Nákvæmlega 21:48 21.12 2022 eru Vetrarsólstöður á Íslandi þetta árið

Vetrarsólstöður eða Vetrarsólhvörf er sú stund þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til suðurs og dagur því stystur á Norðurhveli jarðar. Þetta árið, 2022 hér á Íslandi úti í Ballarhafi upp undir Norðurheimskautsbaug eru Vetrarsólstöður í dag, 21. desember klukkan 21:48 nákvæmlega upp á mínútu þegar myrkur er komið hjá okkur.

Sólstöður eru tvisvar á ári. Vetrarsólstöður á bilinu 20.-23. desember þegar dagurinn er stystur og Sumarsólstöður á tímabilinu 20.-22. júní er dagurinn lengstur og vart kemur nótt.

Munurinn á okkar tíma og tímasetningu Sólstöðvanna er vegna þess að Sólstöður eru miðaðar við tímann við Miðbaug og vegna veltings jarðarinnar er eðlilega ekki hádegi, það er bjartasti tími dagsins hér hjá okkur né miðnætti dimmasti tími nætur alltaf í samræmi við nákvæma tímasetningu Sólstöðvanna.

Langoftast bera Sólstöður upp á 21. desember en stöku sinnum, aðallega vegna þess breytileika frá ári til árs sem Hlaupár valda, geta þær lent á 22. desember og örsjaldan þann 23.

Í dag í Reykjavík rís sólin upp yfir sjóndeildarhringinn klukkan 11:21 og sest 15:30 og er því á lofti í aðeins 4 klukkutíma og 09 mínútur. Hádegi, það er sá tími dagsins sem bjartast er, er klukkan 13:26 sem er klassískt dæmi um hve við stillum klukkuna hjá okkur vitlaust miðað við sólargang að það muni um einum og hálfum tíma frá klukkan 12 sem almennt er miðað við sem hádegi. En það er annað mál og í rauninni ekkert sjálfsagt að miða klukkuna við nákvæman sólartíma.

Þó er bjart lengur því birta fer að degi nokkru áður en sólin rís og í dag birtir að degi kl. 10:03 og myrkrið tekur aftur yfir kl. 16:49. Því er bjart í dag á þessum stysta degi ársins hér í norðrinu í 6 klukkutímar og 46 mínútur þótt sólin sé skemur á lofti.

En hvað sem líður þeim mun sem bjartast er hér hjá okkur undir Norðurheimskautsbaug og raunverulegum Vetrarsólstöðum sem upp á mínútu er ekki fyrr en í kvöld þegar orðið er myrkur hér hjá okkur, vil ég óska öllum til hamingju með Vetrarsólstöðurnar því þær eru hin raunverulega hátíð ljóssins þegar dagurinn er stystur ár hvert og fer síðan að lengjast dag frá degi eftir þær.

Gleðilega sólarhátíð!

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.