Elsta heimild um Bóndadaginn, fyrsta dag Þorra er frá 1728, skrifuð og send Árna Magnússyni af Jóni Halldórssyni í Hítardal fæddum 1665. Þar nefnir hann þessa gaman og lygasögu um að á Bóndadag skyldi húsbóndinn á skyrtunni einni saman, bæði berlæraður og berfættur, en í annarri skálminni og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga þannig til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn og bjóða Þorrann velkominn.
Enginn fótur er fyrir þessari sögu, hvorki heimildir né nokkrar hliðstæður í öðrum siðum eða sögnum, svo það er augljóst að hér er á ferðinni gamansaga og hauga lygi en þó allt til gamans gert enda sagan öll hin súrrealistaska. Það hví Árni Magnússon hafi haft þessa sögu eftir í þjóðsagnasafni sínu má guð einn vita. En einu sinni á ári, á Bóndadaginn, megum við heyra þessa sögu sagða og oft framsetta eins og um sannleika sé að ræða sem hún ekki er.
Það sem við vitum með vissu um Bóndadaginn eru aðeins örfáar alþýðuheimildir frá 19. öld og eru þær allar á einn veg, sem er að ekki var neitt haldið sérstaklega upp á þennan dag, nema að víða, sem og á Konudaginn einnig, gerði fólk betur við sig í mat og drykk. Þó ekki neinn veislumatur, aðeins að dregið var fram betra og meira en að öllu jöfnu.
Sá siður að annaðkvort bóndinn eða húsfreyjan gengi kringum bæjarhúsið og biði Þorra velkominn og að ganga í bæinn, er einnig vel þekkt og hef ég meira að segja heimild um það frá 1970 en fyrir því stóð frúin á bænum fædd 1896, svo hún hefur alist upp við þann sið og viðhélt honum, svo gera má ráð fyrir því að að minnstakosti eldra fólk til sveita hafi haldið þeim sið og þá alveg eins líklega það að gera betur við sig í mat, fram eftir 20. öldinni. En ósennilega gerir nokkur þetta í dag og ef svo er sjálfsagt mjög fá og þá kannski helst fólk sem vill endurlífga gamla siði þótt þau hafi kannski ekki alist upp við þá.
Svo eru það Bóndadagsblómin
Þau eru nú ekki gamall siður og runninn undan rifjum Þórður Þorsteinsson blómasala á Sæbóli í Kópavogi en hann auglýsti í útvarpi skömmu fyrir 1980 og hvatti konur til þess að gefa bændum sínum blóm í tilefni dagsins. Hann var einnig sá sem auglýsti Konudagsblóm fyrstur manna og því sá sem kom báðum þessum ekki svo ýkja gömlu siðum á. Samtök blómaframleiðenda voru ekki sein að taka við sér sjáandi þarna mögulega góðan bisness og auglýstu í útvarpi í janúar fimmtudaginn fyrir Bóndadag 1980:
Bóndadagur er á morgun.
Örugglega metur bóndinn þá blóm.
Blómaframleiðendur.
Lítið fór þó fyrir auglýsingum í blöðum lengst af ef skoðað er á timarit.is og Bóndadagsblómin virðast hafa verið nokkuð lengi að festa sig í sessi og eru það í rauninni ekki enn. Það að gera vel í mat og drykk hefur samt að virðist viðgengist og geri enn.
Sem dæmi þá spurði DV í sínum fasta dálki „Spurning dagsins“ þriðjudaginn 24. janúar 1984 en Bóndadagurinn það árið var einmitt föstudagurinn þar á eftir, 6 konur spurningarinnar, „Gefur þú manni þínum blóm á bóndadaginn?“ Af þessum 6 konum svöruðu aðeins 2. já en 4. nei. En þótt ekki hafi verið um það spurt nefna 4. konur að þær gæfu honum gott að borða en 2. minntust ekkert á mat. DV endurtók leikinn árið 1996 og þá sögðu af þeim 6 konum sem spurðar voru 3. já, 1. stundum og 2. nei svo það hafði varla orðið nein breyting á þessum 12 árum.
Hinsvegar daginn eftir snéru þau DV fólk spurningunni við og spurðu 6 karlmenn á förnum vegi hvort þeir teldu að þeir myndu fá blóm á Bóndadaginn. Af þessum 6 sögðu 4. nei og þar af einn sem sagðist ekki vita einusinni hvað Bóndadagurinn væri, 1. sennilega og aðeins 1. sagði já. Svo þarna, árið 1996, voru Bóndadagsblóm ekki voðalega hátt skrifuð né orðin víðtækur og almennur siður.
Í dag, 2021, væri forvitnilegt að vita hversu margir „húsbændur“ [og nota bene húsbændur í dag geta verið af öllum kynjum] munu fá Bóndadagsblóm og ekki síður hvort meira verði lagt í mat á Bóndadaginn en vanalega. Svör óskast á morgun [Bóndadagurinn er í dag þegar þetta er ritað]
Svo þar höfum við það, þetta með að hoppa á öðrum fæti með brækurnar á hælunum er gamansaga og hauga lygi og Bóndadagsblómin eru runninn undan rifjum Þórður blómasala á Sæbóli í Kópavogi skömmu fyrir 1980 en virðast ekki hafa farið að festa sig almennt í sessi fyrr en upp úr aldamótunum síðustu. En það var einmitt sá sami blómasali sem byrjaði að auglýsa Konudagsblóm árið 1957 og hefur sú hefð fest sig kyrfilega í sessi og mun betur en Bóndadagsblómin. Það að gera vel við bónda sinn á Bóndadaginn í mat er eldra en auglýsingar Þórðar á Sæbóli, sennilega hægt að rekja þá hefð einhverjar aldir aftur í tímann, en áðurfyrr þá eigandi við um allt heimilisfólk ekki bara húsbóndann á heimilinu.
Svo vona ég að allir fái gott að borða í kvöld. Til hamingju með Bóndadaginn og ég vil bjóða Þorra hjartanlega velkominn og inn í mitt hús með ósk um að muni fara sem mýkstum höndum um okkur fram á Góuna.