Öskudagur er í vestrænni kristni fyrsti dagur lönguföstu sem hefst í 7. viku fyrir páska og getur hann verið á bilinu 4. febrúar til 10. mars.
Dagurinn hefur lengi verið mikilvægur í kaþólska kirkjuárinu og nafnið á rætur í þeim sið að ösku af brenndum pálmagreinum frá árinu áður var dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag og oft til þess notaður sérstakur vöndur. Líka þekkist sá siður að smyrja ösku á enni kirkjugesta.
Á mörgum stöðum í Biblíunni táknar aska hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og askan minnir fólk á forgengileikann og hreinsar það af syndum sínum.
Öskudagur á Íslandi
Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld og leiða má líkum að því að það sé enn eldra. Dagurinn gegnir þar sama hlutverki hér og í öðrum kaþólskum sið í Evrópu. Langafasta átti að vera tími íhugunar og góðrar breytni auk föstunnar sem á Íslandi takmarkaðist yfirleitt við kjötmeti en gat einnig náð til fiskvöru og mjólkurafurða. Ef langt var gengið var fastað upp á vatn og brauð.
Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og nánast horfið hér á landi við siðaskiptin hélt fólk áfram að gera sér dagamun síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag.
Hlutverkaskipti bolludags og öskudags
Bolludagur sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum seint á 19. öld og þá tíðkaðist víða um landið að ganga í skrúðgöngu í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi.
Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að ganga í skrúðgöngu og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar upp fyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan smámsaman aftur verið að breiðast út á ný.
Önnur venja fluttist frá öskudegi til bolludags sem var það flengja með vendi og hlaut vöndurinn við það nafnið bolluvöndur. Vöndurinn virðist kominn frá þeirri hefð að dreifa ösku með vendi yfir safnaðargesti í kirkjum á öskudag í kaþólskum sið og guðhræddir menn flengdu sjálfa sig með vendi í iðrunarskyni. Við siðaskiptin fluttust flengingarnar yfir á aðra sem skemmtun og börn tóku þær að sér á bolludaginn hér á Íslandi.
Maskadagur
Þó hélst sá siður að klæðast búningum og ganga í hús með söng og leikjum áfram að vera á bolludaginn á Ísafirði og nágrenni og hefur haldist þannig alla allt frá um aldamótin 1900. Þar stendur hátíðin sem þau kalla Maskadagur alveg fram á kvöld svo krakkar fá frí í skólum á sprengidag í stað öskudags annarstaðar á landinu.
Öskudagspokar
Sú hefð tengd öskudeginum sem ekki finnst annars staðar en á Íslandi er að hengja öskupoka á fólk. Líklega má rekja upphaf þess til kaþólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið.
Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld en er mögulega eldri. Hér skiptist pokasiðurinn lengi vel í tvennt eftir kynjum þannig að konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur.
Síðar breyttist siðurinn þannig að fyrst og fremst börn hengdu öskudagspoka á aðra og þá sérstaklega fullorðna og lykilatriði var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því. Innihald pokans breyttist líka og gátu þeir verið með litlum gjöfum eða miðum.
Þessi siður hefur þó nær alveg horfið og við tekið sá siður að börn gangi í grímubúningum í búðir og fyrirtæki og syngi til að fá sælgæti litlar gjafir eða annað góðgæti. Svipar sá siður til bandarísku hrekkjavöku hefðarinnar.
Dagsetningar öskudags á næstu árum
- 2020 – 26. febrúar
- 2021 – 17. febrúar
- 2022 – 2. mars
Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Öskudagur
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Bolludagur
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Sprengidagur
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Föstuinngangur
▶︎ Bæjarins besta, Maskadagur í dag