Íslensku Jólasveinarnir

Íslensku Jólasveinarnir eru Jólavættir af tröllakyni og voru upphaflega hafðir til að hræða börn dagana fyrir Jól. Foreldrar þeirra eru Grýla og Leppalúði og er Jólakötturinn húsdýrið þeirra. Upprunalega voru þeir ekkert í líkingu við alþjóðlega Jólasveininn eins og hann birtist í dag síðskeggjaður klæddur rauðum fötum og gefandi krökkum gjafir. En á 20. öldinni runnu þeir smámsaman saman við hann með tímanum og í dag eru þeir ekki sömu tröllin eins og þeim er upphaflega lýst.

Uppruni Jólasveinanna

Hugmyndir um útlit Jólasveinanna hefur verið breytilegt í gegnum aldirnar. Í fyrstu eru þeir taldir tröllum líkir. Þeim var líst að þeir væru klofnir upp í háls þó samt á hæð við meðalmann með klær í stað fingra kringlótta fætur og tærnar einnig klær. Þeir voru sagðir illir að eðlisfari líkastir púkum og lifa mest á blótsyrðum manna og óvönduðum munnsöfnuði. Þeir voru sagðir rógsamir og rángjarnir þá einkum á börn en eitt gátu þeir aldrei staðist en það var flot. Sagt er að sá siður hafi tíðkast til að milda þá svona rétt yfir blá Jólin með því að sletta floti á eldhúsveggin að kveldi Þorláksmessu og það brást aldrei að búið var að þurrsleikja  það af um morguninn. Síðar var þeim  lýst í nokkurnvegin mannsmynd en þó ennþá með trölls ímynd sína stórir ljótir og luralegir svo.

Smámsaman tóku þeir þó á sig nokkuð eðlilega mannsmynd og má telja líklegt að myndir Tryggva Magnússonar við Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum endurspegli nokkuð hugmyndir manna um þá á þessu síðasta skeiði.

Upp úr aldamótum 1900 taka þeir hinsvegar smám saman að fá æ meiri svip af fyrirmynd hins alþjóðlega Jólasveins sem  gosdrykkjafyrirtækið Coka Cola hannaði og markaðssetti á seinnihluta 19. aldar og byggði á Heilögum Nikulási sem er tengdur Jólunum í mörgum Evrópulöndum. Bæði rauðlituðu klæðin og innræti Nikulásar. Þeir verða vinir barnanna færa þeim gjafir syngja fyrir þau og segja sögur sem þeir hefðu aldrei gert hér áður fyrr. Mun kaupmannastéttin beint eða óbeint hafa stuðlað mjög að þessu með því að nota þá í Jólaauglýsingum að erlendri fyrirmynd. Þessi þróun hófst fyrst í bæjum en miklu síðar í sveitum.

Nöfn Íslensku Jólasveinanna

Í fyrstu útgáfu af Þjóðsögum Jóns Árnasonar koma nöfn Jólasveinana fyrst fyrir á prenti. Jón hafði kringum 1860 fengið þrjár nafnarunur með heitum á Jólasveinum. Ekki er alveg ljóst í hvaða röð hann fékk þær en hér eru þær nefndar eftir aldri heimildarmanna hans. Hinn elsti þeirra er síra Páll Jónsson fæddur 1812 og alinn upp fram yfir tvítugt vestur í Dölum en hafði verið prestur norður í Eyjafirði í næstum 20 ár á Myrká og Völlum í Svarfaðardal þegar hann sendi Jóni þessi 13 nöfn:

Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir.

Jón Árnason gat sem kunnugt er ekki birt nema um það bil helming þess efnis, sem honum hafði borist í fyrstu útgáfu þjóðsagnanna og af nöfnum Jólasveina valdi hann til þess romsu frá síra Páli Jónssyni sem af þeim sökum hafa síðan yfirleitt verið talin hin einu réttu jólasveinanöfn.

Tvö þessara nafna þau Giljagaur og Stekkjarstaur koma fyrir í Grýlukvæði frá 18. öld en þar eru þeir ekki kallaðir Jólasveinar. Giljagaur er þar sagður vera bróðir Grýlu og Stekkjarstaur er einungis sagður vera einn af Grýlu hyski og grimmur við unga sveina.

Næstur að aldri er síra Jón Norðmann á Barði í Fljótum f. 1820 og alinn upp í Skagafirði vestan Vatna. Hann segir að Jólasveinar séu 9 talsins en tilgreinir samt ekki nema 8 nöfn. Þrjú þeirra koma fyrir í þulu síra Páls:

Pottasleikir, Gluggagægir og Gáttaþefur, en auk þeirra hefur hann þessi nöfn: Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora. Þessi nöfn sáust ekki á prenti fyrr en í riti Jóns Norðmanns Allrahanda árið 1946.

Þriðju nafnarununa fékk Jón Árnason frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni sem fæddur var 1835 og ólst upp á Stað í Steingrímsfirði, og varð síðar aðstoðarprestur föður síns þar. Þulan var í tveim gerðum eftir tveim heimildamönnum Guðmundar Gísla. Í annarri voru nöfnin 13 en í hinni 14. Þær eru mjög áþekkar þótt nokkur afbrigði séu nema þrjú seinustu nöfnin. Upptalningin er svona með tilbrigðunum:

Tífill eða Tífall, Tútur, Baggi, Lútur eða Hnútur, Rauður, Redda, Steingrímur, Sledda, Bjálminn eða Bjálfinn sjálfur, Bjálmans eða Bjálfans barnið, Lækjaræsir, Litli-Pungur, Örvadrumbur.

Hin runan hefur í stað þriggja síðustu nafnanna þessi nöfn: Bitahængir, Froðusleikir, Syrjusleikir. Loks er fjórtánda nafnið, hinn alkunni Gluggagægir. Þessi nöfn sáust samt ekki á prenti fyrr en í hinni nýju útgáfu Þjóðsagna Jóns Árnasonar árið 1958 (III:284-285).

Orðið Jólasveinn gerir ótvírætt ráð fyrir að þessir náungar séu karlkyns. Samt koma fyrir nöfn sem virðast eiga við kvenkyns verur. Í gamalli þulu úr Steingrímsfirði eru bæði Redda og Sledda, og í Þjóðarsál Ríkisútvarpsins í desember árið 1990 uppgötvuðust tvær Vestfirskar Jólakellingar þær Flotsokka úr Dýrafirði og Flotnös úr Önundarfirði. Báðar stálu floti fyrir Jólin önnur í sokk sem einhver hafði ekki lokið við að prjóna en hin í nösina á sér.

Algengast er í þjóðsögum að telja þá sveina annaðhvort 9 eða 13. En alltaf komu þeir hver á eftir öðrum einn á dag og sá síðasti á Aðfangadag. Síðan hurfu þeir einn á eftir öðrum aftur til fjalla sá fyrsti á Jóladag. Líklega hefur talan 13 fest sig í sessi sökum þess að þá fór sá síðasti til fjalla á Þrettándanum Síðasta degi Jóla.

Fyrir tímatalsbreytinguna 1700 voru Jólin einmitt þann dag þann 6. Janúar og hugsanlega hefur þessi tala fests sem tenging milli Gömlu Jólanna og Nýju Jólanna. Þrettándinn var líka einnig nefndur Varadagur Jóla því ef veður var slæmt eða af einhverjum öðrum ástæðum var ekki hægt að halda þau á sínum vanalega tíma voru þau flutt yfir á Þrettándann.

Jólasveinar Jóhannesar úr Kötlum

Það er ekki fyrr en með ljóðinu Jólasveinarnir í bókinni Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum sem  kemur Jólasveinahefð nútíma Íslendinga í fastar skorður. Samkvæmt þessari hefð eru Jólasveinarnir þrettán heita og koma til manna í þessari röð:

 1. Stekkjarstaur kemur 12. Desember.
 2. Giljagaur kemur 13. Desember.
 3. Stúfur kemur 14. Desember.
 4. Þvörusleikir kemur 15. Desember.
 5. Pottaskefill kemur 16. Desember, almennt kallaður Pottasleikir
 6. Askasleikir kemur 17. Desember.
 7. Hurðaskellir kemur 18. Desember, áður fyrr oftast kallaður Faldafeykir
 8. Skyrjarmur kemur 19. Desember, almennt kallaður Skyrgámur
 9. Bjúgnakrækir kemur 20. Desember.
 10. Gluggagægir kemur 21. Desember.
 11. Gáttaþefur kemur 22. Desember.
 12. Ketkrókur kemur á Þorláksmessu, 23. Desember.
 13. Kertasníkir kemur á Aðfangadag, 24. Desember.

Ljóðinu um Jólasveinana líkur svo með Heimferð Íslensku jólasveinanna eftir Aðfangadag

Á sjálfa jólanóttina,
-sagan hermir frá,-
á strák sínum þeir sátu
og störðu ljósin á.
Svo tíndust þeir í burtu,
-það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.
Fyrir löngu á fjöllunum
er fennt í þeirra slóð.
-En minningarnar breytast,
í myndir og ljóð.

Jóhannes notar sömu nöfnin og birtust í þjóðsögunum 70 árum áður þó með þeirri undantekningu að hann setur Hurðaskelli í staðinn fyrir Faldafeyki og þannig hafa hin hálfopinberu Jólasveinanöfn verið þekktust síðan. Jóhannes notar líka afbrigðið Pottaskefill fyrir Pottasleiki og auk þess notar hann afbrigðið Skyrjarmur fyrir Skyrgám. Hvorugt þessara afbrigða hefur þó náð fótfestu í Jólatilstandinu.

Þessi afbrigði benda hinsvegar til þess, að Jóhannes hafi ekki endilega haft Þjóðsögur Jóns Árnasonar fyrir framan sig þegar hann orti vísurnar heldur farið eftir því sem hann lærði ungur vestur í Dölum. Og því kynnu þeir síra Páll á Myrká að hafa lært þuluna á sömu slóðum.

Heimildir og ýtarlegri lesning
▶︎ Wíkipedía, Íslensku Jólasveinarnir
▶︎ Árnastofnun, Nöfn Jólasveinana