Fyrsti apríl er haldin víða um heim sem hrekkjadagur. Líklegast er talið að rekja megi uppruna hans til miðalda í Evrópu.
Þá var þar haldið upp áramót þann 25. mars og gömul hefð er að allar stórhátíðir ættu sér áttund, það er hátíðisdag átta dögum síðar og oft með tilheyrandi átta daga hátíðarhöldum og 1. apríl var einmitt áttund þessara gömlu áramóta.
Þegar áramótin voru færð frá 25. mars til 1. janúar þá stóð 1. apríl eftir sem hrekkjadagur þótt ekki væri hann áttund lengur en almenningur vildi halda í þau ærsl sem þessum degi hafði fylgt. Það passaði líka vel þar sem við tilflutning nýárshátíðar kirkjunnar sem áttund af 25. desember var fyrsti apríl sviptur allri trúarlegri helgi og því hægt að gera sér ærlega glaðan dag að veraldlegum sið án þess að styggja kirkjunnar herra.
Fyrsti apríl á Íslandi
Staðfestar heimildir um hrekki og gabb siði á Íslandi eru til frá síðari hluta 19. aldar en þó er vitað að tíðkaðist að rita svokölluð aprílbréf á 17. öld. Árni Magnússon handritasafnari getur þeirrar venju og til er gamankvæði eftir Jón Þorláksson á Bægisá, „Fyrsti aprílis“, þar sem hann nefnir einmitt að hlaupa apríl en svo hefur aprílgabb verið kallað hérlendis.
Elsta aprílgabbið sem vitað er um í íslenskum fjölmiðli er frá 1957. Þá lugu fréttamenn Ríkisútvarpsins að fljótaskip sigldi á Ölfusá á leið til Selfoss og var henni lýst í beinni útsendingu í útvarpi. Erfiðara er í dag fyrir fjölmiðla að plata fólk til að hlaupa fyrsta apríl þar sem flestallir muna vel hvaða dagur er.
Meðal almennings og þá oftast á heimilum er reglan sú að reyna að plata einhvern á þann veg að viðkomandi stigi yfir þröskuld svo þeir hrekkir eru mun viðaminni en í fjölmiðlum en ekkert síður skemmtilegir. Margir hálfsofandi foreldrar hafa arkað yfir þröskuld milli herbergja eftir undarlegustu skipunum og spurningum barna sinni að morgni fyrsta apríl þegar líklegast er að þau muni ekki hvaða dagur er. „Hí, hí, fyrsti apríl!“ er þá það sem almennt viðkomandi fær að heyra að baki sér hafi hrekkurinn tekist.
En hvað er smá grín á milli vina svo fremi sem saklaust er og ekki spillir fyrir ef sem allra flestir taka þátt? Svo ósennilegt verður að teljast að þessi siður muni leggjast af í bráð þótt hann sé löngu hættur að vera áttund gömlu áramóta Rómverja þann 25. mars. og þar með uppruni hans löngu gleymdur.
▶︎ Nánar um hrekkjadaginn fyrsta apríl á Íslenska Almanaksvefnum