Þótt sumardagurinn fyrsti árið 2020 lendi því miður í miðju samkomubanni, lenda sumargjafirnar ekki í því

Sumardagurinn fyrsti er eini dagur íslenska misseristalsins sem er almennur frídagur og opinber fánadagur á Íslandi sem sýnir okkur hvað best hve þessi dagur hefur að öllum líkindum verið einn mesti hátíðisdagur Íslendinga í gegnum aldirnar því það hefur engum tekist að afnema hann jafnvel þótt Danakonungur hafi reynt það með lagaboði 1744 þá létu Íslendingar sér ekki segjast og þótt hann væri þar með ekki lengur messudagur hélt landinn hann sem frídagur frá almennri vinnu þótt lögleiðing hans sem almenns frídags hafi ekki verið komið á fyrr en mörgum öldum seinna eða árið 1971.

Sem dæmi um gleðskap sem kannski er uppruni þess að hátíðarhöld í dag haldin á þessum degi eru fyrst og fremst sniðin að börnum var að áður fyrr leyfðist krökkum að fara á milli bæja og leika sér við krakka þar. Eins það að um aldamótin 1900 þegar ungmennahreyfingin gerði hann að sínum helsta hátíðisdegi þá var dagurinn ekki löngu síðar gerður að sérstökum stuðningsdegi fyrir börn í Reykjavík, eða árið 1921 og lengi eftir það oft nefndur barnadagurinn. Og sjálfsagt er hann í hugum flestra einmitt það, hátíðisdagur barna á Íslandi en upp á þennan dag er hvergi haldið nema hér á landi og er hann algerlega séríslenskur. Þó halda Skandinavar upp á upphaf sumars með ýmsum hætti en ekki eins og við og ekki sama dag en flestir eru þeir nærri fyrsta degi hörpu, fyrsta sumarmánuði íslenska misseristalsins.

Örugg heimild um sumargleði sést ekki fyrr en í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar nefna þeir sumardaginn fyrsta sérstaklega sem sumarhátíð þar sem fólk gerði vel við sig í mat og drykk og gefnar sumargjafir.

Um miðja 19. öld þegar skipulega var byrjað að safna alþýðu heimildum kom fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið mesta hátíð næst á eftir jólum. Þó er margt sem bendir til þess að hann hafi jafnvel verið enn áður meiri hátíðisdagur en jólin.

Sumargjafir hafa tíðkast lengi því vitað er að þær tíðkuðust að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir komu til sögunnar en jólagjafir eru ekki svo ýkja gamall siður ólíkt því sem margir halda. Margir héldu í þann sið að gefa sumargjafir langt fram eftir 20. öld samhliða jólagjöfum. Þó virðist sem þær hafi nokkuð breyst hvað varðar hvað var gefið og þá frekar kannski ein en stærri gjöf sem oftast tengdist sumrinu. Það gat verið veiðistöng, útilegutjald, leikföng til útileikja eins og boltar og krokket  eða annað slíkt sem fyrst og fremst eða eingöngu er brúkað á sumrin. En þá oftast nær þá aðeins ein gjöf og sem gat á margmennum heimilum nýst öllum.

Ennþá eimir eftir af þessum sið. Sérstaklega meðal þeirra sem ólust upp við hann seint á síðustu öld og muna hve ánægjulegar þessar gjafir voru og það fólk gefur börnum sínum eða barnabörnum ennþá sumargjafir. Hvort þessi siður muni leggjast af núna þegar velmegun þjóðarinnar er orðin það mikil að erfitt og dýrt getur reynst að toppa allt það sem til er í geymslum heimila og bíður þess að sumarið komi svo hægt sé að nota það á eftir að koma í ljós.

Annaðhvort yrði það þá sennilega með þeim hætti að færi að tíðkast að slíkt væri keypt, hvort sem það væri fyrir alla fjölskylduna eða börnin sérstaklega og ekki dregið fram fyrr en á þessum degi. Eða sem líklegra verður að teljast eins og um svo marga árstíðabundna eða dagatengda siði sem tíðkast í dag að kaupmenn myndu fara að auglýsa sérstaklega fyrir þennan dag sumarvörur á kostakjörum undir nafninu sumargjafir. Þannig var það með konudagsblómin sem og bolludagsbolluna að báðir þeir siðir eru komnir frá kaupmönnum.

Svo þótt það séu engar útihátíðir þetta árið þá er full ástæða til að halda í þann sið að gefa krökkum, já og í leiðinni oftlega allri fjölskyldunni, sumargjöf sem allir geta notið saman þegar okkur er nú boðið og beðinn um að ferðast um landið fyrir fimm þúsund kall.

Gleðilegt sumar öllsömun.

 

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.