Uppstigningardagur

Uppstigningardagur,1897
Uppstigning Krists, málverk eftir Þýska málarann Fritz von Uhde frá árinu 1897

Uppstigningardagur sem einnig hefur verið nefndur upprisudagur eða uppstigudagur er 40 dögum eftir páska eða fimmtudagurinn í fimmtu viku eftir páska og 10 dögum fyrir hvítasunnu.

Er hann helgidagur kristinna til minningar um himnaför Jesú eins og henni er lýst í Biblíunni. En þar stendur að tíu dögum fyrir hvítasunnu var hann „upp numinn til himins“ að lærisveinunum ásjáandi og „ský huldi hann sjónum þeirra“.

Minningarathöfn um himnaförina var fyrst haldin á hvítasunnu uns hún var færð yfir sinn eigin dag. Var dagurinn um tíma kallaður helga þórsdag í almanökum hér á landi en það nafn náði ekki fótfestu þar sem á þeim tíma var byrjað að nota orðið fimmtudagur í stað þórsdagur.

Tapaður frídagur

Þar sem hinir kristnu páskar eru ekki alltaf á sama tíma frá ári til árs svo numið getur 36 dögum færast jafnframt allir aðrir hátíðisdagar sem reiknaðir eru út frá páskunum til og eru kallaðar hræranlegar hátíðir og er uppstigningardagur ein af þeim.

Páskadag getur borið upp á 22. mars til 25. apríl svo uppstigningardag verandi 40 dögum síðar getur því borið upp á 30. apríl til 3. júní. Þar sem þannig vill til að verkalýðsdagurinn – 1. maí er innan þessara daga geta þessir dagar sem báðir eru lögbundnir frídagar á Íslandi lent hvor á öðrum ef páskar eru mjög snemma og fólk tapað þar einum frídegi það árið .

Eins getur skírdagur sem einnig er hræranleg hátíð og lögbundin frídagur lent á öðrum lögbundnum frídegi. Skírdag ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu 19. mars til 22. apríl og sumardaginn fyrsta ber einnig alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu 19. til 25. apríl. Því er það öfugu farið að ef páskar eru seint á ferðinni eitthvert árið geta skírdagur og sumardagurinn fyrsti lent á sama fimmtudeginum og þar með tapast einn frídagur.

Það er þó bót í máli að þetta rórill páskanna getur aldrei haft af fólki báða þessa daga sama árið þar sem um annan daginn gildir að páskar séu mjög snemma á ferðinni en hinn daginn að þeir séu seint á ferðinni.

Og eins og þetta sé ekki nóg

Þess fyrir utan geta þeir dagar sem bundnir eru ákveðnum föstum dagsetningum en eru ekki hræranlegir hátíðisdagar eins og þjóðhátíðardagurinn – 17. júní lent á laugar- eða sunnudegi en samkvæmt lögum um 40 stunda vinnuviku telst laugardagur ekki til virkra daga og allir sunnudagar eru sjálfkrafa frídagar.

Því er það ekki nóg að einhver ákveðin almanaksdagur sé lögbundin frídagur að hann sé það í praxís. Fyrir utan ofangreind möguleg frávik eru sem dæmi bæði páskadagur og hvítasunna alltaf á sunnudegi og í rauninni þegar frídagar sem slíkir. Því ekki óalgengt að almennir frídagar fólks á Íslandi séu mismargir frá ári til árs þó sjaldnast muni þar miklu.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Uppstigningardagur
▶︎ Almanak Háskólans, Helgidagar
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Hátíðardagatal íslensku þjóðkirkjunnar
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Frídagar á íslandi