Dagatalið á forsíðu Almanaksins er komið í lag og birtast almanaksdagar þess nú allir á sínum stað. Biluninn varði því aðeins í um einn sólarhring.
Það var ekki mér sem tókst að laga þetta, heldur var dagatalið bara komið aftur eins og það á að vera án þess að ég gerði neitt, rétt eins og það hvarf.
Það hefur staðið til að flytja almanakið í þriðja sinn og þá frá ókeypis hýsingu erlendis þar sem möguleikarnir á því að þróa það nánar og bæta það bæði útlits- og tæknilega, þar sem vefurinn sjálfur hefur vaxið mjög og æ meira um það að hann sé heimsóttur af fólki sem ekki er að nota dagatals viðbótina og því langar mig til þess að vefurinn sé betri bæði útlitslega en ekki síst tæknilega, svo allt ferðalag um hann sé einfaldara og skýrara sem og möguleikar á því að bæta við fleiri sérhæfðum dagatölum sem almennt eru í almanökum, eins og sér dagatali fyrir nákvæmari göngu tunglsins, sólaruppkomu og sólsetur, flóð og fjöru og fleiri slíkar almennar almanaksupplýsingar.
Það væri að æra óstöðugan að hafa allar þessar upplýsingar í einu og sama dagatalinu auk þess sem fólk hefði þá ekki val um að hlaða inn einungis núverandi almanaki heldur kæmi öll súpan inn eða ekkert. Svo eðlilegast er að hvert dagatal hefði sína sér síðu, flóð og fjara sér, sólargangur sér og svo framvegis.
Einnig hef ég verið sem dæmi að skoða ræktunar almanök, sem þó eru flest erlend og vinna í því að geta verið með slíkt sem endurspeglaði íslenskar aðstæður. Mjög skemmtilegt og fróðlegt Sáðalmanak er að finna á vefnum natturan.is þar sem sjá má eina útgáfu slíks almanaks en ég er að vinna að öðruvísi framsetningu og þá sérstaklega þannig að hægt sé einnig að hlaða því inn í sitt eigið tölvudagatal sem krefst allt öðruvísi nálgunar en Sáðalmanakið á natturan.is er þótt efnislega innihaldi það samskonar upplýsingar, það er að þær miðist við íslenskar aðstæður, en sáðalmanakið á natturan.is gerir einmitt það.
Þessi bilun hér á þessum vef í gær ýtti við mér og mun ég því stofna nýjan vef sem þó virkar að öllu leiti eins og þessi vefur hér gerir. Ég mun eingöngu afrita þennan vef í heilu lagi og færa yfir á sitt eigið lén hér heima sem ég kaupi og greiði fyrir en þar með öðlast ég jafnframt vald yfir allri tæknilegri stjórn hans.
Eins skoðaði ég í gær á meðan dagatalið lá niðri hvaða möguleikar bjóðast hjá Google til þess að þetta gerist (helst) ekki aftur og eins hvaða möguleika aðra ég hef á því að auka og bæta bæði þetta dagatal plús bæta við nýjum möguleikum og hvort ég gæti ekki ráðið meiru um framsetningu þess, því eins og þau ykkar sem þennan vef skoðið í síma þá kemur dagatalið á forsíðunni sem dæmi alls ekki vel út. Ég fann út úr því að ég get þetta en þá verð ég líka að kaupa þá þjónustu af Google.
Svo nú er því komið að þeim vendipunkti hjá mér að í stað þess að hafa í gegnum árin unnið ómældar vinnustundir í sjálfboðavinnu við smíði þessa „litla“ almanaks (eða það var upphaflega aðeins hugsað sem slíkt) og skrifa á íslensku wíkipedíuna að nú er það orðið það stórt, plús að ég vil stækka það og auka enn meir að ég þarf líka að fara að kosta til einhverja auri á hverju ári.
En hafi maður eitthvað áhugamál sem á manni brennur þá er það nú mjög sjaldgæft að það kosti mann ekkert í peningum svo ég greiði þetta með glöðu geði ef það mun allt standast sem ég las mér til um í gær og þá auknu möguleika sem kaup á þessari þjónustu munu veita.
En ekkert af þessu mun nú ske á einum degi enda þetta „litla“ almanak mitt áhugamál og hobbí sem ég vinn í frítíma mínum og á meðan að ekkert af þeirri vinnu sem ég er þegar búinn að leggja í það tapist né að þessi breyting muni nokkru breyta fyrir þau ykkar sem almanakið nota, þá mun ég ráðast í þessa fjárfestingu núna.
En nóg í bili. Þetta átti nú ekki að vera svona langur póstur, bara tilkynning um að forsíðu dagatalið væri aftur farið að virka eins og það á að gera.
Ég mun pósta síðar þeim breytingum sem ég mun gera við það að flytja Almanakið á sinn eiginn vefþjón plús að kaupa þessa þjónustu af Google en það er síðari tíma ella því ég mun gera þetta allt saman hægt og bítandi eins og tími minn leifir og tryggja að þetta muni engu breyta fyrir notendur annað en að þegar nýr vefur verður tilbúinn muni þar verða hægt að fá mun meiri upplýsingar og fleiri möguleika á því að nota og nýta sér almanakið. Annaðhvort með því að skoða þær á vefnum eða að hlaða þeim inn í sitt eigið tölvu dagatal.
Bragi Halldórsson
grúskari 🙂