Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu, fyrsta mánaðar og upphaf sumarmisseris Íslenska misseristalsins og ber þetta nafn af þeim sökum. Hann ber líkt og harpa ætíð upp á fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl á tímabilinu frá 19.-25. apríl. Hann er einnig nefndur Yngismeyjardagur og þeim helgaður. Hann var gerður að Almennum frídegi árið 1971 og er einnig Opinber fánadagur.

Sumardagurinn fyrsti var lengi messudagur í Kaþólskri tíð hérlendis og lengur eða allt til 1744 þótt komið væri fram yfir Siðaskipti. Var hann það hvergi annarstaðar en hér á landi svo Danakonungur bannaði slíkt þótt landsmenn hafi haldið áfram að halda upp á daginn þótt engin væri messan. Líku var farið með fleiri slíka daga og hugsanlega hefur það verið vegna þess að þótt kallaður væri Kaþólskur messudagur var raunverulega verið að halda upp á sumarkomuna enda misseristalið ríkjandi á Íslandi þótt kirkjan notaðist við fyrst það Júlíanska einnig nefnt Gamla stíl allt til aldamótanna 1700 og hið Gregoríska eða Nýja stíl eftir það og gerum við það en.

Veðurtrú tengd sumardeginum fyrsta

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt Sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna – hátíðir og merkisdagar (bls. 50, 2. útg., 1977) eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing segir svo um Sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Hvað átt er við með góðu sumri í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.

Hátíðir á Sumardaginn fyrsta áður fyrr

Hátíðir í sumarbyrjun eru áreiðanlega mjög gamlar þótt ekki séu margar öruggar heimildir til um þær. Í Ynglinga sögu er getið um Sumarblót í ríki Óðins konungs og í Egils sögu og Ólafs sögu Helga er minnst á sumarblót bænda í Noregi. Adam frá Brimum lýsir á 11. öld Höfuðblóti Svía um Vorjafndægur í Uppsölum. Um sumarblót á Íslandi sést einungis getið í Vatnsdæla sögu en þar virðist ekki vera verið að lýsa almennri venju enda tekið fram að um einkablót Ljót á Hrolleifsstöðum hafi verið að ræða.

Örugg heimild um sumargleði sést ekki fyrr en í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar nefna þeir sumardaginn fyrsta sérstaklega sem sumarhátíð þar sem fólk gerði vel við sig í mat og drykk og gefnar sumargjafir.

Einnig var hann frídagur frá almennri vinnu þótt lögleiðing hans sem almenns frídags hafi ekki verið komið á fyrr en mörgum öldum seinna eða á síðustu öld. Sem dæmi um gleðskap sem kannski er uppruni þess að hátíðarhöld í dag haldin á þessum degi eru fyrst og fremst sniðin að börnum var að áður fyrr leyfðist krökkum að fara á milli bæja og leika sér við krakka þar.

Um miðja 19. öld þegar skipulega var byrjað að safna alþýðu heimildum kom fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið mesta hátíð næst á eftir Jólum. Sumargjafir hafa tíðkast lengi því vitað er að þær tíðkuðust að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir komu til sögunnar en jólagjafir eru ekki svo ýkja gamall siður ólíkt því sem margir halda. Margir héldu í þann sið að gefa sumargjafir langt fram eftir 20. öld samhliða jólagjöfum. Þó virðist sem þær hafi nokkuð breyst hvað varðar hvað var gefið og þá frekar kannski ein en stærri gjöf sem oftast tengdist sumrinu. Það gat verið veiðistöng, útilegutjald, leikföng til útileikja eins og boltar og krokket  eða annað slíkt sem fyrst og fremst eða eingöngu er brúkað á sumrin. En þá oftast nær þá aðeins ein gjöf og sem gat á margmennum heimilum nýst öllum.

Ennþá eimir eftir af þessum sið. Sérstaklega meðal þeirra sem ólust upp við hann seint á síðustu öld og muna hve ánægjulegar þessar gjafir voru og það fólk gefur börnum sínum eða barnabörnum ennþá sumargjafir. Hvort þessi siður muni leggjast af núna þegar velmegun þjóðarinnar er orðin það mikil að erfitt og dýrt getur reynst að toppa allt það sem til er í geymslum heimila og bíður þess að sumarið komi svo hægt sé að nota það á eftir að koma í ljós.

Annaðhvort yrði það þá sennilega með þeim hætti að færi að tíðkast að slíkt væri keypt, hvort sem það væri fyrir alla fjölskylduna eða börnin sérstaklega og ekki dregið fram fyrr en á þessum degi. Eða sem líklegra verður að teljast eins og um svo marga árstíðabundna eða dagatengda siði sem tíðkast í dag að kaupmenn myndu fara að auglýsa sérstaklega fyrir þennan dag sumarvörur á kostakjörum undir nafninu sumargjafir. Þannig var það með konudagsblómin sem og bolludagsbolluna að báðir þeir siðir eru komnir frá kaupmönnum.

Hátíðir á Sumardaginn fyrsta í dag

Upp úr aldamótunum 1900 varð Sumardagurinn fyrsti helsti hátíðisdagur ungmennafélagann sem skátahrifingin seinna tók síðan við. Var dagurinn gerður að sérstökum stuðningsdegi fyrir börn í Reykjavík árið 1921 og lengi eftir það oft nefndur Barnadagurinn svo það er kannski ekkert skrítið að hátíðarhöld á þessum degi í dag skuli fyrst og fremst vera útihátíð fyrir þau.

Í seinni tíð hefur skátahreyfingin haldið uppi hátíð á þessum degi með skátamessum og skrúðgöngum. Einnig halda bæjarfélög fjölskyldu útihátíðarhöld með áherslu fyrst og fremst á börn og unglinga. Með leiktækjum og ýmsum uppákomum um daginn en unglingadansleikjum seinnipartinn eða um kvöldið.

Á stærri stöðum eins og Reykjavík er svo mikið fjölmenni á slíkum hátíðum að þeim hefur verið skipt niður og haldnar nokkrar hverfishátíðir en í minni sveitarfélögum sameinast allir um eina hátíð enda eru sumarhátíðir með allra fjölmennustu hátíðum hérlendis. Komast þær sennilega næst því að vera álíka fjölmennar og hátíðarhöld á 17. júní.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Sumardagurinn fyrsti
▶︎ Almanaksvefurinn, Yngismeyjardagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Harpa
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi
▶︎ Almanaksvefurinn, Opinberir Íslenskir fánadagar
▶︎ Vísindavefurinn, Árni Björnsson Af hverju er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur?
▶︎ Vísindavefurinn, Trausti Jónsson Hvenær er sumardagurinn fyrsti og er hann vel valinn sem upphaf sumarsins?
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)