Ekki eru allir Þrettándaelda kulnaðir

Hérlendis hefur þrettándinn öðru fremur verið lokadagur Jóla en eftir tímatals breytinguna árið 1700 munaði ekki miklu að hann bæri upp á sama dag og Jólin hefðu annars byrjað samkvæmt gamla Júlíanska tímatalinu.

Íslendingar undu því illa að færa jólin til með þessarri tímatalsbreytingu og var til dæmis í fyrsta almanakinu eftir tímatalsbreytinguna sem Jón Árnason skálholtsbiskup gaf út 1707 merkt við 5. janúar sem Jóladagurinn gamli og var hann alveg fram um 1900 kallaður Gömlu Jólin.

Á mbl.is í dag er upptalning á Þrettándabrennum um allt land og virðast þær samkvæmt því langt í frá vera alkulnaðar þótt þær séu ekki jafn margar og um Áramót.

Vestmannaeyingur eru þau einu sem virkilega halda upp á Þrettándann með Tröllum, Púkum, Jólasveinum, flugeldasýningu og veglegum bálkesti og blysför. Ég minnist þess sem krakki um 1970 á Akureyri að þá tíðkaðist ennþá svona almennilegur Þorláksmessu fagnaður með öllu tilheyrandi en ekki man ég né veit hvenær það lagðist af.

Mér er að skiljast á þeim sem ég hef spurt að sjaldgæft sé orðið að sjá Púka og aðrar verur dansa kringum Þrettándaelda. Nú orðið eru þetta nær eingöngu brennur og tilefni til þess að skjóta upp síðustu flugeldunum en engin sýning eða dagskrá lengur.

Nema í Vestmannaeyjum. Þau klikka ekki á því að halda almennilegar hátíðir líkt og Þjóðhátíðina um Verslunarmannahelgina og eins er það með Þrettándann að þau virðast vera þau einu eftir sem gera þetta með einhverjum bravúr en annarstaðar þar sem það tíðkaðist hefur það lagst af.

Þennan sið hafa þau haldið allt frá því snemma á tuttugustu öld en í gömlum blöðum má finna auglýsingar um blysfarir og Þrettándagleði með dagskrá og tilheyrandi kynjaverum frá þeim sama tíma víðar en engin önnur en þau hafa haldið þessum sið við sem þau hafa gert nánast samfellt í um hundrað ár og sjaldan verið messufall.

Sá ruglingur sem tímatalsbreytingin árið 1700 olli, kann að valda því að sagnir, þjóðtrú og siðir um Þrettándann, Jól og Nýársnótt svipar oft saman.

Sagnir eins og að kýr öðlist mannamál, selir kasti hamnum að gott sé að sitja á krossgötum, leita spásagna og um vistaskipti Huldufólks.

Svo ef engin Þrettándagleði né brenna sé er í þinni heimabyggð, já og líka þótt svo sé, má alltaf bregða sér af bæ og setjast stundarkorn á krossgötur í myrkrinu með fallegt fullt tunglið í Krabbamerkinu yfir þér og hver veit nema þú verðir þess vart að fleira sé á stjái en augu þín sjá eða eyru þín nema.

En þá er bara að muna eftir að flaska ekki á því fornmælta „sjaldan hef ég flotinu neitað,“ heldur aðeins sitja í þögn og kyrrð kvölds eða nætur og hver veit hvað gæti gerst.

Nánar um Þrettándann á Vefalmanakinu.

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.