Hin að ég tel lítt þekkta saga Konudagsins sem þær sjálfar skópu á síðustu öld með óeigingjörnu starfi sínu en hefur breyst yfir í vera mesti söludagur blómasala

Nú raða tyllidagar íslenska almanaksins sér hver á eftir öðrum þetta árið. Þorraþræll var í gær sem ætíð er á undan fyrsta degi góu, Konudeginum sem er í dag en ekki nóg með það, góutunglið fellur líka á daginn í dag þetta árið. Sem og að sökum þess hvenær páskar eru í ár hefst föstuinngangurinn með sínum tilheyrandi þremur eftirvæntingar og ætíð velkomnu dögum, þeim bolludegi á morgun svo sprengi- og öskudegi áður en langafasta hefst á öskudaginn.
En það er konudagurinn sem stendur upp úr í dag, því við höldum ekkert upp á hinn dularfulla þorraþræl sem ómögulegt virðist að finna haldbærar skýringar á, hvorki nafngiftinni né hví síðasti dagur þorra yfir höfuð beri eitthvað nafn en þannig er þó líku farið með síðasta dag góu sem einnig ber þrælsnafn, góuþræll og var áður fyrr sá dagur ársins sem menn óttuðust hvað mest sem versta dag ársins. Ófáir skipsskaðar með tilheyrandi mannskaða hafa orðið á þeim degi gegnum aldirnar sem og mannskaða veður og önnur náttúruvá. Svo það var með beyg í hjarta sem fólk gekk út að morgni fyrsta dags góu og litu til veðurs, því sú veðurtrú hvíldi á þeim degi sem og næstu tveim að þeir segðu til um jafnt veðrið á góunni sem og einmánuði og þar með góuþræl. En nánar um það síðar.

20. aldar saga konudagsins

En um konudaginn er heldur ekki mikið vitað í raun og veru, það er upphaf hans og aldur sem og siði honum tengdum né yfir höfuð hví haldið er upp á hann. Að færa konum blóm sem dæmi á þessum degi er ekki hægt að rekja aftur um nema fáa áratugi og eldri heimildir frá fyrri hluta 20. aldar benda allar til þess að það hafi í rauninni verið konur sem skópu þennan dag sem merkjasöludag en ekki gjafaþiggjendur sjálfar sem einstaklingar eins og þær eru í dag heldur voru það þær sem voru þær sem færðu gjafir til velferðarmála, mála sem skiptu sköpum.

Það byrjaði þegar verið var að safna fé fyrir byggingu Hallveigarstaða í upphafi síðustu aldar að þær konur sem að þeirri söfnun stóðu ákváðu að velja þennan dag sem annars ekkert sérstakt tilstand hafði verið á áður, sem söfnunardag. Þær hefðu þess vegna getað hafa valið hvaða annan dag sem var og ef þær hefðu ekki valið konudaginn til fjársöfnunar þá má telja ólíklegt að upp á hann væri neitt sérstaklega haldi í dag.

Seinna eða um miðja öldina eftir seinna stríð færðist söfnunin frá því að selja nælu sem sérstaklega var hönnuð fyrir þetta tilefni og varð að merki Hallveigarstaða, yfir í að kvenfélagskonur seldu merki fyrir slysavarnir sjómanna. Þannig var það fram undir 1960 er Lionsmenn tóku að miklu leiti yfir konudaginn sem söfnunardag með þeim hætti að beina orðum sínum fyrst og fremst til annara karlmanna að kaupa litla blómvendi til að færa eiginkonum sínum til þakklætis fyrir það þrekvirki sem þessi söfnunardagur þeirra var búinn að standa undir miklu að kostnaði við sjóslysavarnir meðal annars.

Þessa sögu má lesa ef farið er yfir dagblaða tilkynningar og auglýsingar í íslenskum dagblöðum frá aldamótunum 1900 og fram alla 20 öldina en hvergi kemur fram nein skýring á hvorki nafni dagsins né tilgangi ef yfir höfuð tilgangurinn var nokkur annar en að kalla hann einhverju nafni.

Óttinn við konudaginn

Fyrsti dagur góu var dagur sem fólk hræddist mjög sem og dagana tvo þar á eftir eins og ég nefni hér að ofan, því veðurspá fyrir góuna sem gat ráðið úrslitum um afkomu fólks og fénaðar sem og hvernig komandi sumar yrði gerði það að verkum að veðurspádómar á þessum degi voru teknir alvarlega því hvernig veður yrði góuna og einmánuð gat verið upp á líf og dauða.

Orðatiltækið að þrauka þorrann og góuna er ekki úr lausu lofti gripið, þetta var í gamla bænda og sjómannasamfélaginu lífsspursmál.

Aftur á móti sú hefð að menn gefi konum blóm á konudaginn hefst með söfnun Lionsmanna ttil góðgerðarmála og væri forvitnilegt að vita hví blóm urðu fyrir valinu en það var á þeim tíma þó orðin með tilkomu blómaverslana afskornum blóm orðið æ ódýrari og orðin klassísk vinar og ástargjöf karla til kvenna svo það hefur sjálfsagt legið beinast við.

En eins og tíðum verður í flestum viðskiptum sáu blómasalar að það að selja Lionsmönnum litla blómvendi í heildsölu væri kannski ekki besti bisanessinn og fóru því sjálfir að auglýsa blóm til sölu beint úr búðum sínum, sem síðan tók yfir alla blómasöluna og Lionsmenn lögðu niður þessa söfnun sína en hún hafði verið eins og allt starf þeirra sjálfboðastarf og innkoman runnið til góðgerðarmála líkt og verið hafði með konurnar í upphafi og fram eftir öldinni.

Því breyttist þessi dagur, konudagurinn með sinn óljósa uppruna, fyrst í söfnunardag sem konur stóðu fyrir til mikilvægra samfélags verkefna yfir í að vera söludagur félags karla á gjöfum karla til kvenna sinna sem þakklætisvott fyrir þeirra ötula og óeigingjarna starf sem þær voru búnar að sinna að ósérhlífni í meira en hálfa öld.

Kaupmenn taka yfir daginn frá konunum

Svona breyttist þetta um miðjan sjötta áratug síðustu aldar að þá tóku blómasalar að auglýsa sjálfir blóm á þessum degi undir nafninu konudagsblóm. Þórður á Sæbóli í Kópavogi mun hafa verið upphafsmaður þess en fyrsta blaðaauglýsingin sem hefur fundist frá Félagi garðyrkjubænda og blómaverslana er frá 1957.

Svo sú hefð sem núna er við lýði hefur breyst frá því að konur stæðu fyrir söfnunum til góðgerðarmála yfir í að vera einn mesti söludagur blómaverslana og tilefni fyrir karlmenn til að sýna konum vináttu sína ást og alúð.

Svona breyttust tímarnir á ekki meira en einni öld og þessa sögu um aðdraganda þess að yfir höfuð væri haldið upp á konudaginn með öðrum hætti en gera vel við sig í mat og drykk en að jafnaði aðra daga en sami siður tíðkaðist einnig á bóndadaginn á 19. öld og til eru skráðar heimildir þess efnis að það hafi verið það eina sem þessir tveir dagar höfðu sem skar sig frá öðrum dögum ársins, yfir í að konudagurinn sérstaklega og meira en bóndadagurinn, hefur öðlast þetta stóran sess í tyllidaga flóru okkar í dag.

Þessi saga dagsins frá 19. aldar bændamenningu yfir í bæjar og borgarmenningu 20. aldar er afrakstur af rétt nýlegu grúski mínu, svo hún kemur ekki fram í þeirri grein sem hér er á Íslenska Almanaksvefnum en mun gera það þegar ég verð búinn að fara ennþá dýpra í þessa sögulegu þróun. Þangað til er hún hvergi annars staðar til skráð mér að vitandi en í þessu bloggi mínu að minnsta kosti virðist engin annar hafa grafið ofan í þessa sögu og skrifað um hana.

Vona að þið séuð hér með nokkru fróðari um hvernig nútíma konudagsblómin eru tilkominn og það að baki þeim er þakklæti karla til kvenna fyrir þeirra óeigingjarna sjálfboðastarf þeirra að velferðarmálum á síðustu öld sem munaði mikið um.

Hvað erum við að halda upp á á konudaginn

En svo ég skjóti hér einu inn í endann frá eigin hjarta, þá eftir að ég komst að því hvernig þessi dagur þróaðist frá því að vera merkjasöludagur fyrir byggingu Hallveigarstaða og síðan áfram almennur söfnunardagur fyrir þörf samfélagsleg málefni yfir í að vera ein mesta tekjulind blómasala, sem ekki bætir neinu við velferð í samfélaginu heldur rennur eingöngu í vasa kaupmanna, þá þykir mér miður að svo hafi orðið.

Því finnst um að gera að sem flestir karlmenn muni hvað að baki þessum blómum liggur, það er þökk fyrir óeigingjarnt starf kvenna en ekki bara að tjá elskunni sinni ást sína, til þess er Valentínusardagurinn betur fallinn sem og að konur þekki 20. aldar sögu dagsins og að hann í dag er ekki tyllidagur þeim helgaður aftan úr öldum heldur þeirra dagur sem þær skópu sjálfar með óeigingjörnu starfi sínu.

Og fyrir jafnt konur sem karla hvet ég fólk sem það ekki veit til þess að kynna sér þá merku sögu sem upphaf og markmið Hallveigarstaða var í upphafi og hví Konudaginn ætti að skoða [nota bene, að mínu mati] með öðrum hætti en gert er í dag. Hann er þakklætisdagur þeirra kvenna sem gáfu honum í upphafi 20. aldar tilefni til að halda upp á hann, tilefni sem ég tel nokkuð víst að fæstir kunni nein deili á. Eða hefur eitthvert ykkar áður heyrt þennan hluta af sögu dagsins?
Nánari lesning
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Konudagurinn
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Góa
▶︎ Íslenski Almanaksvefurinn, Bóndadagur
▶︎ Vísindavefurinn, Hver er uppruni og saga konudagsins?

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.