálfum. Við höfum engar heimildir þess efnis að heiðnu Jólin hafi verið haldin á Vetrarsólstöðum né nokkur önnur hátíð svo mögulegt er að við þessa hefð hafi verið miðað. Við getum þá sagt að Miðsvetrarblótið sé ígildi hátíðar eftir Vetrarsólstöður en það var að öllum líkindum haldið um eða rúmlega mánuði eftir Sólstöður svo kannski voru gömlu Jólin samskonar og þá haldin kringum mánuði fyrir Sólstöður. Ef svo hefur verið þá hefðu þau verið haldin um tvemur mánuðum eftir Vetrarnæturblót og Miðsvetrarblótið síðan um tvemur mánuðum síðar, það er, mitt á milli þessara stóru blóta en hvergi er minnst á það að Jólin hafi verið blót, aðeins veisla sér til skemmtunar og dægrastyttingar. Svo kannski þótt heiðnar hátíðir væru almennt ekki tímasettar mitt á milli annara hátíða þá voru samkvæmt heimildum heiðnu Jólin í rauninni bara dægrastytting en ekki eiginleg hátíð né blót né nokkru öðru tengd en gera sér glaðan dag svo það gæti alveg hafa verið.

Ef þessi háttur hefur verið viðhafður þá hafa hin heiðnu Jól verið nærri upphafi Ýlis, mánuðinum á undan Mörsugi. Nafn Ýlis er algerlega á huldu og ekki hægt með góðu móti að rekja uppruna þess né merkingu og því talið að nafn hans sé eitt elsta nafn misseristalsins.

Ásgeir Blöndal Magnússon telur orðið Ýlir vera skylt orðinu Jól en uppruni beggja þessara orða er umdeildur og Árni Björnsson telur mánaðarheitið Ýlir helstu röksemd fyrir heiðnu Jólahaldi í desember.

Um þessi atriði hafa margir ritað og rætt og sitt sýnist hverjum. Það er ákveðin hljóðskyldleiki með þessum tvemur nöfnum en þar sem ekki hefur verið hægt með óyggjandi hætti að sýna fram á hver sé uppruni né merking hvorugs þeirra þá verðum við víst við það una að taka hverri hugmynd sem sett er fram sem kenningu og trúa því sem hyggjuvitið segir okkur því fræðin hafa ekki við þessu svar.

Ýlir hefst ætíð á mánudegi í fimmtu viku vetrar á tímabilinu 20. til 27. nóvember eða mánuði á undan hinum Kristnu Jólum samkvæmt núverandi tímatali okkar. Þetta er þó bara kenning sem ekki á sér nokkrar heimildir til að bakka sig upp, aðeins hægt að vísa til þess að í sumum menningarsamfélögum til forna hafi verið haldnar tvær hátíðir sitthvorum megin Sólhvarfa en ekki á þeim sjálfum, líkindi og kenningar um uppruna og merkingu mánaðarnafnsins Ýli sem samt er bara kenning sem engar heimildir eru til um og mannlegi þátturinn sem er að ópraktískt er að láta líða langt á milli Vetrarnæturblótsins yfir í næstu dægrastyttingu og síðan stutt í þá næstu, Miðsvetrarblótið.

Þótt þetta sé langt í frá nokkur sönnun þess hvenær hin fornu heiðnu Jól voru haldin þá að minnst kosti ef eitthvað er til í þessum kenningum þá væri það enn síður ástæða til þess að kalla Mörsug Jólamánuð með tilvísun til hinna gömlu heiðnu Jóla og álykta frekar að hann hafi stundum verið nefndur Jólamánuður þar sem hann hefst í kringum hin Kristnu Jól en það er þó ekki eiginlegt nafn og líkt og Hrútmánuður aðeins vísan til þess sem tilheyrði þessum tíma ársins.

Merking nafnsins Mörsugur

Þótt nöfnin Hrútmánuður sé skiljanlegt og líklega Jólamánuður líka þá eru þetta ekki eiginleg mánaðarnöfn og rétt nafn mánaðarins er Mörsugur. Hvergi er þó til skráð skýring á nafninu Mörsugur og ekki kemur öllum saman um hvernig beri að skilja það. Nokk víst er að það er samsett úr orðunum mör-, fita og sugur, það að sjúga. Þannig skilið er nafnið þá að sjúga mör eða fitu.

En þá í hvaða merkingu, það er það sem við ekki vitum. Var hugsunin sú að þessi tími árs sygi mörinn, fituna úr fólki og fénaði líkt og sum vilja meina? Gísli Jónsson Íslenskufræðingur orðaði það sem svo að Mörsugur væri sá mánuður sem sýgur mörinn, „ekki einasta úr skepnunum, heldur nánast öllu sem lífsanda dregur.“

Það er þó vart passandi að í aðeins 3. mánuði vetrar eftir sláturtíð væri orðið svo þröngt í búi hjá mannfólki að það væri að horast, úr þeim sogast fitan, mörinn, né heldur að vetrarbeit hafi verið svo rýr og langt gengið á hey að ær væru að horast enda þurfti hey að endast ekki bara út Mörsug heldur líka útmánuðina Þorra, Góu og Einmánuð uns grænkaði á ný með sumarkomu Hörpu.

Einasta skýringin sem mér finnst geta gengið upp er að horfa til árstímans og að meint hafi verið að í svartasta skammdeginu þurfti mest að lýsa upp hýbýli og vistarverur svo fólk sægi til verka og því var skammdegis myrkrið að „sjúga,“ það er ganga á forða fólks af mör til lýsingar en síðan smámsaman með hækkandi sól hætti myrkrið að soga til sín eins mikið af þeim mörbyrgðum sem fólk átti til vestursins. Aðra betri skýringu hef ég ekki fundið.

Í rauninni hallast ég að því að ekki sé ósvipað farið með Jólasveinanafnið Kertasníkir að hann sé í rauninni táknmynd myrkursins. Myrkrið er jú það sem sníkir ljósið ef svo má að orði komast, sníkir ljósið sem logar á tólgarkertinu en tógin er jú unnin úr mör, þeirri mör sem myrkrið sýgur til sín þegar það gleypir ljósið og Kertasníkir kemur til byggða síðastur þeirra sveina í byrjun Mörsugs.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Mörsugur
▶︎ Bækur.is, Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
▶︎ Almanaksvefurinn, Vetrarsólstöður
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)