Í dag er vorjafndægur og bæði Snorri Sturluson og Lóan sammála um að nú sé þá komið vor þótt veðurguðirnir virðist ekki alveg vera þeim Snorra og Lóunni sammála

Jafndægur er sú stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar og gerist það tvisvar á ári á vorjafndægri á tímabilinu 19.-21. mars og á haustjafndægri 21.-24. september.

Um þetta leyti er dagur og nótt álíka löng hvar sem er á jörðinni og af því er nafnið dregið en breytileiki dagsetninganna stafar aðallega af hlaupárum.

Þetta árið, 2020 er jafndægur á vor í dag 20. mars nákvæmlega klukkan 03:50 liðna nótt að okkar tíma og því fer daginn að lengja og myrkrið að hopa fram að sumarsólstöðum þegar dagurinn er lengstur hér á norðurhveli jarðar sem þetta árið eru 20. Júní kl. 21:44.

Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir að vor sé frá jafndægri að vori til fardaga en þá taki við sumar til jafndægris á hausti. Vorið nær því samkvæmt því frá á bilinu 19. til 21 mars og fram að fardögum sem voru á fimmtudegi í 7. viku sumars eða á bilinu 31. maí til 6. júní en þá hefst sumar sem endar á jafndægrum að hausti um 21.-24. September.

Þessu er okkar stundvísi vorboði Lóan sammála en hún kemur nær alltaf til landsins nærri vorjafndægrum og samkvæmt Fuglaathugunarstöð Suðausturlands sem heldur uppi greinargóðri upplýsingagjöf um fugla hér á landi heyrðist fyrst í henni fyrir sex dögum en hún sást fyrst þann 15. eða fyrir 5 dögum svo hún og Snorri eru vel samstíga og sammála um vorkomuna þetta árið.

En spáin er köld, svo vetur kyssir vorið blautum köldum kossi þetta árið.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Jafndægur
▶︎ Stjörnufræðivefurinn, Jafndægur

Tengt efni
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Sólstöður
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Fardagar

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.