Nýtt tungl kviknaði kl. 06:41 í austri eftir sólstöður – Og hvað skal svo barnið heita?

Svo vildi til þetta árið 2020 að sumarsólstöður lögðust við fæðingu nýs tungls sem markar upphaf nýs tunglmánaðar og fast við fylgir sólmánuður sem líklegt er að hafi verið sólstöðumánuður hins forna misseristals sem var það tímatal sem sem landnámsfólk á Íslandi notaði og var þróað hér á landi áfram aldirnar meðan notkun þess var lögð af annarstaðar og enn í dag miðum við marga okkar tylli- og hátíðisdaga ennþá við íslenska misseristalið.

Sólstöður 2020 og nýtt tungl

2020 voru sumarsólstöður á Íslandi nákvæmlega klukkan 21:44 að kveldi laugardagsins 20. júní. Sólsetur í Reykjavík það kvöld var rétt eftir miðnætti  eða kl. 24:05. Tunglið reis síðan upp á himininn kl. 03:11 þá um nóttina og kviknaði kl. 06:41 í austri og hófst þá nýr tunglmánuður en tunglmánuður er miðaður við fæðingu tunglsins en ekki fyllingu þess eða fullt tungl eins og sumir telja.

Hvað skal svo barnið heita

Venja er að gefa tungli hvers tunglmánaðar nafn. Þetta nýja tungl fæðist í júní og hefst með því nýr tunglmánuður. Samkvæmt misseristalinu hefst sólmánuður daginn eftir svo kviknun þess er í bláenda skerplu eða nóttina áður en sólmánuður hefst.

Oftast var nafngiftarreglan samkvæmt núverandi almanaksmánuðum að miða við þann mánuð sem hefst í viðkomandi tunglmánuði. Því hófst almanaksmánuðurinn júní í þeim tunglmánuði sem byrjaði með nýju tungli þann 22. maí og júlí mun hefjast í þessum tunglmánuði sem nú gengur í garð.

Eftir þessari reglu ætti því ekki að kalla það júnítungl, því það var ekki miðað við í hvaða almanaksmánuði viðkomandi tungl kviknaði heldur öfugt, það er í hvaða tunglmánuði viðkomandi almanaksmánuð hófst.

Nýtt tungl sem kviknaði í janúar var því oftast kallað febrúartungl sem dæmi og því samkvæmt er þetta tungl júlítungl en ekki júnítungl.

Þau tungl misseristalsins sem voru nefnd eftir mánuðum voru aftur á móti nefnd eftir því í hvaða misserismánuði þau kviknuðu og þetta tungl kviknar sunnudaginn 21. júní í bláenda skerplu eins og áður er nefnt og sólmánuður hefst daginn eftir þann 22. júní. Svo það rétt nær því og eðlilegast að kallast þá skerplutungl.

Þar höfum við það. Þótt ekki séu til áreiðanlegar heimildir þess efnis að alltaf hafi verið notast við sömu aðferðirnar við nafngiftir tungla eru þessar tvær þó það vel þekktar að við ættum að geta með góðri samvisku kallað þetta nýfædda tungl, júlítungl eða skerplutungl.

Og það voru ekki bara sumarsólstöður og nýtt tungl heldur einnig hringmyrkvi á sólu en því miður sást hann ekki hér á landi.

Ytarlegri lesning
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Sólstöður
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Sólmánuður

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.