Nýársdagur

Nýársdagur einnig nefndur Áttidagur eða Áttadagur í fornum ritum vegna þess að hann er áttundi dagur Jóla er 1. janúar ár hvert. Í vestrænni menningu er hann fyrsti dagur nýs almanaksárs á Gregoríska tímatalinu. Mjög breytilegt er og hefur verið um heim allan hvenær haldið er upp á áramót. Sem dæmi má nefna að Kínverjar hafa eigin áramót sem lúta allt öðrum reglum en hér á Vesturlöndum og einnig í Íslamska tímatalinu sem er annað en hið Gregoríska.

Saga Nýársdags

Í Evrópu var byrjun ársins lengi vel mjög á reiki. Rómverjar höfðu í öndverðu látið árið hefjast 1. mars og bera nokkur mánaðarheiti enn þess merki; október þýðir í raun 8. mánuður ársins, nóvember þann 9. og desember 10. mánuður ársins. Frá fyrstu öld fyrir upphaf tímatals okkar létu Rómverjar svo árið byrja 1. janúar.

Fyrstu páfarnir héldu sér við þá dagsetningu enda var ekki enn búið að ákvarða hinn opinbera fæðingardag Jesú Krists. Í Austrómverska ríkinu ákvað Konstantínus mikli hins vegar að árið skyldi hefjast 1. september og sumir páfar fylgdu þeim sið.

Um árið 800 fyrirskipaði Karl mikli að í ríki sínu skyldi árið hefjast á Boðunardegi Maríu meyjar 25. mars. Englendingar tóku snemma upp Jóladag sem Nýársdag og héldu sér við hann fram á 12. öld en þá færðu þeir hann einnig yfir á 25. mars. Á næstu öldum gat opinber byrjun ársins verið ólík eftir ríkjum, héröðum og jafnvel hertogadæmum.

Nýársdagur á Íslandi

Íslendingar tóku Jóladag sem Nýársdag eftir Ensku-biskupakirkjunni eins og fleiri siði og héldu sér við hann fram til Siðaskipta um 1540 en þá fluttu þeir hann á 1. janúar aftur. Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13. að upphaf ársins skyldi aftur fært á 1. janúar. Mótmælendur í Norðurálfunni aðrir en Íslendingar þrjóskuðust lengi við en að lokum breyttu þeir einnig tímatali sínu. Í norðurhluta Þýskalands, Danmörku og Noregi var því 1. janúar tekinn upp sem Nýársdagur árið 1700. Englendingar fylgdu ekki í kjölfarið fyrr en árið 1752 en Svíar reyndust allra þjóða fastheldnastir og gerðu 1. janúar ekki að Nýársdegi fyrr en árið 1783.

Íslendingar virðast í þessu efni hafa verið á undan mörgum öðrum þjóðum hins Lúterska rétttrúnaðar og reyndar á undan sjálfum páfanum. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 stendur Nýársdagur við 1. janúar. Sama er að segja um þýðingu Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. árið 1537. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup gerði slíkt hið sama í nokkrum bóka sinna kringum 1600.

Var 1. janúar kannski hin fornu Jól

Meðan Íslendingar héldu Áramótin á sama tíma og Jólin er greinilegt að 1. janúar hefur verið meiriháttar veisludagur. Um Gissur Þorvaldsson segir til dæmis árið 1241 að

„hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt.“

Þar sem ekki er vitað hvenær hin fornu Jól voru haldin en þó allar líkur á því að þau hafi verið haldin einhvern tímann á tímabilinu desember og eitthvað fram í janúar hefur þessi frásögn af jólaboði Gissurar ýtt undir þá kenningu að það sem við höldum núna upp á sem Nýársdag hafi verið hin fornu Jól og það hafi verið ein af þeim ástæðum að Íslendingar tóku svo snemma upp þann sið að halda 1. janúar sem Áramót.

Þó verður að geta þess að Íslendingar notuðust við Íslenska misseristalið alveg sama hvað kirkjan sagði og Júlíanska tímatal kirkjunnar náði því eingöngu til messu- og kristinna hátíðisdaga. Þar sem ekkert bendir til að í Misseristalinu hafi verið nein áramót hefur það væntanlega ekki skipt Íslendinga miklu máli hvar þau voru sett niður, það tilheyrði kirkjutalinu á meðan fólk lifði almennt eftir Misseristalinu.

Kirkjan jafnt í Skandinavíu sem og á Íslendi reyndi að aðlaga kirkjutímatalið sem mest að hátíðum misseristalsins og voru margir dagar gerðir að messu- og frídögum eins og Sumardagurinn fyrsti þótt hann hefði enga kristna merkingu og ennþá höldum við upp á Sumardaginn fyrsta þótt hann hafi fyrir löngu síðan verið aflagður sem messudagur þá höldum við upp á hann sem almennan frídag.

Svona voru kirkjutímatalið hið Júlíanska ofið saman við Misseristalið með ýmsum hætti. Því er ekki ósennilegt að 1. janúar hafi fyrir kristni verið einhverskonar hátíðis- og veisludagur og ef svo var er það einn möguleikinn að það hafi verið hin fornu Jól. Annað sem styður þá kenningu er að allir þeir siðir og venjur sem viðhafðir voru eru eins þessa tvo daga, það er Jóladag þann 25. desember og 1. janúar. Auk þess eru þeir einnig tengdir Þrettándanum sem fyrir tímatals breytinguna árið 1700 var ekki langt frá því að vera sá dagur sem Jólin höfðu verið fyrir hana og ennþá heldur sem dæmi Austurkirkjan upp á sín Jól þann 6. janúar.

Þó er með þessa kenningu líkt og flestar aðrar um hvenær hin fornu Jól voru haldin að við höfum sára lítið eða heldur nær ekkert af heimildum til að byggja á aðrar en svona smábrot eins og nefnt er hér að ofan sem er aðeins ein málsgrein úr einni sögu. Svo enn um sinn verður sú gáta vart leyst í bráð nema finnist einhverjar nýjar heimildir sem taka af allan vafa eða styðja sterklega við eina kenningu frekar en aðra. En þangað til fögnum við nýju ári með því að sprengja það gamla upp á Gamlárskvöld á meðan okkur verður leyft það.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
Wíkipedía, Nýár
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi
▶︎ Almanaksvefurinn, Opinberir Íslenskir Fánadagar
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)