Sólmánuður

Sólmánuður einnig nefndur Selmánuður í Snorra-Eddu er þriðji sumarmánuður íslenska misseristalsins.

Hann hefst ætíð á mánudegi í 9. viku sumars í kringum Sumarsólstöður og Jónsmessu milli 18. til 24. júní en Jónsmessan þann 24. júní er forn sólstöðuhátíð.

Ef hann væri ekki bundinn við ákveðinn vikudag, það er mánudag er ekki ósennilegt að hann hefði verið bundinn sólstöðum þann 21. eða 22. júní eða fornu sólstöðuhátíðarinnar þann 24. júní þar sem þær falla alltaf innan þessa tímabils, það er milli 18. og 24. júní.

Hvort sú var hugsunin í upphafi höfum við engar heimildir um en nafn hans sem er líklega úr gamla misseristalinu frá því fyrir landnám og að sólstöður hafa ætíð skipað veglegan sess í tímatölum allt frá upphafi má leiða að því líkum að sú hafi verið hugsunin að baki tímasetningunni og nafninu.

Að misseristalið legði ekki áherslu á að ákveðnir merkisdagar þess féllu nákvæmlega á stjarnfræðileg fyrirbæri eins og Sólstöður né Jafndægur sem dæmi, heldur mjög nærri þeim, gæti annaðhvort verið vegna þess að það er grundvallað á vikutali og 30 daga mánuðum sem þó var sérsniðið fyrir það. Það er að ekki voru allar vikur þess 7 dagar og þar með ekki allar jafn langar þó voru frávikin aðeins þrjú og með þessum frávikum voru 30 daga mánuðirnir jafnframt færðir til því það var vikutalið sem réði en ekki mánaðatalið.

Frekar skipti máli að upphaf hvers mánaðar væru ætíð í sömu viku síns misseris. Sumarmisserið hefst ætíð á fimmtudegi og vikur þess taldar frá Sumardeginum fyrsta sem ennþann dag í dag er ætíð á fimmtudegi en vetrarmisseri hefst aftur á móti ætíð á laugardegi og vikur þess taldar frá honum.

Þannig er það tilviljun háð hvort mánuðir misseristalsins byrjuðu á einhverjum þessum fjórum árstíðaskiptum en þeir falla þó fast að þeim eins og Sólmánuður er ætíð fast við Sumarsólstöður.

Í tilfelli Sólmánaðar að hann hæfist ætíð á mánudegi í 9. viku sumars virðist hafa skipt meira máli en að hann hæfist nákvæmlega á Sólstöðum, það er að segja ef það var hugsunin að baki þess að hann byrjaði alltaf eins nálægt þeim og hægt var. Vegna vikutalsins þá virðist það hafa verið látið ráða svo hann hæfist alltaf í 9. viku sumars og á mánudegi. Upphafsdagur hvers misserismánaðanna eru ætíð þeir sömu þar sem hver mánuður er ætíð 30 dagar og hvort misseri fyrir sig byrjar á ákveðnum vikudegi. Svo það að Sólmánuður hefjist ætíð á mánudegi í 9. viku sumars markast að því að sumarmisserið hefst ætíð á fimmtudegi.

En um þetta er ekki vitað þar sem okkur skortir allar heimildir um aldur og uppruna misseristalsins fyrir landnám og einu heimildirnar sem við höfum eru þær sem ritaðar voru hér á landi og tengjast nær allar þeim breytingum sem Íslendingar gerðu á því til þess að rétta það af og samræma það réttu sólári sem og þeim lögum sem nefna ákveðna daga, vikur eða mánuði þess tengt ákveðnum löggerningum.

Allsstaðar annarsstaðar sem misseristalið var notað var notkun þess aflögð við kristnitöku viðkomandi landa nema á Íslandi og tekið upp hið Júlíanska tímatal enda það kirkjutal Kaþólskra. En á Íslandi lifði það áfram meðal almennings en hið Júlíanska eingöngu notað sem kirkjutal og lifði samhliða því og gerir í rauninni ennþann dag í dag að við höldum ennþá upp á hátíðisdaga þess eins og Bónda– og Konudag og Sumardaginn fyrsta sem dæmi samkvæmt misseristalinu en tímasetningar Páska og Jóla sem dæmi samkvæmt Kirkjudagatalinu.

Selmánuður

Heiti mánaða misseristalsins í Snorra-Eddu eru fæst eiginleg mánaðanöfn heldur lýsandi heiti fyrir þau verk sem vinna þurfti þá viðkomandi tíð. Selmánuður er slíkt heiti þar sem í Sólmánuði var fé flutt í sel úr heimahaga sem þurfti að létta beit af svo hægt væri að heyja heima við.

Sólmánuður aftur á móti hefst við Sólstöður sem ólíkt Selmánaðar nafninu er lýsandi fyrir árstíð en ekki verk sem þurfti að vinna. Því verður að telja að nafnið Sólmánuður sé hans eiginlegt mánaðarheiti en Selmánuður Snorra sé það ekki heldur lýsing búskaparhátta á þessum tíma árs.

Lýsing Séra Björns á sólmánuði

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780 um Sólmánuð …

… að hann væri sá tími er sól gengur um Krabbamerki. Hann byrjar á Sólstöðum og fyrst í honum fara menn á grasafjall. Um það leyti safna menn þeim jurtum sem til lækninga eru ætlaðar og lömb gelda menn nálægt Jónsmessu er færa frá viku seinna. Engi, sem maður vill tvíslá, sé nú slegið í 10. viku sumars. Vilji maður uppræta skóg skal það nú gjörast; þá vex hann ei aftur. Nú er hvannskurður bestur síðast í þessum mánuði.

Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
Rit Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) „Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn“

Þetta rit skrifaði Björn sem leiðarvísir fyrir bændur um rétta breytni í búskaparmálum. Nánast allt ritið er á samtalsformi eins og tíðkaðist um kennslubækur fyrr á tímum og þar ræða saman hinn fávísi Atli og einstaklingur sem einungis er titlaður bóndi. Atli er að stíga sín fyrstu skref í búskap og fræðir reynslumikill bóndinn hann um hvernig reka skuli gott bú.

Ritið var fyrst gefið út 1780 og þótti það gott að fyrir tilstilli Danakonungs var því útbýtt endurgjaldslaust til íslenskra bænda. Þótti ritið hin mesta skemmtun og var ekki óalgengt að lesið væri upp úr því á kvöldvökum allt fram á 19. öld.

Björn var frumkvöðull á sviði  garðrækt og jarðyrkju á Íslandi og bókin því bæði gagnleg og góð heimild um búskaparhætti á ritunartíma hennar. Því er mjög líklegt að rétt sé með farið að í byrjun Sólmánaðar sé besti tíminn til að fara á grasafjall og safna lækningarjurtum sem margt fólk hefur áhuga á og enn gert sem og að hvannarskurður sé bestur í lok Sólmánaðar.

Hvaða skógur var til á Íslandi árið 1780 sem ástæða þótti til að eyða endanlega

Athyglisvert aftur á móti að almennt er talið í dag að 1780 þegar bókin kom út hafi vart verið til nokkur skógur á Íslandi og ef einhverjar hríslur voru uppistandandi hví einhver skildi vilja fella hann til að tryggja að hann yxi ekki upp aftur.

Frekar hefði maður haldið að fyrir hvert fellt tré vildu menn fá annað enda sú Íslandssaga sem kennd er lýsir því sem einum verstu hörmungum Íslendinga að hér var engin hæfur viður í upphafi landnáms Norrænna manna til húsbygginga og fljótlega var búið að brenna mest allt sem brunnið gat til kyndingar svo notast varð við þurrkaðan mó til húshitunar. Því verður að teljast nokkuð sérstakt að Björn skuli orða þetta með þessum hætti.

Eða erum við kannski ekki með réttar hugmyndir um landsgæði og búskaparhætti á þessum tíma sem flestir virðast sjá fyrir sér sem hörmungar-og niðurlægingartímabil í sögu lands og þjóðar. Var hér kannski meiri skógur en talið er og þá það mikill að fólk tímdi að eyða skógi svo hann yxi ekki aftur.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
WíkipedíaSólmánuður
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Sólstöður
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Jónsmessa
▶︎ Wíkipedía, Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal
▶︎ Bækur.is, Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
▶︎ Bækur.is, Grasnytjar