Annar í Páskum

Annar í Páskum mánudagurinn eftir Páskadag er Almennur frídagur á Íslandi.

Fram til ársins 1770 var Þriðji í páskum einnig Almennur frídagur en það ár var hann afhelgaður og afnuminn sem frídagur. Eins var með Þriðja í Jólum og Þriðja í Hvítasunnu sem einnig höfðu verið helgi- og frídagur.

Var þetta liður í því að samræma helgi- og frídagalög í öllu Danaveldi og fækka almennum frídögum í leiðinni. Áður höfðu þessar þrjár stórhátíðir kirkjunnar verið í Kaþólskum sið Þríheilagar, það er þrír helgi og frídagar en með nýju lögunum voru þær gerðar Tvíheilagar og því aðeins haldið í Annar í Páskum, Jólum og Hvítasunnu og eru það þannig enn í dag.

En á Þjóðveldisöld voru þessar hátíðir ennmeiri því þær voru hvorki meira né minna en Fjórheilagar. Í Kristinna laga þætti Grágásar lögbókar Íslenska Þjóðveldisins segir meðal annars um Páska.

„Páskahelgi eigum við að halda. Það eru dagar fjórir. Páskadag hinn fyrsta skal halda sem jóladag hinn fyrsta en annann og hinn þriðja og hinn fjórða skal halda sem drottinsdag.“

Drottinsdagur var þess tíma sunnudagur og því frídagur þó ekki að öllu leiti enda ekki hægt að sleppa undan því að þurfa að sinna búsmala og rétt eins og ætíð hefur verið þarf að mjólka kýr kvölds og morgna hvað set tautar og raular. Því var sér kafla, þeim 19 í Kristinna laga þætti Grágásar, tíundað hvað mætti gera á Drottinsdegi. Eða eins og kaflin hefst.

“Vér skulum halda drottinsdag hinn sjöunda hvern svo að þá skal ekki vinna nema það er nú mun eg telja: …“

Því voru í praxís þrír sunnudagar á Þjóðveldisöld eftir sjálfan Páskadag sem var öllu heilagri og nær öll verk bönnuð önnur en alnauðsynlegasta umhirða búfjár og ef upp kom nauð eins og kviknaði í húsum sem og ef feng rak, eins og hvalstrand eða rekavið, þá mátti slíku bjarga enda mikið í húfi.

Kaþólska kirkjan feldi seinna meir niður þann Fjórða í og síðan eftir Siðaskiptin með ofangreindum lögum Danakonungs einnig Þriðja í. Frídögum fólks um þessar þrjár hátíðir fækkaði því um heila sex daga á þessum öldum frá Þjóðveldisöld til 1770.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎
Wíkipedía, Annar í páskum
▶︎ Almanaksvefurinn, Páskadagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi
▶︎ Vísindavefurinn, Hverjir eru helstu hátíðisdagar kirkjuársins og hvað gerðist á þeim?
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)