Vetrarsólstöður eða Vetrarsólhvörf, er sú stund þegar sól fer lengst frá Miðbaug himins til suðurs og dagur því stystur hér á Norðurhveli jarðar en það gerist ætíð á bilinu 20.-23. desember. Oftast er það þann 21. desember og því festist sú dagsetning oft í höfði margra að svo sé alltaf og varð ég einmitt var við það í gær [21. desember] að margt fólk var að óska hvert öðru til hamingju með daginn.
Breytileiki dagsetninganna er fyrst og fremst vega Hlaupára og þá er líklegra að Sólhvörfin lendi á 20. desember sama ár og Hlaupár er, en 22. desember ári fyrir hlaupár og stöku sinnum þann 23. en það gerist sjaldan. Núna hittir einmitt svo á að Sólstöðurnar lenda á 22. desember en ekki sínum algengasta degi 21. desember, enda Hlaupár á næsta ári 2024.
Þetta árið 2023, hér á Íslandi úti í Ballarhafi upp undir Norðurheimskautsbaug eru Vetrarsólstöður því í dag, þann 22. desember klukkan 03:27 nákvæmlega upp á mínútu og því í myrkri nætur en ekki núna meðan sól er á lofti.
Munurinn á okkar tíma og tímasetningu Sólstöðvanna er vegna þess að Sólstöður eru miðaðar við tímann við Miðbaug og vegna veltings jarðarinnar er eðlilega ekki hádegi, það er bjartasti tími dagsins hér hjá okkur né miðnætti dimmasti tími nætur, alltaf í samræmi við nákvæma tímasetningu Sólstöðvanna. Svo það getur því verið niðdimm nótt þegar Sólstöður eru hjá okkur en ekki þegar sól er hæst á lofti.
Á þessum stysta degi ársins hér hjá okkur á Íslandi kom sólin upp Kl. 11:22 og settist 15:31 og er það miðað við suðurströndina, nákvæmlega Reykjavík. Enn dagurinn er styttri í Grímsey upp við Norðurheimskautsbauginn enda því norðar sem farið er á hnettinum verður dagurinn æ styttri á Vetrarsólstöðum.
Ástæða þess að sólaruppkoman er svona nálægt hádegi eða næstum hálf tólf en sólsetur ekki fyrr en hálf fjögur er þetta klassíska rifrildi okkar Íslendinga um klukkuna. Það er hvenær við ættum að hafa hádegi sem tengist Sólstöðum að því leiti til að tímasetning þeirra hér á landi er miðuð við þá klukku sem við notum í dag en myndi muna nokkru ef klukkunni yrði breitt þótt sjálfar Sólstöðurnar séu stjarnfræðilegt fyrirbrigði en klukkan aftur á móti bara tölur sem við mannfólkið ákveðum hvernig við viljum hafa þær.
Rifrildið okkar snýst þó ekki um tímasetningu Sólstöðvanna heldur hvort við eigum að miða við stjarnfræðilega klukku svo klukkan væri ætíð 12:00 þegar það er hádegi eða eins og núna að miða við Greenwich-miðtíma á Bretlandi eða 0 gráðu bauginn, sem er nokkuð austan við okkur sem gerir það að verkum að í dag á Vetrarsólhvörfum er sól hæst á lofti og því bjartast Kl. 13:26, svo þar munar um einum og hálfum tíma líkt og vanalega.
En hér er hvorki stund né staður til þess að rífast um klukkuna auk þess sem ég er persónulega búin að skipta um skoðun í því máli oftar en einu sinni og því ekki góður kandídat til þess að blanda mér í það rifrildi, því ég gæti átt eftir að skipta um skoðun enn og aftur. Ég hef líkt og margt annað fólk skipt um skoðun á klukkumáli okkar Íslendinga eftir því þegar einhverjar nýjar upplýsingar berast manni í hendur frá einhverjum sem maður tekur mark á.
Síðast skipti ég um skoðun þegar komst að því fáfróður að um langt skeið vorum við að halda hádegi klukkan 12:00 líkt og margt fólk vill að við höfum heldur en eins og því er háttað í dag. Þar las ég um hvernig það hafði komið til, hver reynslan var af því og hví því var aftur breitt til núverandi fyrirkomulags. Þetta voru skrif og viðtal við ritstjóra Almanaks Háskólans, Þorstein Sæmundsson sem líklega verður að telja einna manna fróðastur um slík mál út frá Stjarnfræðilegum forsendum sem og Almanaks forsendum. En nóg um það, aftur að núverandi Vetrarsólhvörfum og gleyma öllu klukkurifrildi í bili.
Hvernig eigi að meta og segja til um hversu langur eða öllu heldur stuttur þessi dagur er er umdeilanlegt. Því það er svo að við höfum tvö viðmið og þótt komin sé ákveðin hefð á hvað almennt er ritað hversu stuttur hann er þá er samt bjartara lengur. Því það birtir ávalt af degi áður en sólin kemur upp og aftur miðað við Reykjavík þá birti af degi í dag [22. desember] Kl. 10:03 og það er ekki komið myrkur aftur fyrr en Kl. 16:49. Svo hvort stysti dagur ársins skuli talinn vera frá því að birtir af degi, sem er það sem við finnum meira fyrir svona prívat, eða þegar sólin kemur upp, því byrtan eykst óskaplega lítið við sólarupprás en þar sem sólin er svo lágt á lofti í svartasta skammdeginu, þá finnum við helst fyrir sólaruppkomunni að ef ekki er skýjað þá getur hún blindað ökumenn við akstur sem bæði er verulega óþægilegt og bíður hættunni heim að verði frekar árekstrar þegar akstursskilyrði eru svo slæm.
Svo að á stysta degi ársins eru engan veginn allir sem fagna sólaruppkomunni en allir fagna því að byrtir að degi. Enda upplifun okkar af leng dagsins er frá því að birtir þangað til að komið er myrkur svo þegar sagt er að þessi stysti dagur ársins sé bara rétt rúmlega 4 Kl. þá finnst flestum það hálf skrítið og finnst dagurinn vera nokkuð lengri en svo þar sem það er bjart mun lengur.
En það er líka þannig að til eru einar fjórar skilgreiningar algengastar á því hvað sé dagur og sambærilegar um hvað skuli teljast vera nótt, og eru þetta tvær þeirra skilgreininga á hvað sé dagur. Það er frá sólaruppkomu til sólseturs og hins vegar frá því byrtir af degi til myrkurs.
Hinum tvem sleppi ég að skrifa um hér því þær skilgreiningar snerta okkur ekki á þessum Vetrarsólstöðudegi, þann 22. desember, en ekki 21. eins og sumt fólk taldi og voru nákvæmar Sólstöður fyrir rúmlega 12 tímum síðan þegar þetta er skrifað, eða í nótt Kl. 03:27 svo daginn er strax byrjað að lengja, um að vísu bara svona mínútu á dag, en þetta kemur 🙂
Gleðilega sólarhátíð
Bragi Halldórsson