Harpa er fyrsti sumarmánuður Íslenska misseristalinu og markar því upphaf sumarmisserisins en Íslenska misseristalið skiptist í tvö misseri vetrar- og sumarmisseri sem saman samsvara einu ári í núverandi tímatali okkar.
Hún hefst ætíð á fimmtudegi þeim fyrsta eftir 18. apríl á tímabilinu frá 19.-25. apríl. Þar sem Harpa kemur á eftir Einmánuði síðasta mánuði vetrarmisserisins og því síðasti dagur hans Síðasti vetrardagur er fyrsti dagur Hörpu haldinn hátíðlegur sem Sumardagurinn fyrsti.
Af þeim hátíðisdögum misseristalsins sem haldið er upp á er Sumardagurinn fyrsti líklega sá sem mesta tilstand er við haft og sumri fagnað með með ýmsum hætti og sýnir það hug Íslendinga til upphafs Hörpu að hann er opinber frídagur.
Eins er fyrsti dagur hörpu nefndur Yngismeyjardagur og þeim helgaður. Líku er farið með fyrsta dag einmánaðar að hann er helgaður sveinum og ýmist nefndur Yngismannadagur eða Yngissveinadagur.
Heimildir um mánaðarnafnið Harpa
Elstu heimildum um mánaðanöfn misseristalsins eru annars vegar í Bókarbót frá 12. öld og Snorra-Eddu frá 13. öld en þar er Hörpu ekki getið. Aðeins í Snorra-Eddu eru allir mánuðirnir með nöfn þótt í dag sé almennt talið að um heiti árstíðabundinna verka og veðurs sé að ræða en ekki eiginleg mánaðanöfn. Þar er fyrsti mánuður sumars nefndur Gaukmánuður. Að vísu eru ekki nema fjögur nöfn sameiginleg í þessum heimildum en það eru, Gormánuður, Þorri, Gói og Einmánuður. Þrjú þau síðastnefndu koma einnig fyrir í fleiri handritum.
Fleiri nöfn finnast í rímnahandritum frá 17. öld en aðeins tvö þeirra náðu einhverri fótfestu en það voru fyrstu tveir mánuðir sumars Harpa og Skerpla. Ekki er vitað hvernig þau nöfn komu til né hvað þau merktu. Hugsanlega vísar nafnið harpa til skáldlegrar hörpu vorsins en á 17. öld voru vor oft vond og mikill fellir fjár og gæti nöfnin Harpa því frekar verið skylt herpingi og Skerpla skerpu og hvort tveggja merkt hörku.
Að minnsta kosti er viðmóti mánaðarins þannig lýst í viðlagi í handriti frá 18. öld:
- Harpa bar snjóa
hauðrið á allt
heylausir óa
við henni snjallt.
Þó seint komi lóa
samt er vor kalt.
Lík lýsing kemur fram í vísu eftir ókunnan höfund:
- Harpa skúmhvít skyrpir
skarpleit hún harpa
harpa snöggt gaf harpa
snarpan byl gaf harpa.
Harpa gekk nær görpum
garp hvern mæddi harpa
harpa kvið lét korpna
karphús grátt bar harpa.
Þegar komið er fram á 19.öld og rómantíkin allsráðandi virðist Harpa verða æ meir persónugervingur vorsins og velkomin. Farið var að kalla hana dóttur Þorra og Góu en elsta dæmi þess að þau væru hjón en ekki feðgin er frá um 1820 og kemur það fram í eftirfarandi húsgangi:
- Þorri og Góa grálynd hjú
gátu son og dóttur eina:
Einmánuð sem bætti ei bú
og blíða Hörpu að sjá og reyna.
Hátíð í upphafi Hörpu
Hátíðir í sumarbyrjun eru áreiðanlega mjög gamlar þótt ekki séu margar öruggar heimildir til um þær. Í Ynglinga sögu er getið um Sumarblót í ríki Óðins konungs og í Egils sögu og Ólafs sögu helga er minnst á Sumarblót bænda í Noregi. Adam frá Brimum lýsir á 11. öld höfuðblóti Svía um vorjafndægur í Uppsölum. Um Sumarblót á Íslandi sést einungis getið í Vatnsdæla sögu en þar virðist ekki vera verið að lýsa almennri venju enda tekið fram að um einkablót Ljót á Hrolleifsstöðum.
Örugg heimild um sumarglaðning sést ekki fyrr en í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar nefna þeir Sumardaginn fyrsta sérstaklega sem sumarhátíð þar sem fólk gerði vel við sig í mat og drykk. Um miðja 19. öld þegar skipulega er byrjað að safna alþýðu heimildum kemur fram að Sumardagurinn fyrsti hafi verið mesta hátíð næst á eftir Jólunum. Sumargjafir hafa því sennilega tíðkast lengi á og kringum upphaf Hörpu og Sumardaginn fyrsta.
Í seinni tíð hefur skátahreyfingin haldið uppi hátíð á þessum degi með skátamessum og skrúðgöngum. Einnig hefur það færst í vöxt að bæjarfélög haldi ýmiskonar hátíðarhöld, oftast fyrir börn og á stærri stöðum eins og Reykjavík er þeim skipt niður og haldnar hverfishátíðir.
Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Harpa
▶︎ Almanaksvefurinn, Sumardagurinn fyrsti
▶︎ Almanaksvefurinn, Yngismeyjardagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Yngismannadagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi
▶︎ Vísindavefurinn, Trausti JónssonHvenær er sumardagurinn fyrsti og er hann vel valinn sem upphaf sumarsins?
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)