Jafndægur er sú stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar. Þetta gerist tvisvar á ári á Vorjafndægri á tímabilinu 19.-21. mars og á Haustjafndægri 21.-24. september.
Um þetta leyti er dagur og nótt álíka löng hvar sem er á jörðinni og af því er nafnið dregið. Breytileiki dagsetninganna stafar aðallega af hlaupárum.
Orðsifjar
Orðið Jafndægur hét í fornu máli Jafndægrishringur og notuð voru orðin og orðasamböndin Vorjafndægur, Vorjafndægri, Jafndægur á vori og Jafndægri á vori. Hinsvegar að hausti Haustjafndægur, Haustjafndægri, Jafndægur á hausti eða Jafndægri á hausti. Orðið Jafndægur er til í skyldum málum. Í dönsku er til dæmis talað um jævndøgn. Í ensku er talað um equinox sem leitt er af latneska orðinu aeqvinoctium af aeqvus: jafn og -noctium sem leitt er af nox: nótt.
Áramóta og árstíðaskipti
Í mörgum fornum menningar samfélögum var upphafsdagur ársins oft ýmist miðaður við Vor- eða Haustjafndægur sem og Vetrar– eða Sumarsólstöður enda marka þessi tímamót hvert fyrir sig ákveðin árstíðaskipti náttúrunnar svo eðlilegt var að miða við eitthvert þeirra.
Dæmi um notkun jafndægra sem árstíðaskipta hér á landi þá segir um vorið í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu að það sé frá Jafndægri að vori til Fardaga en þá taki við sumar til Jafndægris á hausti. Vorið nær því samkvæmt því frá 19. til 21 mars og fram að Fardögum sem voru á fimmtudegi í 7. viku sumars eða á bilinu 31. maí til 6. júní en þá hefst sumar sem endar á Jafndægrum að hausti um 21.-24. September.
Engin eiginleg áramót eru í Íslenska misseristalinu en hvoru misseri fyrir sig fagnað sérstaklega. Vetrarmisseris fagnað Fyrsta vetrardag og sumarmisseris Sumardaginn fyrsta líkt og við gerum en í dag.
Misseristalið skipti árinu í tvo nokkurnveginn jafnstóra helminga, vetrar- og sumarmisseri en hvorki vor né haust voru talin þar með, þótt þau ættu sér tímasetningar eins og fram kemur í Snorra-Eddu, þá tilheyrðu þau hvorugu misserinu sérstaklega.
Til dæmis nær vor eins og Snorri kallar það yfir rétt rúmlega síðasta mánuð vetrar og fyrsta einn og hálfan mánuð sumars. Því var ekki um skýr skil milli árstíða líkt og við í dag skiptum árinu upp í fjórar árstíðir sem hver tekur við af annari og engin skörun þeirra á milli.
Því bendir ekkert til þess að í hinum Norræna og Norður-Germanska heimi þaðan sem misseristalið er komið hafi verið miðað við Jafndægur sem stór tímamót á við áramót eins og við höldum upp á slík í dag, þar sem hjá okkur er árið einn heill hringur með einum tímamótum milli ára á meðan Norrænar og Norður-Germanskar þjóðir notuðust við tvö tímabil þar sem hvorugt þeirra kom á undan hinu svo þær héldu upp á tvö sambærileg tímamót við upphaf hvors misseris en hvorugt þeirra hófst á Jafndægrum.
Sumarmisserið hófst Sumardaginn fyrsta fyrsta dag Hörpu sem í núverandi tímatali okkar getur fallið á 19. til 25. apríl. Það munar því um mánuði á Sumardeginum fyrsta og Vorjafndægrum og gildir það sama um Fyrsta vetrardag upphafsdag vetrarmisseris. Eftir sem áður hófst árstíðin vor samkvæmt Snorra-Eddu í upphafi síðasta mánaðar vetrarmisseris þótt vetri væri ekki formlega lokið.
Dagsetningar Jafndægra á næstu árum
Vorjafndægur
- 2023 – 20. mars – kl. 21:24
- 2024 – 20. mars – kl. 15:33
- 2025 – 20. mars – kl. 09:01
Haustjafndægur
- 2023 – 23. september – kl. 06:50
- 2024 – 22. september – kl. 12:44
- 2025 – 22. september – kl. 18:19
Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Jafndægur
▶︎ Stjörnufræðivefurinn, Jafndægur
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)
Skylt efni
▶︎ Almanaksvefurinn, Sólstöður