Jóladagur

Jóladagur eða Kristsmessa, hin Kristnu Jól, er Kristin trúarhátíð haldin árlega þann 25. desember og minnast þá Kristnir fæðingu Jesú sonar Maríu meyjar. Upp á Jóladag er haldið um allan hinn kristna heim og víða annars staðar jafnvel þar sem kristni er í miklum minnihluta.

Hátíðin er þó ekki á sama tíma alls staðar. Hjá Mótmælendum og Rómversk Kaþólskum er Jóladagur þann 25. desember en í Austurkirkjunni er Jóladagurinn haldin um það bil hálfum mánuði síðar eða þann 6. janúar sem er eldri dagur fyrir þessa hátíð en 25. desember. Þeir sem miða við 25. desember líkt og við halda aftur á móti upp á þann dag sem hinn Þrettánda dag Jóla.

Á Íslandi sem og á hinum Norðurlöndunum er þetta eina kirkjulega hátíðin sem eitthvað verulega er haldið upp á. Hér á landi er Jóladagur Lögboðin frídagur og Opinber Fánadagur.

Tímasetning Jóladags

Í Biblíunni stendur hvergi hvenær Kristur fæddist. Fyrstu kristnu söfnuðirnir fyrir botni Miðjarðarhafs töldu fæðinguna ekki eins mikils virði og skírnina og þó sérstaklega dauðastundina þegar menn fæddust til hins eilífa lífs enda er dauðdagi Jesú Krists tímasettur í Biblíunni mjög nákvæmlega.

Um tveim öldum eftir áætlaða fæðingu Krists tóku kristnir menn samt að velta fæðingardegi hans fyrir sér. Fyrsti fæðingardagurinn sem menn komu sér saman um var 6. janúar samkvæmt Rómverska Júlíanska tímatalinu. Þarna eins og með marga aðra daga kirkjunnar tóku þeir yfir eldri tyllidag en 6. janúar hafði tengst flóðunum í Níl frá fornu fari.

Hann var nefndur Opinberunarhátíð (l. Epiphania) en sagt var að Jesús hefði opinberast á fjóra vegu: við fæðinguna, tilbeiðslu vitringanna, skírnina í ánni Jórdan og brúðkaupið í Kana þegar hann framdi fyrsta kraftaverkið. Á 4. og 5. öld fór að tíðkast að minnast fæðingarinnar þann 25. desember en skírnar Krists og Austurlandavitringanna 6. janúar. Formlega var ákveðið með það fyrirkomulag árið 567 á 2. kirkjuþinginu sem haldið var í Tours í Frakklandi.

Þegar kristni var gerð að ríkistrú í Rómaveldi seint á 4. öld var ákveðið að gera eldri skammdegishátíð, sólhvarfadaginn, að fæðingardegi Jesú Krists en kristnir voru þegar farnir að halda upp á þessa hátíð. Á sólhvarfadaginn sem hét formlega Fæðingardagur hinnar ósigrandi sólar (l. dies natalis Solis invicti) var fagnað endurkomu sólarinnar sem lífgjafa.

Sólhvörfin færðust til í Júlíanska tímatalinu en á þessum tíma það er 4. öld bar þau upp á 25. desember. Kirkjan tengdi þessar hátíðir saman með því að segja að Jesú Kristur væri hin eina sanna sól sem hefði sigrað dauðann og hefði hann sjálfur sagst vera ljós heimsins.

Sambærileg sólhvarfahátíð var þann 24. júní sem lengsta dag ársins. Rómarkirkjan ákvað að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á þessum fornu sólstöðuhátíðum á stysta og lengsta degi ársins á norðurhveli en samkvæmt Nýja testamentinu, Lúkasarguðspjalli 1:26 og 1:36, átti Jóhannes skírari að hafa fæðst sex mánuðum á undan Jesú.

Jóladagur sem fæðingarhátíð Krists er því við Vetrarsólstöður en Jónsmessa við Sumarsólstöður. Það var samt ekki stjarnfræðilega nákvæmt vegna framangreindrar skekkju í Júlíanska tímatalinu heldur munaði þremur dögum og því eru Jóladagur og Jónsmessa sem komu í stað hinna eldri sólstöðuhátíða þremur dögum frá stjarnfræðilegum Vetrar-og Sumarsólstöðum.

Nafnið Kristsmessa eða Jól

Í Skandinavíu og víðar í Norður Evrópu var til fyrir á svipuðum tíma árs í svartasta skammdeginu þriggja daga hátíðin Jól, sem þó er ekki vitað hvenær haldin var nákvæmlega og varð það ofan á í flestum þeim löndum þegar þær tóku upp Kristna trú að nota gamla nafnið Jól yfir Kristsmessu sem er hið Kristna nafn fæðingarhátíðarinnar.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Jól
▶︎ Almanaksvefurinn, Aðfangadagur Jóla
▶︎ Almanaksvefurinn, Annar í Jólum-Stefánsdagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Hátíðardagatal Íslensku Þjóðkirkjunnar
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi
▶︎ Almanaksvefurinn, Opinberir Íslenskir Fánadagar
▶︎ Vísindavefurinn, Hverjir eru helstu hátíðisdagar kirkjuársins og hvað gerðist á þeim?
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)