Fullt roðagilt Jarðaberjatungl heimsækir okkur í kvöld þann 5. júní 2020

Tungl verður fullt að kveldi 5. júní þetta árið klukkan 19:12 og ef veður leyfir mun verða hægt að sjá það lágt á lofti og rauðleit líkt og júní tunglið vanalega er.

Samkvæmt Almanaki Háskólans rís tunglið ekki fyrr en klukkan 23:23 um kvöldið svo við munum ekki sjá það á þeirri mínútu sem það er í mestri fyllingu en veðurstofan „lofar“ okkur að þegar það rís upp fyrir sjóndeildarhringinn munum við geta barið það augum.

Fullt tungl í júní er oft kallað Jarðaberjatungl (e. Strawberry Moon) og er uppruni þeirrar nafngiftar úr tungumáli Algonquin ættflokka frumbyggja í austurhluta Norður-Ameríku.

Nafnið er tilkomið vegna þess að júní var tíminn til þess að safna fullþroskuðum villtum jarðarberjum á því svæði þar sem ættflokkarnir bjuggu áður fyrr og landnemar Ameríku tóku upp nafnið Strawberry Moon frá þeim. Sökum skilyrða í andrúmslofti jarðar á þessum tíma árs er það einnig mun rauðleitara en almennt gerist.

Fullur júní máninn hefur verið kallaður fleiri nöfnum. Í Evrópu voru áður fyrr brúðkaup algeng í júní og mánuðurinn einmitt nefndur eftir Rómversku gyðju hjónabandsins Juno. Var fullt tungl í júní meðal annars kallað Hunangs tungl og er talið að þaðan sé  komið hið engilsaxneska nafn hveitibrauðsdaganna, „honeymoon.“ Einnig var það kallað Mead Moon og Rósarmáni sem dæmi, þar sem margar tegundir rósa blómstra á þessum tíma árs.

Á Íslandi tíðkast ekki að nefna fullt tungl neinu nafni heldur nýtt tungl það er fyrsta tungl og fæðingu nýs tunglmánaðar. Því er ekki þekkt að áður fyrr hafi fullt tungl í júní átt sér nokkurt nafn og villt íslensk jarðarber eru ekki tilbúinn til tínslu fyrr en að hausti svo nafnið Jarðarberjatungl er ekki viðeigandi hér á landi hvað berin varðar. Aftur á móti er júnímáninn ætíð lágt á lofti og mjög rauðleitur svo að nota hér uppi á Fróni hið forna frumbyggja nafn hans og líkja honum við jarðarber er þó ekkert óeðlilegt hvað litinn varðar.

Veðurspáin fyrir föstudagskvöldið og nóttina er okkur hagstæð ef hún rætist, heiður himinn um allt land aðeins stöku skýjabakkar á Norðausturlandi svo Jarðarberjamáninn ætti að verða okkur sýnilegur þar sem hann rís rauður rétt yfir sjóndeildarhringinn í kvöldhúminu.

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.