Í dag hefst nýr Tunglmánuður með fæðingu nýs tungls og í þetta sinnið er það Vetrartunglið.
En Vetrartungl nefnist það nýtt tungl, það er fæðing þess tunglmánaðar, sem er tvem tunglmánuðum á undan Jólatungli.
Það fæðist í dag, þann 14. október klukkan 17:55 og er það slétt tvem vikum fyrir Fyrsta vetrardag og upphaf vetrarmisseris en Vetrartunglið kviknar alltaf í kringum komu vetrar eins og nafn þess ber með sér.
Fyrsti vetrardagur er þó rúmri viku seinna á ferðinni þetta árið sökum þess að árið í ár 2023 er Sumaraukaár. En þau ár er einni viku skotið inn í sumarið eftir Aukanætur og ber sú vika hið viðeigandi nafn Sumarauki, því við það verður Sumarmisserið eðlilega einni viku lengra en vanalega eða 27 vikur í stað 26. Er Sumaraukinn einskonar Hlaupárs afstemming Misseristalsins og bætt inn í Sumarmisserið á 5 eða 6 ára fresti.
Við það færast misseris mánuðirnir þar á eftir fram um eina viku frá og með Heyönnum sem hefst þeirra fyrstur að Sumarauka loknum og allt fram til Góu eða fram yfir okkar Hlaupársdag sem er á næsta ári.
Því til viðbótar er í ár einnig Rímspillisár en á slíkum árum sem einungis eru á um 28 ára millibili færast misserismánuðirnir um dag meir en eina viku en meiri breyting á hvenær þeir hefjast er aldrei nema á Rímspillisárum. Þó er það einungis um að ræða einn dag meira en sem nemur Sumarauka vikunni.
Svo Gormánuður er viku seinna og einum degi betur á ferðinni en hann er vanalega annars hefði Vetrartunglið fæðst aðeins einni viku fyrir Fyrsta vetrardag.