Aðfangadagur Jóla

Aðfangadagur Jóla eða bara Aðfangadagur eins og hann er oftast nefndur, er hátíðardagur í kristinni trú haldinn árlega þann 24. desember. Hann á sér einnig gömul samheiti eins og Affangadagur eða Tilfangadagur.

Orðið Aðfangadagur mun að líkindum vera þýðing á gríska orðinu parasceve sem þýðir undirbúningur og var notað um föstudaginn fyrir Páskahelgina það er Föstudaginn langa. Núorðið er Aðfangadagur nær eingöngu notað um dagurinn fyrir Jóladag þann 24. desember og því nefndur svo. Aðfangadagur Páska og Aðfangadagur Hvítasunnu voru einnig áður fyrr nöfn á laugardögunum fyrir þá helgidaga.

Aðfangadagur ekki eiginlegur hátíðisdagur

Samkvæmt Hátíðadagatali Íslensku Þjóðkirkjunnar er Aðfangadagur Jóla ekki sérstakur hátíðisdagur. Hann markar lok Aðventu eða Jólaföstu og kl. 18.00 á Aðfangadag hefst Jóladagur. Ástæðan fyrir þessu er að í stað þess að miða upphaf dags við sólarlag eins og Gyðingar gerðu fastsettu kristnir menn upphaf daga við miðaftann og lifir það enn í Hátíðadagatalinu. Þessum sið fylgja Íslendingar enn hvað Jólin snertir þótt almennt sé ekki notast við þetta miðaftann viðmið hvað aðra hátíðisdaga varðar nema Nýjársdag en um miðaftann kl. 18:00 á Gamlársdag hefst hátíðleiki Nýársdags. Þetta er ástæða þess að í helgi- og frídagaalmanakinu eru þessir tveir dagar, það er Aðfangadagur og Gamlársdagur aðeins frídagar til hálfs, það er frá miðaftann klukkan 18:00 en ekki eiginlegir hátíðisdagar sjálfir. Því tölum við oftast um Aðfangadagskvöld og Gamlárskvöld sérstaklega á meðan við notum ekki þetta kvöld viðskeyti við aðra helgi og frídaga.

Siðir á Aðfangadag nútildags

Árið 2010 framkvæmdi Gallup á Íslandi könnun sem sýndi helstu venjur og siði og hve margir tækju þátt í þeim. Síðan hafa verið gerðar ýmsar sambærilegar eða svipaðar kannanir sem sína þó flestar sömu eða svipaðar niðurstöður en þessi könnun hafði það fram yfir margar aðrar að spyrjast fyrir um fleiri þætti en flestar aðrar og ólíklegt að siðir okkar hafi breyst mjög mikið síðan þá þótt vissulega breytist allir siðir jafnt og þétt enda það eðli þeirra að breytast með breyttum lifnaðarháttum og hugsanagangi. Sumir dala og hverfa á meðan nýir spretta upp og verða að viðteknum venjum. Því er ástæða þótt ekki sé þessi könnun alveg ný á nálinni að tíunda helstu niðurstöður hennar um hvernig siðum var háttað og hversu almennir þeir voru árið 2010 meðal okkar Íslendinga þar sem komið er inn á þá flesta.

Íslendingar fagna Aðfangadegi og Jólunum hver með sínum hætti og eru siðir mismunandi eftir fjölskyldum þótt ákveðnir siðir séu viðhafðir á flestum heimilum þá eru af þeim fjölmargar útgáfur og oftast skapast ákveðnar venjur í kringum þá þótt sjálfir siðirnir séu að kjarna til þeir sömu og hjá næsta manni.

Oft er sagt að Jólin og sérstaklega Aðfangadagur sé hátíð barnanna og þá ekki síst vísað til jólagjafanna og tilhlökkunar krakka yfir því hvað muni leynast í pökkum þeim merktum. Hjá flestum er mikið lagt upp úr góðum kvöldverði sem eitt sinn var nánast helgispjöll ef hann hófst ekki nákvæmlega klukkan sex og stillt á Ríkisútvarpið þar sem kirkjuklukkuhljómar hringdu Jólin inn en þótt ennþá leggi fólk mikið upp úr góðum og oft miklum hátíðarkvöldverði er þetta með kirkjuklukkurnar og að sest sé til borðs nákvæmlega klukkan sex frekar á undanhaldi enda getur það verið mjög stressandi að keppast við ákveðna tímasetningu og fólk í æ ríkara mæli vill að Jólin og þarmeð Aðfangadagskvöld sé eins afslappað og kostur er. Algengast er að gjafir séu opnaðar eftir matinn og færst hefur í vöxt að fólk fari til Miðnæturmessu.

Í ofangreindri könnun kom meðal annars fram að 98% landsmanna gefa jólagjafir. Menn gefa ekki bara sínum nánustu gjafir því 70% af fullorðnum Íslendingum styrkja góð málefni fyrir eða um Jólin. Þar kemur líka í ljós að þeir eldri eru gjafmildari en þeir yngri sem í sjálfusér er ekkert skrítið enda oftast fleiri afkomendur með árunum og einnig fjárráð sérstaklega eftir að börnin eru flogin úr hreiðrinu svo afar og ömmur þótt það geti verið hjá sumum æði margar gjafir að gefa sérstaklega ef afkomendurnir eru margir eru oft það fólk sem gefur mest. Þó þar sem svo ríkt er að Jólin séu hátíð barnanna eru oftast dýrustu gjafirnar frá foreldrum til þeirra barna sem ekki eru orðin hálffullorðin. Almennur og mikill áhugi er á jólaskrauti og þá sérstaklega jólaljósum og en yfir 90% heimila eru skreytt með slíku. Frá því að Gallup gerði þessa könnun árið 2010 hefur ef eitthvað er sérstaklega jólaljósaskreitingar orðið æ meiri og meiri og fólk í ríkara mæli skreytir hús sín og almennt utandyra og virðist það bara vaxa frekar en hitt frá ári til árs. Ákveðin hús eru svo ríkulega skreytt af fólk gerir sér sér ferð til þess að líta dýrðina augum. Varðandi jólatré þá voru 40% heimila með lifandi jólatré en 12% heimila með ekkert tré þegar þessi könnun var gerð.

Um þriðjungur Íslendinga sótti guðsþjónustu um Jólin þó frekar eldra fólk en það yngra í könnuninni 2010. Eins sóttu fleiri íbúar landsbyggðarinnar messur eða 41% en 30% íbúa á Höfuðborgarsvæðinu. Seinni árin hefur þó færst í vöxt að sækja Miðnæturmessu á Aðfangadagskvöld og það ekki svo mikið bundið við aldur. Sumt fólk sem annars aldrei sækir kirkju fer í þessa einu messu ár hvert og líka trúlausir. Kannski er það vegna þess að fólki verður meir og meir tíðrætt um hvað Jólaundirbúningnum fylgi mikið stress og margir kvíða Jólaföstunni á hverju ári og að fólk sé að sækja frið frá öllu amstri Jólanna í Miðnæturmessuna, hún sé fólki jafnt trúuðum sem trúlausum einskonar afstressun eftir undirbúning Jólanna á Jólaföstunni. En þetta er þó bara hugleiðing mín og hef ég ekki séð neina könnun sem sýnir afhverju annarsvegar fólk sækir þessa ákveðnu messu, kannski þá einu á ári, né hvers vegna trúlausir gera það líka né hví því fólki virðist fjölga sem hana sækir. Því er ég bara að geta mér þessa til. Þó er ein af þeim breytingum sem orðið hafa á þjóðfélaginu sem hefur á áhrif á ýmsar Jólavenjur og siði og að sækja Miðnæturmessu er ein þeirra sem er mikil fjölgun aðfluttra og að stór hluti þeirra er Kaþólskur og Miðnæturmessa um Jól er mun ríkari hefð meðal Kaþólskra en Mótmælenda trúar en þetta er þó ekki einasta skýringin aðeins ein þeirra.

Fardagar Huldufólks

Þótt ekki hafi komið fram í ofangreindri Gallup könnun og mér ekki vitandi hvort um hafi verið sérstaklega spurt hversu mörg okkar viðhöfum ennþá þann sið sem var einn sá útbreiddasti sérstaklega á Aðfangadagskvöld en einnig sumum öðrum tyllidögum á Íslandi að húsfreyjan á heimilinu samkvæmt sögum frekar en eitthvert annað heimilisfólk gekk í kringum bæinn og mælti þessi orð:

„Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, fari þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu“.

Þótt þessi siður sé ekki bara tengdur Aðfangadagskvöldi og einnig viðhafður suma aðra tyllidaga ársins þá var hann áðurfyrr almennari og hafði dýpri merkingu Aðfangadagskvöld en aðra daga.

Um það vitna þær mörgu sögur sem segja frá heimsóknum Huldufólks í hýbýli fólks á meðan fólk fór til Jólatíða og skildu heimili sín eftir mannlaus eða ein manneskja látin gæta þeirra meðan aðrir hlustuðu á Jólamessuna og hélt það þar veislu en Huldufólk er sagt flytjast búferlum um Jól, það er þau sem á annaðborð eru að flytja það árið og því þeirra Fardagar og líklegt samkvæmt þessum sömu sögum að Huldufólk hafi viðhaft sama sið og hérnaheimsfólk að allir sem á annaðborð voru að flytja frá einu híbýli til annars skyldu gerðu það á sama tíma.

Þó munar nærri hálfu ári frá Fardögum hérnaheimsfólks sem eru frá 31. maí til 6. júní um miðja Skerplu og lok vors og upphaf sumars en Huldufólkið að flytja um Jól kringum Vetrarsólstöður og upphaf Mörsugs mánuði fyrir Miðjan vetur. Hvergi er að finna neina skýringu á því hversvegna þau kjósa að taka sig upp með allt sitt hafurtask í miðju skammdeginu og flytja og ekkert í öðrum sögum af þeim sem skýrt getur val þeirra á þessum dögum né Aðfangadagskvöldi og Jólanótt sem sérstökum veisludegi.

Heldur er enga skýringu að finna afhverju þau stoppa við í miðjum flutningum og halda veislu í híbýlum manna. Því ef maður setur sig í spor hérnaheimsfólks að vori hafandi aðeins fimm daga til þess að flytja með allt sitt fólk og búslóð frá einum bæ til annars þá gefur það vart nokkurt tilefni til þess að stoppa á miðri leið til þess að halda veislu. Líklegra er að fólk hafi viljað komast sem fyrst til síns nýja heimilis og byrja að koma sér fyrir.

Hvað þetta varðar þar sem síðan þessi Gallup könnun var gerð hafa aðrar kannanir sýnt að því fólki fjölgar frá ári til árs sem sækir Miðnæturmessu á Aðfangadagskvöld og forvitnilegt væri að vita hvort einhver þeirra hafi jafnhliða tekið upp þennan sið eða láta sér í léttu rúmi liggja þótt kannski verði haldið partí heima hjá þeim á meðan þau sækja messuna.

Og síðast en ekki síst má ekki gleyma því að á Aðfangadag Jóla kemur síðastur þeirra Jólasveinastaula til byggða sjálfur Kertasníkir 🙂

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Aðfangadagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Jóladagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Annar í Jólum-Stefánsdagur
▶︎ Almanaksvefurinn, Frídagar á Íslandi
▶︎ Árbók Hins Íslenzka fornleifafélags, Affaradagur jóla
▶︎ Vísindavefurinn, Hverjir eru helstu hátíðisdagar kirkjuársins og hvað gerðist á þeim?
▶︎ Almanak Háskóla Íslands, Almanaksskýringar-Aðfangadagur
▶︎ Árni Björnson, Saga daganna (Mál of menning, 2007)