Tveir fyrstu Jólasveinarnir þeir Stekkjarstaur og Giljagaur hafa þá sérstöðu í þeirri nafnaröð sem við notum í dag yfir Jólasveinana að heita nöfnum eftir hlutum sem eru bæði utandyra og fjarri híbýlum fólks á meðan allir hinir tengjast einu eða öðru innandyra hvort sem það er í útihúsum eða inn í híbýlum fólks.
Annað dæmi sem greinir þá tvo frá bræðrum sínum er að í Grýlukvæði frá 18. öld eru þeir einfaldlega ekki einusinni kallaðir Jólasveinar heldur er Giljagaur sagður bróðir Grýlu og Stekkjarstaur sagður vera einn af hyski Grýlu og sérstaklega nefnt að hann væri grimmur við unga sveina.
Svo hver og hvað skildi þá Stekkjarstaur raunverulega vera? Í greininni Nöfn jólasveina á vef Árnastofnunar sem Árni Björnsson ritaði tekur hann saman öll þau nöfn sem fundist hafa á Jólasveinum og meðal annars flokkar þá eftir hverskonar staular hver þeirra er. Þar fer einna mest fyrir matartengdum sveinum og þjófum, hrekkjalómum og það sem hann kallar náttúruvætti og af þeim þrettán sem vitja okkar í dag setur þá tvo, Stekkjarstaur og Giljagaur í þann flokk en einnig Stúf þó að vísu með spurningarmerki enda sá sveinn nokkuð torræður að túlka og skilja jafnvel erfiðari en hinir tveir.
Ef við skoðum nafn Stekkjarstaurs, þá er hann nefndur eftir þeirri tegund fjárréttar sem notuð var til að mjólka kindur á vorin en restina af árinu var hún ekkert notuð og því skrítið að kenna hann við eitthvað hrófatildur úti á túni en að hann væri að reyna að sjúga ærnar inni í fjárhúsi því þær voru bara mjólkaðar í stekknum á vorin og fyrir Jólin var aldrei nein kind í stekk né hann í notkun. Stundum var hún þó notuð fyrir hey á vetrum en þá sett eitthvað til skjóls og hlífðar yfir heyið því stekkurinn er óskaplega lítil og léleg smíði enda þurfti hann ekki að vera annað. Þannig getum við skilið samlíkinguna betur þegar segir í Íslendingasögunum, „nú er hún Snorrabúð stekkur,“ að verið var að gera lítið úr Snorrabúð.
Tilgáta um hver Stekkjarstaur raunverulega er
Ef við skoðum hvernig stekkurinn var notaður á vorin til mjalta og hvernig nafn Stekkjarstaur gæti verið tilkomið, þá var það svo að aðeins valdar kindur voru mjólkaðar, svonefndar fráfærur og til þess að geta mjólkað þær þurfti að koma þeim í rétt og fá þær til að vera kyrrar á meðan þær voru mjólkaðar. Aðferðin sem notuð var var að taka lömbin þeirra og bera þau inn í stekkinn og eðlilega fylgdu þær á eftir.
Stekkurinn var tvískiptur með einu hliði inn og aftast í honum annað hlið sem lá inn í minna hólf sem kallað var lambakró og þangað voru lömbin sett en lokað hlið var frá lambakrónni inn í aðalréttina sem var fyrir kindurnar. Þetta tryggði að viðkomandi kind myndi ekki fara út úr stekknum þótt hann væri opin á meðan næstu lömb voru sótt, því þær viku ekki frá lömbunum sínum. Svona var þeim kindum sem ætlunin var að mjólka smalað saman í stekkinn með því að taka lömbin frá þeim og láta þær elta sig inn.
Þá var hægt að loka hliðinu á stekknum og hefjast handa við mjaltir. En það var ekki alveg svona einfalt. Allar kindurnar eðlilega voru jarmandi í einni kös aftast í réttinni við hliðið inn í lambakrónna og því þurfti að toga þær frá henni sem þær eðlilega voru ekki viljugar til, það er víkja frá lömbunum sínum og það hefur því annaðhvort þurft að halda þeim eða binda á meðan þær voru mjólkaðar. Þar sem það var almennt á verkahring stráka sjá um smalamennsku eins og þessa þá hefur það jafnframt verið í þeirra verkahring að halda þeim eða binda.
En þar sem stekkurinn var óskaplega einföld smíði og lítið í hann lagt, hlaðin úr torfi og grjóti og frekar lár miðað við almennar réttir, því ekki þurfti að óttast að kindurnar reyndu að stökkva yfir garðann á meðan lömbin voru í lambakrónni. En í hvað átti þá að binda kindurnar svo hægt væri að mjólka þær? Ekki bindur maður kind við torf og grjót svo líklegast hefur verið að í stekknum hafi verið reknir niður við garðann staurar sem þær voru bundnar við og ef kind var ekki samvinnuþýð gat smalinn alltaf haldið henni upp við garðann á meðan hún var mjólkuð.
Og þarna trúi ég að kominn sé hinn eini sanni stekkjarstaur, það er staur eða staurar til að binda kindur við sem erfitt var að mjólka inni í stekk. Það gæti líka skírt út hví nefnt er sérstaklega í Grýlu kvæðinu sem ég nefndi hér að ofan að Stekkjarstaur væri grimmur við unga sveina en það hefur jú verið sveinanna hlutverk að sjá til þess að binda kindurnar við stekkjarstaurinn sem og almennt sinna þeim.
Lélegur eða laus stekkjarstaur hefur því verið hverjum smala mikill ami og þeir sjálfsagt þurft að sinna þeim mikið en sterkir og fastir fyrir hafa verið miklir vinir og þar með góðir við smalanna á meðan þeir fúnu og lausu hafa verið grimmir við þá ungu sveina.
En þetta er þó bara tilgáta mín og hef ég svo sem ekkert annað fyrir mér í þeim efnum heldur en það sem ég hef ritað hér að ofan því hvergi hef ég séð né lesið nokkra tilraun til þess að reyna að skýra út nafn Stekkjarstaurs þótt nafn hans sé algerlega óskiljanlegt ef það er borið saman við nöfn bræðra hans. Auk þess sem hann kannski var ekkert bróðir þeirra, en hvað veit ég. Þetta er því bara tilgáta og fyrir hvern sem les að hugleiða hvort viðkomandi finnist að hún gæti staðist eða ekki.
Þarna gæti þá væri kominn skýringin á þessum staurfótum Stekkjarstaurs sem hvergi kemur fram neins staðar hví hann er með, skýringin væri þá að þeir væru stekkjarstaurar frá liðnu vori sem stauluðust úr tómum ónotuðum stekknum í vetrarmyrkrinu inn í fjárhús í leit að ærmjólk og því eðlilegt eins og Árni gerir að flokka Stekkjarstaur sem Náttúruvætti verandi stikandi tréstaurar í myrkri vetrar.
Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Almanaksvefurinn, Stekkjarstaur
▶︎ Almanaksvefurinn, Íslensku Jólasveinarnir
▶︎ Árnastofnun, Nöfn jólasveina